Helena Eyjólfsdóttir (1942-)

Helena Eyjólfsdóttir

Helena Eyjólfsdóttir er ein ástsælasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar, sem á að baki langan og farsælan söngferil, og ógrynni laga sem hún hefur sungið hafa notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina. Hún átti stóran þátt í að skapa þá sérstöku Sjallastemmingu sem varð til á Akureyri á sjöunda og áttunda áratugnum þar sem hún söng flest kvöld með Hljómsveit Ingimars Eydal. Færri vita að henni var ætlað að læra klassískan söng en örlögin tóku svo um taumana að hún lagði dægurlagasönginn fyrir sig.

Helena Marín Eyjólfsdóttir er fædd (1942) og uppalin í Reykjavík ólíkt því sem margir halda en nafn hennar er jafn tengd Akureyri og Sjallinn eða KEA. Það var snemma ljóst að hún myndi leggja söng fyrir sig með einhverjum hætti því hún var farin að koma fram opinberlega níu ára gömul, söng þá á sumardaginn fyrsta en var reyndar þaulvön þá að syngja enda var hún í Laugarnesskóla og vön kór- og morgunsöng þar, úr því starfi kom heil kynslóð tónlistarmanna og -kvenna. Fljótlega var því ljóst að stúlkan hefði sönghæfileika og hún hóf ung að læra söng hjá Guðrúnu Pálsdóttur söngkennara, og nam hjá henni um þriggja ára skeið – reyndar lærði hún einnig eitthvað á píanó. Samhliða söngnáminu kom hún töluvert fram á skemmtunum, stundum við undirleik jafnaldra hennar en einnig við undirleik hljómsveita á skemmtunum s.s. á síðdegisskemmtun í Þjóðleikhúskjallaranum, þá var hún á barnsaldri þegar hún kom fyrst fram í útvarpi.

Helena var einungis tólf ára gömul þegar hún söng inn á sína fyrstu plötu haustið 1954, það var tveggja laga jólaplata (Heims um ból / Í Betlehem er barn oss fætt) þar sem hún söng við orgelundirleik Dómkirkjuorganistans Páls Ísólfssonar en Íslenskir tónar gáfu plötuna út.

Eftir útgáfu plötunnar fór heldur minna fyrir opinberum söng Helenu enda stóð þá til að hún myndi draga sig í hlé í fáein ár meðan röddin væri að þroskast en myndi þá hefja klassískt söngnám hjá Sigurði Birkis. Þau áform urðu reyndar að engu því fyrr en varði hafði Helena fallið fyrir hinum nýja stíl, dægurlagasöng sem þá var að koma til sögunnar og um fimmtán ára aldur var hún farin að koma fram með hljómsveitum s.s. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar í útvarpssal ásamt Alfreð Clausen en einnig söng hún opinberlega við undirleik Baldurs Kristjánssonar píanóleikara, þess má jafnframt geta að hún söng með hljómsveit Gunnars Ormslev á Tónaregni – S.Í.B.S. tónleikunum svokölluðu þar sem Tony Crombie and his rockets komu fram, vorið 1957.

Um sumarið 1958 hóf Helena að syngja með Hljómsveit Jose Riba í Tjarnarcafe og með þeirri sveit starfaði hún um tveggja mánaða skeið. Á þeim stutta tíma kenndi Riba henni að nota hvers kyns ásláttarhljóðfæri og hristur og þar tileinkaði hún sér það sem síðar var almennt kallað Helenustokkur.

Á forsíðu Unga Íslands

Þá um sumarið kom Akureyringurinn Finnur Eydal klarinettuleikari sem þá hafði nýverið stofnað hljómsveit ásamt Ingimari bróður sínum undir nafninu Atlantic kvartettinn, suður til Reykjavíkur gagngert til að bjóða Helenu að ganga til liðs við hina nýju sveit sem hún svo gerði en hún þekkti þá ágætlega til Akureyrar, hafði dvalist þar um tíma sem barn. Þetta boð í Atlantic kvartettinn var mikið gæfuspor fyrir Helenu því ekki aðeins skóp hún sér nafn sem söngkona með þeim bræðrum heldur kynntist hún þarna lífsförunaut sínum en þau Finnur áttu síðan eftir að ganga í hjónaband. Hún starfaði því síðari hluta sumarsins og fram á haustið fyrir norðan með Atlantic kvartettnum í Alþýðuhúsinu á Akureyri og sló þar í gegn.

