Curver Thoroddsen (1976-)

Bibbi Curver

Curver Thoroddsen er með litríkustu listamönnum landsins og sem tónlistarmaður hefur hann komið mjög víða við í listsköpun sinni, allt frá spilamennsku af ýmsu tagi til tón- og textasmíða, hljóðritana, hljóðblandana sem endurhljóðblandana, útgáfumála og allt þar á milli en hann þykir vera sér á báti þegar kemur að sköpun hljóðheima.

Birgir Örn Thoroddsen er fæddur í Reykjavík 1976 og hóf ungur að skapa tónlist í unglingahljómsveitum. Hinir vonlausu var fyrsta sveit Birgis en hann var svo líklega um fimmtán ára aldur þegar hann ásamt félögum sínum stofnaði hljómsveitina Kúk, þá var hann einnig farinn að búa til tónlist með nafna sínum og jafnaldra, Birgi Erni Steinarssyni (síðar Maus-verja) undir nafninu Slaughterhouse 5. Um það leyti hóf hann að vinna tónlist einn síns liðs með gítar og trommuheila að vopni auk söngraddar en síðar urðu tölvur hans aðal hljóðgjafar.

Það var árið 1991 sem Birgir hóf að kalla sig Curver í höfuðið á samnefndum hollenskum plastvörum en þá hafði jafnvel verið fyrirhugað að hljómsveitin Kúkur tæki upp það nafn. Hann kom töluvert fram opinberlega, einkum í félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum, og vakti nokkra athygli fyrir tónlist sína en ekki síður fyrir að koma stundum fram í kjól vopnaður brúðu.

Árið 1992 stofnaði Bibbi Curver eins og hann var oft nefndur á þeim árum, félagsskapinn F.I.R.E. ásamt nokkru öðru tónlistarfólki, sem ásamt því að halda tónleika með innlendu og erlendu tónlistarfólki gaf einnig út tónlist, m.a. safnplötuna F.I.R.E. þar sem Curver var meðal flytjenda með tvö lög, þá þegar höfðu reyndar einnig komið út tvö lög með honum á safnsnældunni Strump 2 og í kjölfarið eitt lag á safnplötunni Núll & nix. Þess má geta að hann kom lítillega við sögu hinnar goðsagnakenndu sveitar Mauna, til stóð að hann kæmi fram með sveitinni í Músíktilraunum vorið 1992 þar sem bassaleikari sveitarinnar hafði yfirgefið hana á ögurstundu, sá hætti reyndar við að hætta á síðustu stundu en Curver var nokkuð viðloðandi sveitina, m.a. sem rótari og aðstoðarmaður en Arnar Eggert Thoroddsen bróðir Curvers var meðal meðlima hennar.

Curver spilaði nokkuð víða sumarið 1993 og m.a. á óháðu listahátíðinni Ólétt ´93, og um haustið kom hann fram í útvarpsþætti Dr. Gunna, Við við viðtækin þar sem leikin voru þrjú lög með honum en þau höfðu verið hljóðrituð sérstaklega fyrir þáttinn. Í kjölfarið gaf Curver lögin þrjú út ásamt þremur öðrum lögum sem höfðu verið hljóðrituð á tónleikum hans í félagsmiðstöðinni Árseli haustið 1992, á kassettu sem bar titilinn Hjá Dr. Gunna en hana gaf hann út sjálfur í sextán eintaka upplagi undir eigin útgáfumerki, Ullabjakk.

Curver

Þetta sama haust (1993) var Curver farinn að vinna nokkuð með félögunum í hljómsveitinni Stilluppsteypu sem voru meðal þeirra sem skipuðu F.I.R.E. hópinn, og í því samstarfi var tveggja laga sjö tommu skífa, Inside AM / Make star shine hljóðrituð og gefin út árið 1994 undir merkjum F.I.R.E.

Curver hafði hljóðritað lagið Kalt sem kom út á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld vorið 1994, lagið hlaut nokkra athygli og í kjölfarið bauð útgáfufyrirtækið Smekkleysa honum að gefa út plötu sem síðan kom út um haustið og bar heitið Haf. Lagið Kalt var einnig að finna á þeirri plötu en í annarri útgáfu. Í kynningu á plötunni sem var sex laga, var Curver kallaður trúbador framtíðarinnar en tónlist hans, sem þótti æði tilraunakennd féll ágætlega í kramið hjá gagnrýnendum fjölmiðlanna, platan fékk þokkalega dóma í Æskunni og ágæta í Morgunblaðinu og DV, reyndar var platan kjörin plata ársins hjá DV bæði 1994 og 95, sem vakti athygli. Þetta þótti ekki hvað síst góður árangur fyrir að Curver var þarna ekki nema átján ára gamall.

