Olga Guðrún Árnadóttir (1953-)

Olga Guðrún Árnadóttir

Olga Guðrún Árnadóttir sendi á sínum tíma frá sér eina af allra bestu barnaplötum íslenskrar tónlistarsögu að mati flestra þegar Eniga meniga kom út árið 1976, Olgu Guðrúnu er margt til lista lagt og því hefur tónlistin á tíðum þurft að víkja fyrir öðrum hlutum.

Olga Guðrún fæddist í Kópavogi 1953, fluttist tólf ára til Reykjavíkur og var um það leyti þegar farin að skrifa sögur svo ljóst þótt snemma að rithöfundur blundaði í henni, hún lærði sem barn á píanó en nam síðar eitthvað í sönglistinni og tónmennt eftir því sem heimildir herma. Hún vakti athygli sem þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu þegar hún sá um barnatíma útvarpsins í félagi við aðra en hún var þá aðeins sautján eða átján ára gömul. Olga vann það starf samhliða menntaskólanámi sínu og hún var ekki orðin tvítug þegar hún var orðin landsþekkt og vægast sagt umdeild eftir að hafa lesið eigin þýðingu á bókinni Uppreisnin á barnaheimilinu, í útvarpinu. Þá voru ýmsir ósáttir við umfjöllun hennar í barnatíma útvarpsins og voru lesendabréf Morgunblaðsins og Staksteinaskrifin um hana óvægin og full af hatri, t.a.m. var lagt til í einu slíku lesendabréfi að hún yrði vistuð á geðsjúkrahúsi en sjálf var Olga Guðrún á vinstri kantinum í stjórnmálum. Svo harkalega var vegið að henni að hún fékk morðhótanir og var um tíma ónáðuð með símhringingum allan sólarhringinn af fólki af hægri vængnum, Olga Guðrún var einungis tvítug að aldri þarna árið 1973. Hún var orðin öflug á fleiri vígsstöðvum því auk þess að fást við þýðingar fékkst hún einnig við annars konar ritstörf, t.a.m. að skrifa skáldsögur og leikrit.

Olga Guðrún var því orðin nokkuð þekkt strax upp úr tvítugu en fyrir flest annað en tónlist, reyndar hafði hún sungið í útvarpinu sextán ára gömul við gítarundirleik Sigurðar Rúnars Jónssonar en það kom flestum á óvart þegar spurðist út síðsumars 1975 að hún væri á leið til London til að taka upp barnaplötu sem hefði að geyma lög og texta eftir ungskáldið Ólaf Hauk Símonarson, sú tónlist hafði að einhverju leyti verið flutt á opinberum vettvangi s.s. í sjónvarpi en hluti hennar kom úr leikritinu Blái fíllinn sem Ólafur Haukur hafði samið. Hljóðfæraleikurinn á plötunni var að mestu í höndum Gunnars Þórðarsonar sem þá var löngu orðinn þekktur tónlistarmaður en hann annaðist jafnframt útsetningar og upptökustjórn, Olga Guðrún söng og lék á píanó á plötunni sem hlaut titilinn Eniga meniga eftir einu laga hennar. Þess má geta að Olga Guðrún fór beint eftir upptökutörnina í London til Kaupmannahafnar þar sem hún söng kvenréttindalög á kvenfrelsishátíð sem haldin var þar í borg, m.a. frumsamið efni.

Olga Guðrún á forsíðu Vikunnar

Eniga meniga kom út í desember 1975 og sló rækilega í gegn þrátt fyrir að koma út svo skömmu fyrir jól, platan fékk hvarvetna jákvæða gagnrýni í fjölmiðlum, mjög góða dóma t.d. í Vikunni og Þjóðviljanum (sem birti tvö dóma) og frábæra í Poppbók Jens Guð og í Morgunblaðinu sem hefði átt að koma á óvart eftir fyrri viðskipti Olgu Guðrúnar við blaðið og lesendur þess. Og reyndar notaði hún tækifærið og skaut aðeins á Morgunblaðið í viðtali sem þar var tekið við hana, þar sem hún var beðin um lokaorð sagði hún: „Að lokum legg ég til að Morgunblaðshöllin verði lögð í eyði“. Í kjölfar útgáfu plötunnar kom söngkonan fram ásamt hljómsveitinni Cabaret á nokkrum sveitaböllum og söng þá lög af plötunni við góðan orðstír og tóku ballgestir vel undir barnalögunum með henni.