Þetta sama ár, 1958 hafði komið út önnur plata Helenu – það var fjögurra laga plata, önnur af tveimur þar sem hún söng í samstarfi við Neo tríóið. Þarna höfðu 45 snúninga plöturnar tekið við af gömlu 78 snúninga plötunum en jólalagaplatan hafði einmitt verið á því formi. Og um svipað leyti og þessi plata var hljóðrituð voru tveir sálmar hljóðritaðir þar sem Ragnar Björnsson lék undir söng Helenu á orgel, þau lög áttu síðar eftir að koma út fyrir jólin ásamt eldri jólasálmunum tveimur sem höfðu komið út 1954.

En fleiri plötur komu út árið 1958, Helena sem þarna var reyndar ekki nema 16 ára gömul var ekki fyrr farin að starfa með Atlantic kvartettnum þar til sveitin tók upp fjögurra laga plötu þar sem Helena og hinn söngvari kvartettsins, Óðinn Valdimarsson skiptu með sér söngnum. Á þeirri plötu er m.a. að finna fyrsta stórsmell Helenu, lagið Manstu ekki vina (Í rökkurró). Sagan segir að upptökurnar hafi ekki gengið þrautalaust fyrir sig því erfitt hafi reynst að stilla hljómsveitinni upp í hljóðverinu svo jafnvægi væri milli hljóðfæra og söngs, og einhverjir meðlima hennar hefðu þurft að skiptast á hljóðfærum í sumum laganna – þannig hefði Finnur t.d. leikið á trommur í einu þeirra og Sveinn Óli Jónsson trommuleikari á bassa. Platan kom út um haustið og var eftirvænting svo mikil eftir henni að viðbótar upplag af henni var pantað áður en fyrsta upplagið kom til landsins því það var þá upppantað, annað upplagið seldist sömuleiðis vel en platan seldist eðlilega vel á Akureyri og þar seldist upplag hennar upp á um korteri. Einhver eintök af plötunni voru send til útlanda og fékk hún nokkra athygli og umfjöllun í Svíþjóð, og mun reyndar hafa fengið einhverja spilun á útvarpsstöð í New York í Bandaríkjunum.

Helena kom aftur suður til Reykjavíkur um haustið – til stóð að hún færi í menntaskólanám en hún hætti við þau áform til að helga sig dægurlagasöng. Hún söng til að byrja með með Hljómsveit Björns R. Einarssonar og einnig í danslagakeppni SKT í Góðtemplarahúsinu en í nóvember gekk hún til liðs við Hljómsveit Gunnars Ormslev sem hafði þá verið ráðin sem húshljómsveit í Framsóknarhúsinu (síðar Storkklúbburinn og Glaumbær) við Fríkirkjuveg en það var þá að taka til starfa sem skemmtistaður. Það er því líklegt að Helena hafi verið fyrsti söngvarinn sem söng í því sögufræga húsi en hún söng með sveitinni um veturinn.