Curver þótti mjög hugmyndaríkur og ekki einungis þegar kom að tónlist en hann átti þá eftir að vekja töluverða athygli fyrir fjöllist sína, hann var um þetta leyti að nema við listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og átti eftir að feta listaveginn með áherslu á ýmsa gjörningalist, tónlistin var þó klárlega í aðalhlutverki á þessum árum en því er ekki að neita að leiðirnar skárust víða á ferli hans og t.d. má klárlega flokka næsta uppátæki hans sem gjörningalist eins og tónlist. Það fólst í því að gefa út snældur með lögum fyrir hvern dag ársins, alls 365 lög en hver kassetta bæri nafn mánaðanna, alls tólf snældur.

Verkefnið hófst í ársbyrjun 1995 og á næstu mánuðum komu út nokkrar snældur undir merkjum Ullabjakks (Janúar, Febrúar, Mars, Apríl o.s.frv.), Þannig gekk þetta þar til í september að hlé varð á útgáfunni hver svo sem ástæðan var, nokkur ár liðu uns verkefninu var lokað með útgáfu þeirra snælda sem eftir voru (árið 2006). Yfirleitt báru lögin titil dagsetningar þeirrar sem þau voru unnin en stundum var titill innan sviga aukreitis, snældurnar voru seldar á 365 krónur stykkið og því lítill gróði af sölu þeirra. Ekk liggur fyrir hversu stór upplög þeirra voru eða hversu vel gekk að koma þeim út í sölu. Heimild segir þær hafa verið endurútgefnar 2015.

Sex vikna kennaraverkfall á vorönn 1995 riðlaði nokkuð skólagöngu Curvers sem hafði þó fyrir vikið framan af ári góðan tíma til að vinna að „dagalagaverkefninu“ en einnig stofnaði hann ásamt nokkrum félögum hljómsveit sem sérhæfði sig í brimbrettatónlist, sú sveit hét Brim og sendi frá sér eina plötu sem kom út fyrir jólin 1995 og vakti athygli, e.t.v. átti sú útgáfa þátt í að trufla hitt verkefnið. Curver átti einnig eftir að vera viðloðandi fleiri hljómsveitir næstu misserin, hann kom t.d. við sögu hljómsveitarinnar Á túr sem hafnaði í öðru sæti Músíktilrauna 1996 og var meðlimur þeirrar sveitar um tíma en hún gaf út plötu 1997.

Það sama ár, 1997 sendi Curver frá sér sína næstu sólóplötu, þar var talan sjö meginþemað enda bar hún yfirskriftina Sjö. Á plötunni voru sjö lög, hún kom út 7. júlí og var gefin út í sjötíu og sjö númeruðum eintökum. Curver mun hafa tekið sjöuna alla leið á meðan sjö daga upptökum á plötunni stóð, hann vaknaði klukkan sjö á morgnana, gerði sjö armbeygjur og var sjö mínútur í sturtu. Þá var platan tekin upp á sjö rásir en hún var seld á 777 krónur. Platan sem að sjálfsögðu var gefin út á Ullabjakk-merkinu var endurútgefin árið 2007 á DVD-diski með endurhljóðjöfnun af henni auk ýmiss aukaefnis. Árið 1997 átti Curver einnig lag á safnplötunni Megasarlög en framlag hans þar var lagið Mæja Mæja, hann kom einnig við sögu í kvikmyndinni Popp í Reykjavík þótt ekki væri hann meðal flytjenda á plötu sem innihélt tónlistina úr myndinni.

Curver Thoroddsen

Curver stundaði nám við Listaháskóla Íslands á þessum tíma og lauk síðan BA gráðu þaðan árið 2000 en á námsárunum voru aðrar listgreinar eðlilega nokkur farnar að taka sitt pláss. Að námi loknu var þó yfirið nóg að gera í tónlistinni en hann hafði þá getið sér gott orð við hljóðvinnslu, skapandi hljóðheim sem mörgum gast að, hann var því farinn að vera meira í samstarfi við annað tónlistarfólk. Fyrr eru nefndar hljómsveitirnar Brim og Á túr en Curver starfaði jafnframt orðið við upptökur, hljóðblöndun og jafnvel flutning á plötum með tónlistarfólki eins og Berglindi Ágústsdóttur, Klink, Unun, Maus, Heiðu trúbador, Singapore Sling, Sigur rós, Dr. Gunna og Mínus en með síðast töldu sveitinni túraði hann um Bretland sumarið 2002. Árið 2001 hafði Curver staðið að stofnun djassklúbbsins Ormslev sem stóð fyrir uppákomum tengdum framsæknum tilraunadjassi og kom hann þar nokkuð við sögu, sem og á safnplötum sem klúbburinn sendi frá sér.

