Þorsteinn frá Hamri (1938-2018)

Þorsteinn frá Hamri

Rithöfundurinn Þorsteinn frá Hamri telst seint meðal tónlistarmanna en eftir hann liggur þó plata þar sem hann les eigin ljóð, og fleiri plötur þar sem ljóð hans koma við sögu.

Þorsteinn Jónsson fæddist 1938 og var frá Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði, hann var ætíð kenndur við æskustöðvarnar þótt hann byggi á höfuðborgarsvæðinu lengst af.

Þorsteinn var fyrst og fremst ljóðskáld þótt eftir hann liggi bæði skáldsögur, sagnaþættir og þýðingar af ýmsu tagi, og komu út á þriðja tug ljóðabóka eftir hann, sú fyrsta kom út 1958 (Í svörtum kufli). Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og má þeirra á meðal nefna verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2009, heiðurnafnbót rithöfundasambandsins, Íslensku bókmenntaverðlaunin og fálkaorðuna, auk nokkurra tilnefninga til íslensku bókmenntaverðlaunanna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Platan Lífið er ljóð: Ljóðið ratar til sinna, kom út á vegum Leiknótunnar árið 1997 og hafði að geyma fjörutíu og fjögur ljóð Þorsteins, í flutningi hans sjálfs. Einnig kom út plata 2012, Gömul skip, með Pálma Gestssyni leikara sem las ljóð Þorsteins undir tónlist Hrólfs Vagnssonar. Þá var árið 2003 gefin út á plötu unglingaóperan Dokaðu við, eftir Kjartan Ólafsson og Messíönu Tómasdóttur en óperan var byggð á ljóðum eftir Þorstein, Pétur Gunnarsson og Theódóru Thoroddsen. Og þá er ótalin platan Óskar Halldórsson les íslensk ljóð (1979) en á þeirri plötu var Þorsteinn frá Hamri meðal ljóðskálda.

Þorsteinn lést snemma árs 2018.

Efni á plötum