
Vernharður Linnet
Fjögur afmælisbörn í tónlistargeiranum eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:
Vernharður Linnet djassfræðingur með meiru er sjötíu og sex ára. Vernharður er líklega þekktasti djassáhugamaður landsins en hann hefur komið að djasstónlistinni frá ýmsum hliðum, starfrækt og stýrt tímariti um djass (Tónlistartímaritið TT og Jazzmál), haldið úti útvarpsþáttum, verið gagnrýnandi á Morgunblaðinu og verið virkur í félagsmálum djassista, verið í stjórn Jazzhátíðar Reykjavíkur, Jazzvakningu og RúRek. Vernharður hefur verið heiðraður fyrir störf sín í þágu djass á Íslandi, hlotið heiðursviðurkenningu Jazzhátíðar Reykjavíkur og Bjarkarlaufið, viðurkenningu Samtóns.
Olga Guðrún Árnadóttir er sextíu og sjö ára. Hún hafði séð um barnatíma í Ríkisútvarpinu kornung þegar Ólafur Haukur Símonarson fékk hana til að syngja lög inn á barnaplötuna Eniga meniga. Eniga meniga er löngu orðin sígild í hjörtum Íslendinga, enda þekkja allir Ryksugulagið, Ég heyri svo vel, Það vantar spýtur og auðvitað titillagið Eniga meniga, en hún gaf einnig út plöturnar Babbidí bú og Kvöldfréttir.
Ingibjörg Stefánsdóttir söngkona er fjörutíu og átta ára gömul í dag. Ingibjörg fór sem fulltrúi Íslands í lokakeppni Eurovision 1993 þegar hún söng lagið Þá veistu svarið, áður hafði hún vakið nokkra athygli með hljómsveitunum Pís of keik og Sirkus Babalú, og gefið út efni með þeim.
Og þá er að síðustu nefndur hér rapparinn Árni Páll Árnason sem venjulega gengur undir nafninu Herra Hnetusmjör. Þótt hann komi upphaflega úr Hveragerði hefur hann kennt sig við Kópavoginn sem hann vísar oft til í lögum sínum, hann hefur gefið út nokkrar sólóplötur og átt fjölda laga sem notið hafa vinsælda þrátt fyrir ungan aldur en hann er tuttugu og fjögurra ára gamall á þessum degi.