
Engilbert Jensen
Fimm afmælisbörn eru skráð á þessum degi:
Engilbert Jensen söngvari og trommuleikari er sjötíu og sex ára en hann eru auðvitað þekktastur sem söngvari Hljóma, Trúbrota og Ðe lónlí blú bojs. Lög á borð við Bláu augun þín, Heim í Búðardal, Leyndarmál og Hamingjan eru öllum kunn. Hann var einnig í öðrum sveitum sem gerðu það ágætt s.s. Saxon kvintettnum, Tilveru, Júdas, Óðmönnum og Áhöfninni á Halastjörnunni. Engilbert gaf út sólóplötuna Skyggni ágætt árið 1976.
Reynir Gunnarsson saxófónleikari úr Dúmbó og Steina frá Akranesi er sextíu og níu ára gamall. Hann hefur lítið fengist opinberlega við tónlist allra síðustu árin en saxófónleik hans má þó heyra í söngleiknum Hunangsflugur og villikettir sem Grundaskóli á Akranesi setti á svið en plata kom út því tengt.
Guðrún Á Símonar átti afmæli á þessum degi en hún lést 1988. Guðrún fæddist 1924, lærði söng fyrst hjá Sigurði Birkis en fór síðan til Bretlands til framhaldnáms. Hún átti eftir að syngja um heim allan en mest hér heima, hún var mikill persónuleiki og kattavinur, og eftir hana liggja fjölmargar upptökur og plötur með söng hennar. Enn heyrast um hver jól lög af jólaplötu hennar og Guðmundar Jónssonar.
Sigurbjörn Þorgrímsson (Bjössi Biogen) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2011 aðeins 35 ára gamall (f. 1976) Biogen var raftónlistarmaður, starfaði einn og einnig í sveitum eins og Weirdcore, Ajax og Seiðbandinu. Hann gekk einnig undir nöfnunum Babel og Aez.
Karl Jónatansson hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hann lést 2016. Karl (f. 1924) var frá Blikalóni á Melrakkasléttu þar sem mikil harmonikkuhefð ríkir, hann byrjaði tíu ára að leika á harmonikku opinberlega, fyrst einn síns liðs en síðar með hljómsveitum. Hann gaf út fjölmargar plötur einn og með hljómsveitum sínum, einnig kenndi hann lengi á nikku og rak Almenna músíkskólann. Karl var einn hvatamanna að stofnun Félags harmonikkuunnenda og stofnaði einnig tónlistarklúbbinn Akkord sem aukinheldur var útgáfufyrirtæki hans.