Helena Eyjólfsdóttir 1958

Síðari plata Helenu með Neo tríóinu kom út á fyrri hluta árs 1959 og af þeirri plötu, sem var tveggja laga náði lagið Borgin sefur nokkrum vinsældum. Um vorið fór hún aftur norður til Akureyrar til að starfa með Atlantic kvartettnum í Alþýðuhúsinu en þau Finnur höfðu þá trúlofað sig. Þá um sumarið kom enn ein skífan út með söng Helenu, það var fjögurra laga plata þar sem norskir hljóðfæraleikarar undir stjórn Kjell Karlsen léku undir söng hennar en söngurinn hafði verið hljóðritaður hjá Ríkisútvarpinu. Tvö laganna á plötunni Bel ami (Ein lítil saga) og Hvítu mávar urðu feikivinsæl og síðarnefnda lagið hefur reyndar síðan verið eitt allra þekktasta lag Helenu. Síðsumars hafði Atlantic kvartettinn skuldbundið sig til að leika sunnan heiða um haustið svo Helena fór þá aftur til Reykjavíkur. Ekki löngu síðar bárust þær fréttir að Helena og hljómsveitin hefðu fengið tilboð frá Svíþjóð í gegnum útgáfufyrirtækið Íslenzka tóna um að starfa þar í landi um veturinn, það var þá hins vegar orðið of seint þar sem sveitin hafði þegar ráðið sig. Í staðinn voru sett upp plön um að fara erlendis sumarið eftir og fara þá einnig til Noregs, Danmerkur og Hollands en Helena hafði þá einnig fengið ámóta tilboð þaðan. Ekki varð þó neitt úr þeim áformum af einhverjum ástæðum. Hins vegar bárust einhver útgáfutilboð erlendis frá, m.a. frá RCA og þá einnig fyrir Ameríkumarkað, til að svara þeirri eftirspurn var tveggja laga smáskífa (Bewitched / But not for me) hljóðrituð fyrir erlendan markað og kom hún að endingu út á Norðurlöndunum, og svo hér heima um haustið 1959 í mjög takmörkuðu upplagi. Á þeirri plötu lék hljómsveit undir stjórn Finns Eydal skipuð úrvali íslenskra djassleikara undir nafninu Icelandic all star.

Um haustið komu svo út þrjár plötur með söng Helenu og Óðins með Atlantic kvartettnum, ein þeirra hafði að geyma endurútgefin lög en á hinum tveimur (með alls sex lögum) var að finna m.a. lögin Gamla gatan, Segðu nei og Ég skemmti mér, sem öll nutu vinsælda og teljast til sígildra dægurlaga í dag. Þess má geta að lagið Gamla gatan (þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 1955) kom þar út í fyrsta sinn.

Helena og Finnur

Eftir áramótin var Helena á Akureyri og tók þá m.a. þátt í leiklistarlífinu þar, var með í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Ævintýri á gönguför en hún átti síðar eftir að vera viðloðandi leiklistina samhliða söngnum um tíma fyrir norðan. Næsta vetur starfaði hljómsveitin á höfuðborgarsvæðinu, annars vegar sem húshljómsveit í Silfurtunglinu í Reykjavík um haustið en þá hafði nafni sveitarinnar verið breytt í Hljómsveit Finns Eydal – hins vegar í Storkklúbbnum (Framsóknarhúsinu) eftir áramótin 1960-61. Þann vetur var Helena einnig að koma fram á t.a.m. miðnæturtónleikum og öðrum tónlistaruppákomum. Framan af ári 1961 lék hljómsveitin einnig nokkuð suður á Keflavíkurflugvelli en um vorið fór sveitin norður til Akureyrar til að leika í Alþýðuhúsinu eins og sumrin á undan og hét þá aftur Atlantic kvartettinn. Áður en sveitin hélt norður höfðu sex lög verið hljóðrituð og meðal þeirra voru fjögur lög úr söngleiknum Allra meina bót, tvö þeirra söng Helena og bæði eru enn í dag vel þekkt, Það sem ekki má og Gettu hver hún er.

Haustið 1961 var Hljómsveit Finns Eydal / Atlantic kvartettinn lögð niður en þau Finnur og Helena (sem þá voru nýgengin í hjónaband) gengu þá til liðs við Hljómsveit Svavars Gests sem þá var ein allra vinsælast hljómsveit landsins og þar varð Helena í forgrunni ásamt Ragnari Bjarnasyni. Plata koma svo út með sveitinni um veturinn, Twist kvöld með Hljómsveit Svavars Gests en þar var um að ræða sex laga plötu. Árið 1962 var Helena kjörin söngkona ársins af lesendum Vikunnar.