Eniga meniga var tímamótaplata í öllum skilningi, hún var fyrsta barnaplatan sem hafði að geyma umfjöllunarefni daglegs lífs í nútímnum en ekki barnagælur eða einhvers konar vísanir í fornfálega sveitarómantík kynslóðanna á undan eins og textahöfundum var gjarnt á að gera, lögin þóttu ennfremur fersk, einföld og nútímaleg í senn og söngur Olgu Guðrúnar glaðlegur og einlægur. Lög eins og titillagið Eniga meniga, Ryksugan á fullu, Ég heyri svo vel, Drullum sull, Það vantar spýtur og Kötturinn sem gufaði upp hafa öll orðið klassísk fyrir löngu síðan og reyndar naut öll platan vinsælda meðal barna og fullorðinna og það var ekki síst það atriði að hægt er að tala um tímamótaplötu í þessu samhengi – þetta var barnaplata fyrir alla fjölskylduna. Eniga meniga seldist í um sjö þúsund eintökum á sínum tíma og var síðan endurútgefin af Fálkanum 1984 en ÁÁ-hljómplötur gáfu plötuna út í upphafi, hún hefur síðan aftur verið gefin út síðar á geisladisk og hefur selst frá upphafi í um tuttugu þúsund eintökum.

Olga Guðrún sem fáeinum árum áður hafði verið úthrópaður kommi og allt fundið henni til foráttu af vissum hópi fólks, var nú allt í einu orðin vinsælasta söngkona landsins, það var því fullkomlega eðlilegt að þau Ólafur Haukur hygðu á frekara samstarf í tónlistinni en þau höfðu þekkt hvort annað um árabil þótt ekki væru þau gömul í árum. Það varð þó ekki alveg strax sem sú vinna fór af stað þar sem Olga Guðrún sat mikið við skriftir á árinu 1976 en hún var um tíma í París að skrifa skáldsöguna Búrið sem síðar kom út 1977.

Olga Guðrún við skriftir

Haustið 1976 voru þau Olga Guðrún og Ólafur Haukur farin að vinna að nýrri plötu og var Gunnar Þórðarson einnig nefndur í þessu samhengi, það varð þó úr að annar þungavigtarmaður í tónlist kom inn í samstarfið en það var Karl J. Sighvatsson orgelleikari sem skyldi annast útsetningar og upptökustjórn en hljóðritun fór fram í Hljóðrita í Hafnarfirði. Nýtt útgáfufélag, Gagn og gaman gaf plötuna út vorið 1977 og bar hún nafnið Kvöldfréttir og var nokkuð öðruvísi en Eniga meniga. Textar Kvöldfrétta voru nokkuð róttækir og beinskeittir og fjölluðu flestir hverjir um ýmis sósíalísk baráttumál, platan fékk þokkalega dóma í Tímanum, ágæta í Poppbók Jens Guð. og mjög góða í Morgunblaðinu og Dagblaðinu, lesendabréf í formi plötugagnrýni var þó fremur neikvæði í Þjóðviljanum. Þrátt fyrir almennt jákvæða krítik vakti platan ekki eins mikla athygli og Eniga meniga og seldist heldur ekki nærri eins vel. Um það leyti bárust fregnir af því að Eniga meniga yrði gefin út í Svíþjóð en ekki virðist hafa orðið úr þeim fyrirætlunum.

