The Saga Singers [1] (1968-2010)

The Saga Singers árið 1984

The Saga Singers (The Saga Singers of Edmondon) var blandaður kór starfræktur meðal Vestur-Íslendinga í Edmondon í Kanada um árabil, sem lagði lengi vel áherslu á að syngja allt sitt efni á íslensku.

The Saga Singers var upphaflega nafnlaus karlakór sem var stofnaður á fyrri hluta sjöunda áratugarins innan Norðurljós – Chapter INL, Edmondon Society sem var félagsskapur Vestur-Íslendinga í Edmondon í Alberta fylki í Kanada en félagið hafði verið starfrækt frá því árið 1933. Árið 1968 var sönghópurinn hins vegar stofnaður með formlegum hætti innan félagsins og varð þá um leið blandaður kór sem átti eftir að starfa nokkuð samfleytt fram á 21. öldina.

Yfirlýst markmið The Saga Singers voru framan af að auka áhuga yngri kynslóðanna á uppruna sínum og efla og halda við íslenskri tungu Vestur-Íslendinganna á svæðinu með því að syngja eingöngu á íslensku og fyrst um sinn að minnsta kosti hljóðritaði kórinn nokkuð af efni til varðveislu, bæði söng og annað þjóðlegt efni – eitthvað af því efni var afhent til varðveislu á safn í Edmondon. Söngfélagið gekk þannig nokkuð langt framan af í að halda á hefðir og menningu átthaganna heima á Íslandi og komu konurnar í kórnum gjarnan fram í þjóðbúningum, einkum á tyllidögum svo sem á Íslendingadögum og -hátíðum og svo á þorrablóti félagsins en það var líklega sá liður sem haldið hefur verið hvað fastast í í starfsemi félagsins (og kórsins).

The Saga Singers söng einkum og aðallega á heimaslóðum í Edmondon en kórinn fór jafnframt í ferðalög og heimsótti slóðir Íslendinga víðar um Kanada og gátu það orðið bæði styttri og lengri ferðir því vegalengdirnar gátu hlaupið á annað þúsund kílómetra. Þannig söng kórinn á tónleikum og Íslendingahátíðum á Gimli, Calgary, Markerville, Lundar og Wynyard svo dæmi séu nefnd, en stærsta stund kórsins hefur án nokkurs vafa þegar hann söng fyrir nokkur þúsund manns þegar Jóhannes Páll 2 páfi kom í heimsókn til Kanada árið 1984.

The Saga Singers 2004

Kórinn var mjög áberandi í vestur-íslenska samfélaginu á áttunda og níunda áratugnum og söng þá mjög víða, áhuginn var þá hvað mestur og voru meðlimir hans líklega á milli þrjátíu og fjörutíu þegar mest var, smám saman fækkaði þó í hópnum og um leið hækkaði meðalaldurinn en með kynslóðaskiptum fór kórinn jafnframt smám saman að bæta við lögum sungnum á ensku í lagaval sitt, samhliða því bættust við yngri lög en lengi vel var haldið fast í eldri kórlög. Meðlimir kórsins voru mestmegnis af íslenskum ættum en einnig voru þar makar Vestur-Íslendinganna sem margir hverjir gátu ekki rakið ættir sínar til Íslands.

Lil Sumarliðson sem var einn stofnenda The Saga Singers árið 1968 stjórnaði kórnum fyrst um sinn en Della Rolland tók við árið 1969 og stýrði honum í áratug, þegar hún lést árið 1979 tók Guðbjörg (Burky) Letourneau við stjórn kórsins og stýrði söngnum til 1989 en þá tók Gloria Krenbrenk við forystunni. Gloria var kórstjóri til 2002 en þá tók sonur hennar, Calvin Krenbrenk við kórstjórninni. Svo virðist sem hann hafi stjórnað kórnum að minnsta kosti til 2006 en þá hafi Daria Parada tekið við en kórinn starfaði til ársins 2010 eftir að það hafði þá smám saman fjarað undan honum, síðustu heimildir um hann er að finna frá þorrablóti félagsins það árið. Þá lítur út fyrir að gerð hafi verið tilraun til að endurvekja The Saga Singers árið 2014 en sá hópur hafði einungis að geyma sex söngvara og ekki hafi gerð önnur tilraun til að endurreisa söngfélagið.