Helena starfaði með Svavari og hljómsveit hans í um ár en næsta vetur á eftir (1962-63) tók hún sér að mestu pásu frá hljómsveitastússi vegna barneigna en Finnur hafði þá aftur stofnað sveit í eigin nafni. Um haustið 1963 hóf Helena að syngja með þeirri sveit á Hótel Borg en sveitin lék einnig töluvert á árshátíðum og þess konar skemmtunum um veturinn, sumarið á eftir var sveitin svo húshljómsveit í Glaumbæ. Helena átti svo eftir að eignast annað barn árið 1965 svo hún var ekki mikið viðloðandi tónlistina um nokkurt skeið. Þess má þó geta að hún söng bakraddir ásamt fleirum á jólaplötu Ellyjar Vilhjálms og Ragnars Bjarnason sem Svavar Gests gaf út undir merkjum SG-hljómplatna en Svavar var um það leyti hættur með hljómsveit sína og farinn að gefa út plötur. Þá söng Helena einnig inn á plötuna Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins sem gefin var út 1966.

Helena Eyjólfsdóttir

Árið 1966 fluttust Helena og Finnur norður til Akureyrar og áttu eftir að búa þar og starfa síðan. Finnur gekk til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal bróður síns sem þá hafði tekið til starfa en söngkona þeirrar sveitar var Erla Stefánsdóttir, Helena söng hins vegar með Hljómsveit Páls Helgasonar á Hótel KEA um veturinn 1966-67. Þegar Erla fór í barneignaleyfi í hljómsveit Ingimars kom Helena þar inn og í kjölfarið hófst mikið blómaskeið Hljómsveitar Ingimars Eydal í Sjallanum eða Sjálfstæðishúsinu á Akureyri sem stóð lengi og er vel þekkt í íslenskri tónlistar- og menningarsögu sem Sjallaböllin með Ingimari. Orðspor Hljómsveitar Ingimars breiddist út og varð landsþekkt og sveitin lék oft í Reykjavík einnig s.s. í Lídó, hún fór víða um land næstu árin auk þess að leika í Sjallanum, þannig fór hún einnig nokkuð oft út fyrir landsteinana til að leika á þorrablótum og öðrum skemmtunum Íslendingafélaga víða um Evrópu enda varð hún um þetta leyti ein allra vinsælast hljómsveit landsins.

Sumarið 1967 tók sveitin upp átta lög, fjögur þeirra söng Helena en hin fjögur söng Þorvaldur Halldórsson, hinn söngvari sveitarinnar. Lögin komu svo út á tveimur plötum sem seldust vel, einkum norðanlands sem var auðvitað þeirra heimavöllur, þar varð vinsælasta lag Helenu Þú kysstir mig. Um haustið sveitin kom sveitin fram í þætti í nýstofnuðu Ríkissjónvarpinu þar sem þau Helena og Þorvaldur sungu lög úr kvikmyndinni Mary Poppins, þau lög komu svo út á sex laga plötu árið eftir (1968) og nutu töluverðra vinsælda sem og önnur smáskífa, fjögurra laga sem m.a. hafði að geyma lögin Sumarást og Mig dregur þrá sem einnig urðu vinsæl, enn ein fjögurra laga smáskífan kom svo út vorið 1969.

Haustið 1968 var annar sjónvarpsþáttur gerður með hljómsveit Ingimars en hann var tileinkaður Akureyri sem þá var að komast í sjónvarpssamband – þátturinn bar heitið Vor Akureyri eftir samnefndu lagi við texta sem hafði að geyma alla kosti bæjarins og upptalningu á helstu fyrirtækjum Sambandsins í honum, lagið kom hins vegar ekki út á plötu fyrr en 1980 og þá með Hljómsveit Finns Eydal. Fleiri sjónvarpsþættir voru gerðir þar sem Ingimar og hljómsveit hans (og Helena) komu við sögu en flest myndbönd voru endurnýtt og tekið yfir þau á sínum tíma og því er ekki mikið varðveitt af því efni. Hljómsveit Ingimars, Helena og Þorvaldur nutu hins vegar ómældra vinsælda fyrir norðan í Sjallanum og þar lék sveitin flest kvöld vikunnar á þessum árum, það þótti ómissandi þáttur í ferðalögum að kíkja í Sjallann þegar ferðalangar voru á ferð um Akureyri.

