Logar (1964-)

Logar

Hljómveitin Logar var stofnuð 1964 af meðlimum annarrar sveitar, Skugga frá Vestmannaeyjum en þeir voru Helgi Hermannsson söngvari, Henry A. Erlendsson bassaleikari, Hörður Sigmundsson trommuleikari og Grétar Skaptason gítarleikari (d. 1979), Guðni Þ. Guðmundsson harmonikku- og orgelleikari (síðar organisti) mun einnig hafa verið meðal stofnmeðlima og leikið með sveitinni fyrsta hálfa árið. Auk þeirra bættist Þorgeir Guðmundsson í hópinn en hann var gítarleikari.

Sveitin spilaði mikið í Vestmannaeyjum og naut vinsælda þar en fljótlega fór hún einnig að spila uppi á landi líka og skartaði þá sérmerktum hljómsveitarbíl af Opel gerð. Sveitin hlaut þá þann heiður að hita upp fyrir bresku hljómsveitina Hollies 1966 ásamt Dátum. Vorið 1966 varð sveitin fyrir miklu áfalli þegar Hörður trommuleikari lést í umferðarslysi í Vestmannaeyjum en Sigurður Stefánsson tók hans sæti í sveitinni. Ári síðar (1967) hætti Helgi í sveitinni og tók bróðir hans, Hermann Ingi við söngnum, um svipað leyti hætti Þorgeir gítarleikari og kom þá Guðlaugur Sigurðsson inn í Loga og spilaði á gítar og hljómborð að auki.

Sveitin var nú orðin ein af þeim þekktari á landinu en naut auðvitað sérstaklega mikilla vinsælda í heimabænum, Vestmannaeyjum. Helgi Hermannsson kom aftur inn í sveitina 1969 og um svipað leyti hætti Grétar í henni. Ári síðar hætti Sigurður trommuleikari og tók Ólafur Bachmann sæti hans, reyndar með stuttri viðkomu Bjartmars Guðlaugssonar sem hefur ekki hingað til verið þekktur fyrir trommuleik. Með tilkomu Ólafs breyttist tónlistin nokkuð þar sem nú voru í sveitinni fimm meðlimir sem gátu sungið og bauð það upp á mikla möguleika.

Logar 19681

Logar 1968

Þegar hér var komið sögu var sveitin farin að huga að því að taka upp eigið efni og þegar þeim bauðst að spila á Spáni 1971 tóku þeir upp nokkur lög og sendu út. Í framhaldinu spilaði sveitin á nokkrum stöðum á Spáni við góðan orðstír en þar léku þeir undir nafninu Los Volcanoes. Enn voru meðlimir Loga í upptökuhugleiðingum og vorið 1973 tóku þeir upp tvö lög með Pétri Steingrímssyni tæknimanni hjá Ríkisútvarpinu, Minning um mann og Sonur minn. Bæði lögin eru eftir Gylfa Ægisson en hann mun ekki hafa verið að fullu sáttur við hvernig sveitin fór með texta lagsins Minning um mann, t.a.m. er sungið í laginu „…sem að þráði brennivín úr stæk“ en orðið „stæk“ átti að vera „sæ“. Orðabók Háskólans fann út að merking orðsins væri einhvers konar drykkjarílát, eftir því sem Gylfi Ægisson sagði síðar í ævisögu sinni, Sjúddirarirei. Skýringin á þessum misskilningi kom hins vegar til af því að Gylfi var tannlaus þegar hann söng lagið fyrir Loga-liða og var því óskýrmæltur – og öskufullur í ofanálag.

Lögin tvö komu síðan út á lítilli plötu en í millitíðinni hafði eldgos byrjað í Vestmannaeyjum sem gerbreytti öllu fyrir bæjarbúa. Útgáfa plötunnar sem hafði að geyma ljósmynd Ævars Jóhannessonar frá eldgosinu hefur líklega kallað fram samkennd þjóðarinnar í garð Vestmannaeyinga því hún seldist í um átján þúsund eintökum sem var líklega Íslandsmet á þeim tíma, þar af þrjú þúsund eintökum fyrstu vikuna. Platan fékk þó mjög neikvæða dóma í Vísi en mun betri í Tímanum og Morgunblaðinu. Til eru tvær mismunandi gerðir plötuumslagsins.

logar-1970

Logar 1970

Einhverjar meiri mannabreytingar urðu í kjölfarið þótt þessi skipan hafi að mestu haldið sér síðan, til að mynda segir sagan að tíu hljóðfæraleikarar hafi komið við sögu sveitarinnar næstu fimm árin en staldrað stutt við – misjafnlega þó, einn þeirra var Bjartmar Guðlaugsson trommuleikari en einnig má nefna Jóhannes Johnsen hljómborðsleikara, Valdimar Gíslason gítarleikara, Þorvald Halldórsson bassaleikara, Þorkel Jóelsson trommleikara og Ævar Kvaran bassaleikara.

Ráðist var í gerð breiðskífu 1977, hún kom út um sumarið og hlaut nafnið Mikið var, og gáfu meðlimir Loga hana út sjálfir en platan var tekin upp í Hljóðrita af Jónasi R. Jónssyni. Áðurnefndur Bjartmar átti nokkra texta á plötunni og markar það upphaf hans sem textasmiðs en hann átti eftir að koma nokkuð við sögu í íslensku tónlistarlífi nokkru síðar.

Starfsemi sveitarinnar lá reyndar niðri um tíma eftir að platan kom út en síðar tóku meðlimir sig til og byrjuðu aftur, þá í þeirra skipan sem hafði notist hvað mestu vinsældanna, sem voru Helgi, Guðlaugur, Henry, Hermann og Ólafur. Síðan þá hefur sveitin starfað með hléum en aldrei hætt alveg, skipan hennar hefur verið sú sama en auk þeirra hefur Ólafur Guðlaugsson gítarleikari bæst í hópinn og spilað með síðustu misserin.

Efni á plötum