Afmælisbörn 18. apríl 2023

Salka Sól Eyfeld

Í dag eru fimm afmælisbörn á lista Glatkistunnar:

Söngkonan Salka Sól Eyfeld (Hjálmarsdóttir) er þrjátíu og fimm ára gömul á þessum ágæta degi. Sölku Sól þekkja flestir en hún er eins og kunnugt er önnur söngkvenna Amabadama og ein Reykjavíkurdætra og Tazmaníu-liða. Salka Sól var einnig í hljómsveitunum Skonsunum og Útidúr og hefur í þeim sveitum leikið á hin ýmsustu hljóðfæri, hún hefur ennfremur starfað við leikhústónlist og dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi.

Önnur söngkona (og þjóðfræðingur), Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir á afmæli í dag en hún er fjörutíu og eins árs. Aldís Fjóla sem kemur frá Borgarfirði eystra, nam söng í Danmörku og hefur komið víða fram sem söngkona á austanverðu landinu, s.s. á Bræðslunni en hún hefur einnig komið við sögu á nokkrum plötum, m.a. með Á móti sól þar sem Magni bróðir hennar er söngvari. Aldís Fjóla sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu, Shadows árið 2020.

Þriðja söngkonan, Þórhildur Örvarsdóttir á afmæli á þessum degi en hún er fjörutíu og sjö ára gömul. Þórhildur á að baki plötu sem hún sendi frá sér í félagi við Helgu Kvam árið 2020 en hefur jafnframt sungið á fjölda annarra platna s.s. með Sniglabandinu, Stjórninni, Agli Ólafssyni og Þormari Ingimarssyni, og sungið t.d. með þjóðlagasveitinni Mó. Hún hefur einnig fengist við kórstjórnun.

Og enn ein söngkonan á afmæli í dag, það er Jóhanna V. Þórhallsdóttir sem auk þess að vera söngkona er kórstjórnandi og söngkennari. Hún á að baki nokkrar sólóplötur en hefur einnig sungið með hljómsveitum eins og Diabolus in musica, Saltfisksveit Villa Valla, Six pack latino og Nýja kompaníinu auk þess að syngja inn á fjölda platna. Jóhanna er sextíu og sex ára gömul á þessum degi.

Þá hefði Jóhann Möller söngvari einnig átt afmæli í dag en hann lést árið 2018. Jóhann var fæddur 1934 og var af fyrstu kynslóð dægurlagasöngvara hérlendis en fjögur lög á tveimur plötum komu út með honum áður en hann dró sig í hlé frá söngnum, þeirra á meðal var að finna lagið Pabbi vill mambó en það heyrist stöku sinnum enn spilað í útvarpi.

Vissir þú að Einar Örn Benediktsson Sykurmoli er barnabarn Einars Kristjánssonar sem var einn fyrsti óperusöngvari Íslands?