Eftir útgáfu Kvöldfrétta kom Olga Guðrún töluvert fram næstu árin með tónlist sína þrátt fyrir að ritstörfin væru hennar aðalstarf, hún kom t.d. fram með hljómsveitinni Þokkabót, í Keflavíkurgöngunni og öðrum samkomum herstöðvarandstæðinga og á ýmsum samkomum hjá vinstri hreyfingunni á tyllidögum, einnig var hún virk í Rauðsokkuhreyfingunni og flutti þar frumsamið efni, og flutti jafnframt frumsamið efni í barnatíma sjónvarpsins, Stundinni okkar. Þá söng hún á plötunni Hattur og Fattur komnir á kreik sem hafði að geyma tónlist úr samnefndu leikriti eftir Ólaf Hauk, lögin Allir eiga drauma og Það er svo gaman að vera í skóla í flutningi Olgu Guðrúnar nutu nokkurra vinsælda en hún söng alls fimm lög á plötunni. Á níunda áratugnum fór minna fyrir henni sem tónlistarmanni en hún söng þó einsöng með Maíkórnum sem sendi frá sér plötu árið 1982, þá hafði hún farið í söngnám og mun einnig hafa kennt tónmennt um tíma.

Sem fyrr segir fékkst Olga Guðrún einkum við skrif á þessum tíma, ritaði skáldsögur, smásögur og leikrit, mikið til fyrir börn og unglinga og vann einnig mikið við þýðingar, hún þýddi m.a. leikgerðina að Fúsa froskagleypi sem sett var á svið. Þá samdi hún leikrit (og tónlistina við þau) sem voru sviðsett bæði hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur og samdi tónlistina í sjónvarpsmyndinni Emil og Skundi sem eiginmaður hennar, Guðmundur Ólafsson rithöfundur og leikari hafði skrifað handritið af eftir eigin verðlaunasögu. Olga Guðrún fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og var um tíma í stjórn Rithöfundasambandsins.

Olga Guðrún

Það var svo haustið 1994 sem Olga Guðrún birtist aftur opinberlega í tónlistinni þegar hún sendi frá sér plötuna Babbidi-bú sem var barnaplata með eigin lögum og textum sem höfðu verið samin á um fimmtán ára tímabili. Frænka hennar, Margrét Örnólfsdóttir sá um útsetningar og þær fengu fjöldann allan af tónlistarfólki með sér á plötuna sem Olga Guðrún gaf sjálf út. Babbidi-bú hlaut þokkalega dóma í DV og ágæta í tímaritinu Veru og Morgunblaðinu, rétt eins og Eniga meniga kom platan svo skömmu fyrir jól að fjölmiðlaathyglin fór fyrir ofan garð og neðan. Titillagið Babbidi-bú og Lítið, lasið skrímsli urðu þó töluvert vinsæl og heyrast enn stöku sinnum spiluð í útvarpi.

Olga Guðrún varð þarna um tíma aftur nokkuð virkari í tónlistinni en hún hafði þá verið um langan tíma, hún stóð fyrir tónlistarhátíð til styrktar alnæmissjúklingum ásamt Herði Torfasyni, og kom einnig eitthvað fram á þessum árum með frumsamið efni, hún söng inn á plötu með tónlistinni úr leikritinu um Ronju ræningjadóttur sem kom út 1993. Þá samdi hún textana við tónlist Margrétar Örnólfsdóttur í kvikmyndinni Regínu.

Segja má að síðan hafi Olga Guðrún lítt eða ekki komið að tónlistarverkefnum, hún kom fram á tónleikum í Borgarleikhúsinu sem haldnir voru í tilefni af þrjátíu ára rithöfundarafmælis Ólafs Hauks Símonarsonar árið 2002 en síðan hefur lítið heyrst til hennar á tónlistarsviðinu. Eniga meniga telst samt sem áður enn í dag meðal bestu barnaplatna sem komið hafa út á Íslandi og margir muna auðvitað enn smella hennar af hinum plötunum auk plötunnar um þá félaga Hatt og Fatt. Lög hennar hafa auðvitað komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina og þá skiptir engu hvort um sé að ræða safnplötur fyrir börn eða fullorðna, lög hennar hafa alltaf höfðað til allra kynslóða.

Efni á plötum