Helena og Finnur á sviði Sjallans

Helena sinnti fleiri verkefnum en að standa á sviði Sjallans, hún var nokkuð virk í leiklistinni fyrir norðan um þetta leyti og söng einnig inn á plötuna Unga kirkjan (1968) sem var eins konar trúarleg safnplata gefin út af Fálkanum í samstarfi við Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti en þar flutti hljómsveit Ingimars þrjú lög. Hún kom einnig við sögu á jólaplötu sem Kirkjukór Akureyrar og Hljómsveit Ingimars Eydal (ásamt söngvurunum Helenu og Þorvaldi) gáfu út haustið 1969 og skiptu með sér plötuhliðunum, þar ber hæst söngur Helenu í laginu Horfðu á en það er íslensk útgáfa af Bítlalaginu Yesterday.

Helena hélt áfram að syngja með hljómsveit Ingimars næstu árin við fádæma vinsældir sem fyrr segir, þær breytingar urðu á skipan sveitarinnar að Bjarki Tryggvason tók við af Þorvaldi árið 1970 en það varð ekkert til að vinsældir sveitarinnar döluðu. Sveitin lék margsinnis einnig á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel á sveitaböllum sunnanlands, og lék t.d. bæði á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og í Húsafelli um verslunarmannahelgar – einnig fór hópurinn utan til að leika fyrir Íslendinga erlendis s.s. á fullveldisdansleikjum í Kaupmannahöfn og Osló árið 1971 en síðar átti sveitin einnig eftir að starfa töluvert á Spáni.

Árið 1972 var viðburðaríkt hjá hljómsveitinni en einkum þó Helenu en þau Finnur eignuðust þá sitt þriðja barn svo hún þurfti að taka sér frí frá söngnum, jafnframt kom út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar – Í sól um sumaryl, sem gefin var út af Tónaútgáfunni á Akureyri reyndar rétt eins og smáskífan sem kom út 1969. Á breiðskífunni var að finna stórsmellinn og titillagið Í sól og sumaryl sem Bjarki söng reyndar en þar var einnig lagið Hoppsa bomm (Á skíðum skemmti ég mér) sem líka varð mjög vinsælt og hefur fyrir löngu orðið að sígildum poppsmelli. Þess má geta að Helena hefur aldrei stigið á skíði.

Sveitin starfaði áfram næstu árin og sendi árið 1973 frá sér enn eina smáskífuna (Spánardraumur / Líttu inn) en á þeirri skífu naut fyrrnefnda lagið töluverðra vinsælda enda var þá að færast í vöxt að Íslendingar færu til Spánar í frí. Og sveitin átti reyndar eftir að leika töluvert á Spáni fyrir Íslendinga (og aðra á þessum árum) og fór reyndar einnig m.a. til Luxemborgar en fyrst og fremst var hljómsveit Ingimars áfram Sjallasveit. Þetta sama ár (1973) kom út fjórtán laga plata með sveitinni á vegum SG-hljómplatna en um var að ræða eins konar safnplötu með úrvali laga af smáskífum hennar frá fyrri árum. Bjarki Tryggva söngvari sveitarinnar var þá einnig að senda frá sér sólóplötu um það leyti og söng Helena bakraddir á þeirri plötu.

Helena

Önnur breiðskífa Hljómsveitar Ingimars Eydal kom út 1975 og bar nafn hennar, sú skífa er tímamótaplata að því leyti að hún var fyrsta platan sem útgefandinn Steinar Berg gaf út en hann átti eftir að koma að útgáfumálum í áratugi. Bjarki var þá hættur að syngja með sveitinni og Grímur Sigurðsson gítarleikari tekið við hlutverki hans en Helena var á sínum stað og söng lög eins og Litla Gunna og litli Jón, og Sumar og sól.

