Þorsteinn Eggertsson (1942-)

Hinn íslenski Presley

Þorsteinn Eggertsson er einn allra þekktasti og afkastamesti dægurlagatextahöfundur hérlendis en á fimmta hundrað texta eftir hann munu hafa komið út á plötum.

Þorsteinn (f. 1942) kemur frá Keflavík og er hluti af þeirri bítlakynslóð sem þaðan kom en hann er þó meðal þeirra elstu í þeim flokki. Hann þótti liðtækur söngvari og þegar rokkið var að ryðja sér til rúms hér á landi um 1955 og 56 meðtók hann þess konar strauma sem hingað bárust. Hann söng að öllum líkindum fyrst með skólahljómsveit við Héraðsskólann á Laugarvatni (veturinn 1957-58) þar sem hann var við nám og þar voru m.a. frumsamdir textar hans notaðir fyrst.

Þorsteinn söng með ýmsum hljómsveitum á sínum yngri árum, og meðal sveita sem hann söng með má nefna H.J. kvartettinn, Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, Neo, Beatniks og KK-sextettinn en síðast nefnda sveitin gerði hann í raun landsfrægan söngvara en hann kom fyrst fram auglýstur í fjölmiðlum ásamt KK-sextett 1960.

Þorsteinn var gjarnan auglýstur sem hinn íslenski Presley en Elvis var fyrirmynd hans í söng og fasi. Hann hætti að mestu að syngja opinberlega 1965 og með síðustu skiptunum sem hann söng á tónleikum var þegar hann var meðal tónlistarfólks sem hitaði upp fyrir hljómsveitina Brian Poole and the Tremeloes í Laugardalshöllinni þá um haustið.

Söngferill Þorsteins varð í raun ekki mikið lengri, um 1970 kvisaðist út sá orðrómur að sólóplata væri væntanleg með honum en úr því varð aldrei. Hann kom lítillega við sögu á söngskemmtunum sem haldnar voru á níunda og tíunda áratugnum til að heiðra minningu rokksins, og einnig var hann í söngtríóinu Rokkbræðrum sem gaf út plötuna Rokkfár árið 1985 en hann hefur lítið fengist við sönglistina umfram það.

Þorsteinn hafði strax á unglingsárum byrjað að semja dægurlagatexta og þegar Þórir Baldursson fékk hann til að semja texta fyrir Savanna tríóið samdi hann Ást í meinum sem varð fyrsti útgefni texti Þorsteins og kom út á plötu tríósins 1965. Í kjölfarið fylgdu fleiri textar, fyrir hljómsveitirnar Dáta, Hljóma, Flowers o.s.frv. og brátt varð hann afar eftirsóttur sem slíkur. Meðal þekktustu texta eftir Þorstein má nefna Slappaðu af, Ástarsæla, Gvendur á eyrinni, Hátíðarskap, Ég las það í Samúel, Ég elska alla, Án þín, Aðfangadagskvöld, Síðan eru liðin mörg ár og Dans, dans, dans en þetta eru aðeins lítið sýnishorn af því sem hann hefur sent frá sér. Það þarf varla að taka fram að texta hans er að finna á hundruðum platna, frumútgáfum, endurútgáfum og á safnplötum.

Þorsteinn Eggertsson

Þorsteinn varð einnig þekktur penni, hann ritstýrði og skrifaði í blöð og tímarit, þar má nefna Morgunblaðið, Samúel, Tímann, Faxa, Húrra og Alþýðublaðið en fyrir síðast talda blaðið varð Þorsteinn svo frægur að taka viðtal við The Beatles í Kaupmannahöfn. Stuttu síðar birtist einnig viðtal hans við The Rolling stones. Hann starfaði einnig á annars konar fjölmiðlum, við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi en Þorsteinn hefur aukinheldur ritað smásögur og skáldsögur sem gefnar hafa verið út, hér- og erlendis. Þess má einnig geta að Þorsteinn gaf út Þokkabótarplötuna Þjófstart sem gefin var út 1981.

Aðalstarf Þorsteins í gegnum tíðina hefur yfirleitt tengst myndlist og myndskreytingum af ýmsu tagi. Hann hefur starfað við fjölmarga grunnskóla sem myndlistakennari en einnig myndskreytt fyrir auglýsingastofur, mörg plötuumslög hafa komið út sem bera myndir hans og hönnun, og má þar m.a. nefna plötur Ðe Lónlí blúbojs, Júdasar, Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Geimsteins og Hljóma, svo fáeinar séu hér nefndar.

Þorsteinn nam við Myndlista- og handíðaskólann hér heima og einnig lærði hann í Kaupmannahöfn á sínum tíma, þar í landi söng hann með tveimur hljómsveitum, The Lennons og The Playboys. Þorsteinn hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum í gegnum tíðina.

Þorsteinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, hann var m.a. sæmdur gullmerki Félags tónskálda og textahöfunda (FTT) og gerður þar að heiðursfélaga 2013.