Helgi Hermannsson (1948-)

Helgi Hermannsson árið 1966

Helgi Hermannsson var lengi vel tengdur hljómsveitarnafninu Logar en í seinni tíð hefur hann verið þekktari sem þjóðlagatónlistarmaður, hann hefur starfað við tónlist nánast alla sína tíð og komið þar víða við sögu.

Helgi Hermannsson fæddist í Reykjavík árið 1948 og er því ekki Vestmannaeyingur frá blautu barnsbeini eins og margir kynnu að ætla. Hann fluttist hins vegar með fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja árið 1962 fjórtán ára gamall og hafði þá þegar lært lítillega á flautu og leikið með reykvískri drengjalúðrasveit. Hann hafði ekki búið lengi í Eyjum þegar hann var kominn í Lúðrasveit Vestmannaeyja undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar en hóf svo að leika á gítar með hljómsveitinni Skuggum sem var unglingahljómsveit í Vestmannaeyjum árið 1964 og ber nafn sveitarinnar þess merki að hafa verið undir áhrifum bresku gítarsveitarinnar The Shadows. Sú sveit starfaði ekki lengi og það sama ár var hljómsveitin Bobbar sett saman sérstaklega til að leika á Þjóðhátíð Vestmannaeyja að beiðni þjóðhátíðarnefndar en þar söng Helgi og vakti mikla athygli fyrir framlag sitt. Bobbar léku aðeins á þjóðhátíð en í kjölfarið (árið 1965) var hljómsveitin Logar stofnuð og þar var Helgi fyrst um sinn söngvari sveitarinnar en svo einnig gítarleikari hennar.

Logar vöktu fljótlega athygli út fyrir Vestmannaeyjar og strax árið 1966 var sveitin farin að leika töluvert á höfuðborgarsvæðinu og varð reyndar svo fræg að vera meðal hljómsveita sem hituðu upp fyrir The Hollies, Helgi var þá þegar nefndur sem einn besti dægurlagasöngvari landsins þrátt fyrir ungan aldur (18 ára gamall) og í könnun sem tímaritið Vikan stóð fyrir síðsumars varð hann í öðru sæti kjörsins á eftir Rúnari Gunnarssyni. Þess má geta að haustið 1966 var Ríkissjónvarpið að taka til starfa og nokkru áður voru nokkrar tilraunaupptökur gerðar, slík upptaka var gerð með Logum og er ekki ólíklegt að það hafi verið fyrsta sjónvarpstökurnar sem gerðar voru hérlendis – hins vegar er óljóst hvort þær upptökur voru einhvern tímann sýndar í sjónvarpinu eða hvort þær voru yfirhöfuð varðveittar.

Helgi hætti í Logum um tíma en kom svo inn í sveitina á nýjan leik og virðist um skeið hafa verið með annan fótinn á höfuðborgarsvæðinu því hann starfaði með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar (sem einnig gekk undir nafninu Experiment og Hljómsveit Önnu Vilhjálms) þar, hann var þó í Eyjum þegar hann lauk vélstjóranámi 1970 og starfaði eitthvað við það fag um tíma.

Eins og hjá öðrum Vestmannaeyingum fór veröldin á hvolf þegar byrjaði að gjósa í Eyjunum í janúar 1973, Helgi fór þá upp á land eins og aðrir Eyjamenn og settist að á fastalandinu fyrir lífstíð en hefur alla tíð síðan þó verið bundinn Eyjunum föstum böndum. Hann var eitthvað áfram í Logum sem mun hafa starfað eitthvað slitrótt fyrst eftir gos, hann kom við sögu á tveggja laga plötu sem sveitin sendi frá sér en eitthvað lítið eftir það enda var hann þá fluttur á Hvolsvöll þar sem hann átti eftir að búa og starfa næsta aldarfjórðunginn.

