Afmælisbörn 21. júní 2019

Inga J. Backman

Í dag eru þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Inga (Jónína) Backman sópran söngkona frá Akranesi er sjötíu og tveggja ára gömul í dag. Inga hóf ekki söngnám fyrr en hún komst á fertugsaldur og lauk söngkennaraprófi árið 1988, en hefur síðar fengist einkum við kirkjulegan söng en einnig ljóða- og óperusöng. Hún hefur ennfremur sungið með fjölmörgum kórum, og þá líka einsöng, auk þess að starfa sem söngkennari og kórstjórnandi. Inga hefur gefið út tvær plötur með söng sínum en einnig sungið á nokkrum plötum annarra listamanna, s.s. Eddu Heiðrúnar systur sinnar.

Dr. Jón Viðar Sigurðsson sagnfræðingur og fyrrverandi poppskríbent er sextíu og eins árs gamall í dag. Jón Viðar skrifaði um tíma um tónlist í Þjóðviljanum en hefur fyrir löngu helgað sér önnur áhugamál, hann hefur starfað um árabil í Noregi.

Viðar Hákon Gíslason bassaleikari er fjörutíu og fimm ára á þessum degi. Viðar hefur starfað með fjölda þekktra og óþekktra sveita og meðal þeirra má nefna Trabant, Funerals, Ó. Jónson & Grjóni, Púff, Motion boys, Quarashi, Traktor, Lone og Unun. Hann hefur einnig verið áberandi við hljóðupptökur og hefur aukinheldur leikið inn á fjölda platna annarra listamanna.