
Ágúst Ármann Þorláksson
Afmælisbörn dagsins eru þrjú að þessu sinni:
Baldvin Kristinn Baldvinsson baritónsöngvari og bóndi er sextíu og sjö ára í dag. Hann er annar Rangárbræðra (frá Rangá í Köldukinn) en þeir gáfu út plötu árið 1986, en einnig hefur Baldvin sungið einsöng með karlakórnum Hreimi á plötum sem kórinn hefur gefið út. Eftir Baldvin liggja tvær sólóplötur þar sem hann syngur lög úr ýmsum áttum.
Jón Björnsson tónskáld, organisti og kórstjórnandi (1903-1987) hefði átt afmæli á þessum degi en hann var mikill tónlistarfrömuður norðan heiða, stjórnaði m.a. Karlakórnum Heimi í nær fjörutíu ár. Jón var bóndi á Hafsteinsstöðum í Skagafirði, samdi á annað hundrað sönglög, var einn af stofnendum Heimis og stjórnaði mörgum kórum auk þess að vera organisti í sveitinni. Plata með nokkrum af lögum hans kom út í tilefni af hundrað ára fæðingarafmælis hans 2003.
Annar tónlistarfrömuður, Ágúst Ármann Þorláksson harmonikku- og hljómborðsleikari (fæddur á Skorrastað í Norðfirði 1950) átti líka þennan afmælisdag en hann kenndi í og veitti tónlistarskólum forstöðu, var organisti og stýrði kórum, mest austanlands. Hann starfaði með Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, Ósíris, Sjöttu plágunni og Amon Ra á árum áður en í síðast töldu sveitinni lék hann á bassa. Ágúst Ármann lést haustið 2011.