Segja má að hlutirnir hafi tekið nokkuð óvænta stefnu þegar Ingimar Eydal lenti í alvarlegu bílslysi vorið 1976 og varð að hætta allri spilamennsku, aðrir meðlimir sveitarinnar héldu eitthvað áfram í nafni sveitarinnar en það var aðeins í fáeina mánuði. Þetta varð m.a. til þess að Helena sem hafði um langt árabil haft tónlistina að aðalstarfi, varð nú að fara á almennan vinnumarkað og tónlistin varð að aukabúgrein upp frá því – hún var þó fyrst um sinn nátengd tónlistinni í starfi sínu því hún starfaði um tíma hjá Mifa-hljómböndum sem m.a. framleiddi kassettur.

Um nokkurra mánaða skeið fór fremur lítið fyrir Helenu, hún kom stöku sinnum fram og söng þá m.a. djass en haustið 1977 stofnuðu þau hjónin nýja hljómsveit sem bar nafnið Hljómsveit Finns Eydal, og sú nýja sveit hóf að sjálfsögðu að leika í Sjallanum eins og hljómsveit Ingimars hafði gert áður – söngvari ásamt Helenu var Óli Ólafsson. Það má því að nokkru leyti segja að flest hafi fallið í sömu skorður á nýjan leik nema að nú höfðu áherslur á skemmtanamarkaðnum breyst nokkuð og því var ekki lengur um að ræða spilamennsku flest kvöld vikunnar heldur einungis (að mestu) um helgar.

Hljómsveit Finns Eydal starfaði næstu árin við ágætan orðstír en auðvitað ekki við sömu vinsældir og hljómsveit Ingimars enda var spilamennskan sem fyrr segir aðeins bundin við helgarnar, eitthvað spilaði hún sunnanlands og þá líklega aðallega á Hótel Sögu. Sveitin gaf út plötuna Kátir dagar árið 1980 og þar var loks að finna lagið Vor Akureyri sem flutt hafði verið í sjónvarpsþættinum rúmum tíu árum fyrr, að öðru leyti vakti platan ekki mikla athygli.

Fljótlega á níunda áratugnum komust tónlistardagskrár til heiðurs frumrokkinu í tísku og hálfgerð nostalgíu vakning varð hjá fólki sem komið var á miðjan aldur en það var sú kynslóð sem hafði stundað böllin á sjötta og sjöunda áratugnum. Helena tók þátt í nokkrum slíkum sýningum næstu árin enda tilheyrði hún klárlega þeim skemmtikröftum sem höfðu verið fremstir í flokki á þeim tímum. Hljómsveit Ingimars Eydal kom líka saman á nýjan leik og tók þátt í þessari fortíðarvakningu en þau hjónin komu einnig stundum fram á djasskvöldum.

Helena árið 1977

Í upphafi tíunda áratugarins var Finnur orðinn veikur, hann hafði tvívegis fengið krabbamein en hlotið bót meina sinna en í þetta sinn hættu nýrun að starfa eðlilega svo hann þurfti að fé nýrnavél norður til Akureyrar en Helena sinnti honum í þeim veikindum og tók sér því frí um hríð að mestu frá söngnum. Ingimar bróðir Finns átti einnig við veikindi að stríða, hann greindist með nýrnakrabbamein og lést í upphafi árs 1993 og komu bæði Helena og Finnur fram á minningartónleikum um hann haustið 1996, þá var Finnur orðinn mjög veikur og lést fáeinum vikum síðar.

Helena söng ekki um hríð í kringum veikindi og andlát Finns en fór þá að koma fram opinberlega aftur og hafði þá ákveðið að halda sínu striki í tónlistinni, hún söng á djasskvöldum og hóf að koma fram í brúðkaupum og minni samkomum en svo kom að því að hún stofnaði sveit í eigin nafni sem starfaði um tíma. Þá var hún í samstarfi við hljómsveitina Einn og sjötíu sem hún kom stundum fram með, og einnig Þorvaldur Halldórsson m.a. á Hótel Íslandi í tengslum við fyrrnefndar tónlistarsýningar, en einnig norðanlands.