Helgi festi rætur á Hvolsvelli, hóf að kenna við Tónlistarskóla Rangæinga fáeinum árum síðar og átti eftir að starfa þar til ársins 1993 og þar af í nokkur ár sem skólastjóri skólans. Hann lék einnig um tíma með sunnlenskum hljómsveitum s.s. Glitbrá og Hljómsveit Gissurar Geirssonar en hann var jafnframt virkur í tónlistarstarfi Rangæinga, setti saman lítil tríó og hljómsveitir til að troða upp við ýmis tækifæri en kom einnig fram einn síns liðs bæði á samkomum t.d. tengdum héraðsvökum en einnig við messuhald og fleira. Helgi kom einnig við sögu Leikfélags Rangæinga þar sem hann annaðist m.a. tónlistarflutning í söngleiknum Saumastofunni, og þannig mætti áfram telja.

Helgi með Logum í tilraunaupptöku Ríkissjónvarpsins

Á níunda áratugnum hóf Helgi aftur að rækta samband sitt við átthagana í Vestmannaeyjum, hann hóf að skemmta ásamt Hermanni Inga yngri bróður sínum og fleirum, m.a. á söngskemmtunum í Gestgjafanum í Vestmannaeyjum undir yfirskriftinni Eyjakvöld, oft við miklar vinsældir. Hann kom jafnframt við sögu á plötu sem kom út í tengslum við þær skemmtanir, undir nafninu Ég vildi geta sungið þér. Eyjalög voru þar fyrirferðamikil en einnig eins konar þjóðlagatónlist sem nú tók svolítið við hjá Helga, hann hóf að starfa með hljómsveitinni Pöpum, var reyndar ekki meðlimur í þeirri hljómsveit en kom við sögu á fyrstu plötu sveitarinnar – Tröllaukin tákn (1990), þá kom hann einnig oft fram með hljómsveit Hermanns Inga. Þeir bræður og Smári Eggertsson störfuðu einnig síðar undir nafninu Víkingasveitin en sú sveit sendi frá sér plötuna Víkingaveislu (1994) í samstarfi við Fjörukrána í Hafnarfirði og enn síðar kom hljómsveitin Hrafnar við sögu sem Helgi hefur starfað með allt til þessa tíma og sent frá sér plötur. Allar þessar hljómsveitir eru litaðar af þjóðlagatónlist og hefur hann leikið víða um land með þeim og einnig fyrir Íslendingafélög erlendis.

Um miðbik níunda áratugarins hóf Helgi að starfa með Jónasi Þóri Þórissyni en þeir áttu langt samstarf og léku þá bæði tveir einir en einnig eitthvað í félagi við aðra, aðallega þó á höfuðborgarsvæðinu þótt Helgi væri búsettur á landsbyggðinni, þeir léku t.d. á stöðum eins og Naustinu, Þórscafe og Holiday Inn bæði fyrir matargesti og eftir mat. Þeir félagar gáfu saman út kassettu sem bar titilinn Memories from Iceland og var hún fyrst og fremst hugsuð fyrir erlenda ferðamenn. Helgi kom einnig töluvert fram einn t.d. á Nillabar og víðar á suðvesturhorninu sem og austur í Rangárvallasýslu þar sem hann bjó og starfaði við tónlistarskólann.

Árið 2000 fluttist Helgi á Selfoss, hann var þá hættur kennslu en stundaði verslunarstörf þar, þar til hann hætti að vinna sökum aldurs en hann er enn að spila þjóðlagakennda tónlist með Hröfnum. Logar hafa margsinnis verið endurvaktir síðustu áratugina og hefur hann tekið fullan þátt í því samstarfi.

Helgi hefur jafnframt í gegnum tíðina leikið inn á nokkrar plötur til viðbótar en hér hafa verið nefndar, t.d. má nefna plötuna Kirkjan syngur (1984) og plötur með Lýði Ægissyni (1989) og Gísla Helgasyni (2011).

Efni á plötum