Árið 2003 hófst samstarf Curvers og Einars Arnar Benediktssonar en þeir hófu gera saman tilraunakennda hávaðaraftónlist undir nafninu Ghostigital og hafa þeir sent frá sér fjölmargar plötur undir því nafni, oftast einir en einnig í samstarfi við aðra, Ghostigital lifir enn góðu lífi í dag og hefur farið í tónleikaferðir, m.a. til Bandaríkjanna. Curver hefur lítið fengist við að gefa út sólóefni eftir aldamótin þótt hann hafi verið að koma fram í eigin nafni, m.a. með eins konar tónlistargjörninga. T.d. hefur hann í nokkur skipti háð tónlistarskákeinvígi við Steinunni Harðardóttur (Dj flugvél og geimskip) sem eru með þeim hætti að þau tefla skák og reyna að trufla hvort annað með háværum tónlistarflutningi á meðan. Hann vann að plötu á sínum tíma sem hann vann upp úr plötusafni sínu með því að hljóðrita allar plöturnar hverja ofan á aðra en af einhverjum ástæðum kom sú tilraun aldrei út. Reyndar kom út plata með honum árið 2004 en það var eins konar tíu ára endurútgáfa á plötunni Haf með ýmsu aukaefni s.s. lögum sem höfðu komið út á safnplötum, með Stilluppsteypu o.fl. á árunum 1991 til 1994, þessi endurútgáfa bar titilinn Sær 1991-94.

Árið 2005 kom hljómsveitin Sometime fram á sjónarsviðið með Curver innanborðs og árið 2006 kom fram samstarfsverkefnið Evil madness sem hann var hluti af einnig, hann starfaði með báðum sveitunum um tíma og hefur komið við sögu á plötum þeirra, þriðja sveitin sem hann hefur starfað með er hljómsveitin Dópskuld en sú hefur ekkert gefið út. Þá vann hann með hljómsveitinni Kimono um tíma og saman sendu þeir frá sér plötuna Curver + Kimono árið 2007 en hún hafði þá verið lengi í vinnslu, um var að ræða endurhljóðblöndun á plötu Kimono, Mineur agressif sem Curver hafði reyndar hljóðritað. Platan fékk fremur slaka dóma í Fréttablaðinu en ágæta í Morgunblaðinu.

Í febrúar 2006 birtist heilsíðu auglýsing í DV frá Curver þess efnis að hann hefði tekið upp nafnið Curver Thoroddsen og hefði því lagt skírnarnöfn sín til hliðar. Þessi formlega yfirlýsing hefur e.t.v. haft einhvern „gjörnings-legan“ tilgang en hún var jafnframt yfirlýsing gegn mannanafnanefnd sem hefur ekki vilja viðurkenna nafn hans.

Curver

Curver fór í framhaldsnám til New York og lauk þaðan MFA gráðu frá School of visual arts árið 2009, eftir nám hans þar hefur ekki farið eins mikið fyrir honum á tónlistarsviðinu hér heima en hann er þó langt frá því hættur afskiptum af tónlist, hann hefur mestmegnis unnið í hljóðverum en einnig fengist við sérstök verkefni í tónlistargeiranum, t.d. hélt hann utan um tónvísindasmiðju fyrir börn bæði hér og erlendis í tengslum við Biophilia-plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, samið tónlist m.a. til heiðurs Atla Heimi Sveinssyni, og fengist við kennslu í framhaldsskólum. Árið 2016 gaf hann út tveggja laga smáskífuna Veerle ásamt Heiðu trúbador undir heitinu Airwaves 2106 special en sú plata fór ekki hátt enda var upplag hennar aðeins tuttugu eintök.

Curver hefur eitthvað komið fram opinberlega síðustu árin sem tónlistarmaður, bæði sem Curver og með Ghostigital en einnig staðið fyrir svokölluðum 90‘s kvöldum sem plötusnúður. Þá má geta um tvær „hljómsveitir“ sem Curver hefur starfað með síðustu árin, Fjölskyldukvintettnum sem er eins konar fjölskylduhljómsveit systkina hans og foreldra þar sem hann leikur á saxófón, og svo verður ekki komist hjá því að nefna strákabandið Never2L8 en það er skipað nokkrum þjóðþekktum skeggjuðum strákum á miðjum aldri, sett saman fyrir Dag rauða nefsins árið 2017.

Tónlist Curvers er að finna á nokkrum safnplötum sem ekki hafa verið nefndar hér að ofan s.s. Motorlab#1: óvæntir bólfélagar (2000), ÚÚ 7 (2013), Lobster or fame: two decades of Badtaste (2003), Ís með dýfu (1995) og Alltaf sama svínið: Smekkleysa í 15 ár (2002).

Efni á plötum