Jóhann Möller (1934-2018)

Jóhann Möller

Jóhann Möller

Takmarkaðar upplýsingar er að finna um söngvarann Jóhann Möller sem söng fáein lög inn á tvær plötur sem út komu árið 1955.

Jóhann Georg Möller Sigurðsson (f. 1934) var kynntur sem menntaskólanemi um tvítugt þegar hann söng á skemmtunum um miðjan sjötta áratuginn en hann var þá í hópi nokkurra efnilegra dægurlagasöngvara sem þá voru að stíga sín fyrstu skref í bransanum.

1955 komu út á vegum Íslenzkra tóna tvær plötur þar sem söng hans var að finna, annars vegar plötu með lögunum Ástin mín ljúf (sem átti að öllum líkindum að vera Ástin mín ein) og Fallandi lauf sem margir þekkja undir heitinu Autumn leaves. Hins vegar var um að ræða plötu þar sem hann söng ásamt Tóna systrum lögin Þú ert mér kær og Pabbi vill mambó en síðar nefnda lag varð feikivinsælt og heyrist reyndar ennþá reglulega enda hefur það komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina s.s. Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Manstu gamla daga (2007), Salsaveisla aldarinnar (1996), Aftur til fortíðar 50-60 III (1990), Óskalögin 2 (1998) og Strákarnir okkar (1994) en hin lögin hafa einnig komið út á safnplötum eins og Aftur til fortíðar 50-60 I (1990) og Svona var það 1955 (2005).

Jóhann dró sig að mestu í hlé frá tónlist eftir útgáfu platnanna, en lungann úr starfsævinni starfaði hann við tannlækningar.

Jóhann lést vorið 2018.

Efni á plötum