Afmælisbörn 25. febrúar 2017

jon-olafsson-jon-olafsson

Jón Ólafsson

Á þessum degi eru þrjú afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Þorsteinn Eggertsson textaskáld, teiknari og tónlistarmaður er sjötíu og fimm ára gamall en þekktastur er hann fyrir textagerð sína, einkum frá áttunda áratug síðustu aldar. Hann samdi ógrynni dægurlagatexta sem flestir þekkja enn í dag en þar má nefna Slappaðu af, Ég elska alla og Er hann birtist, sem eru auðvitað bara pínulítið sýnishorn af því sem hann hefur samið. Þorsteinn lærði teikningu í Danmörku og var klárlega einn af fyrstu plötuumslagahönnuðum landsins en hann var einnig söngvar í mörgum hljómsveitum um 1960, s.s. KK sextett, Neo kvartettnum og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar svo dæmi séu tekin.

Jón Ólafsson (hinn góði) hljómborðsleikari, söngvari og lagahöfundur er fimmtíu og fjögurra ára en hann hefur víða poppað upp á sínum langa tónlistarferli. Hann hafði verið í fjölmörgum sveitum áður en hann gerði garðinn frægan í böndum eins og Possibillies, Sálinni hans Jóns míns, Bítlavinafélaginu, Fjallkonunni og Nýdanskri en hann hefur einnig fengist við þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi frá því um miðjan níunda áratuginn.

Að síðustu er hér nefndur Andri Örn Clausen (1954-2002) sem var aðalsprauta hljómsveitarinnar Andrew þar sem hann var söngvari og gítarleikari en sveitin gaf út plötuna Woops árið 1974. Andri var einnig í hljómsveitum eins og Basil fursta, Hljómsveit Guðmundar Sigurjónssonar og Fríðu sársauka en hann söng ennfremur inn á fáeinar plötur s.s. með tónlistinni úr söngleiknum Gretti.