Og Helena hafði ekki sungið sitt síðasta inn á plötur því hún átti þar heilmikið eftir, hún söng t.d. á jólaplötunni Á jólunum ásamt fleiru norðlensku tónlistarfólki, sem kom út haustið 2001, þá söng hún einnig á minningartónleikum um Vilhjálm Vilhjálmsson (2008) sem voru hljóðritaðir og gefnir út á plötu og einnig söng hún á plötu Rafns Sveinssonar – Rabbi Sveins 70 ára (2011). Um jólin 2001 var hún einn viðmælenda Þóris S. Guðbergssonar í viðtalsbókinni Lífsgleði: Minningar og frásagnir þar sem hún tjáði sig um veikindi Finns en hún hefur alla tíð verið opinská um þá lífsreynslu. Hún söng ekki eins oft opinberlega og áður en þó töluvert um tíma, s.s. á djasstónleikum, á tónlistarviðburðum fyrir eldri borgara og víðar t.d. með hljómsveitunum Norðurbandalaginu og Hvítum mávum sem var skipuð gömlum spilafélögum Helenu, hér má einnig nefna viðburði eins og Sumartónleika Jómfrúarinnar og minningartónleika um Finn.

Árið 2003 kom út plata með hljómsveit Ingimars Eydal sem hafði að geyma gamlar upptökur frá Friðriki Bjarnasyni gítarleikara sveitarinnar, platan bar nafnið Sjallaball: Hljóðritanir af dansleikjum í Sjálfstæðishíusinu á Akureyri 1967 – 1968 og þykir geyma merkilega góðar upptökur og vera góð heimild um böllin í Sjallanum, Helena er að sjálfsögðu áberandi á þeim upptökum. Ári síðar (2004) kom svo út ferilssafnplata með Helenu á vegum Íslenskra tóna en hún hét Hvítir mávar og hafði að geyma tuttugu og fimm lög með söng Helenu.

Á níunda áratugnum

Helena hélt upp á 50 ára söngafmæli sitt í Salnum í Kópavogi árið 2007 undir yfirskriftinni Helena í hálfa öld, svo vel voru þeir tónleikar sóttir að halda þurfti aukatónleika en hún var þá einnig enn að syngja á tónlistarsýningum eins og Kvöldið er okkar um það leyti, og hún hefur í raun haldið áfram að koma fram allt fram á síðustu ár bæði á slíkum tónlistarsýningum en einnig á annars konar tónleikum og tónlistartengdum viðburðum bæði norðanlands og sunnan. Árið 2013 kom út ævisaga Helenu hjá bókaútgáfunni Hólum undir nafninu Gullin ský en hún var skráð af Óskari Þór Halldórssyni. Og Helena var ekki af baki dottin því árið 2016 kom út fyrsta sólólplata söngkonunnar, hún hét einfaldlega Helena og var gefin út af JR music en á plötunni naut hún aðstoðar yngri tónlistarmanna undir stjórn Karl Olgeirssonar sem jafnframt útsetti og stjórnaði upptökum. Útgáfutónleikar voru haldnir í kjölfar útgáfunnar.

Söngkonan Helena Eyjólfsdóttir á sér stað í þjóðarsál Íslendinga og lög hennar eins og Hvítu mávar, Hoppsa bomm, Í rökkurró, Gettu hver hún er og Það sem ekki má, eru samofin tónlistarsögunni og munu verða það um ókomna tíð. Og saga persónunnar Helenu er ekki síður áhugaverð því margt hefur á daga hennar drifið og margt sem ekki hefur verið komið inn á hér í þessari umfjöllun.

Smá- og breiðskífur með söng Helenu fylla tvö tugi og reyndar vel rúmlega það en einnig má heyra stærstu smelli hennar á ótal safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina.

Efni á plötum