Þorvaldur Halldórsson (1944-)

Þorvaldur Halldórsson

Söngvarann Þorvald Halldórsson þekkja sjálfsagt meira og minna allir þeir sem einhvern tímann hafa hlustað íslenska tónlist, og ef menn kveikja ekki á perunni er sjálfsagt nóg að kyrja „Á sjó“ djúpum rómi en það hefur í gegnum tíðina verið einkennislag Þorvaldar þótt auðvitað hafi hann sungið fjöldann allan af þekktum lögum, hann hefur ennfremur samið fjöldann allan af lögum.

Þorvaldur fæddist á Siglufirði 1944 og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Hann lærði ungur á gítar og klarinett og fyrsta hljómsveit hans var skólahljómsveit heima á Siglufirði en hún mun ekki hafa borið nafn svo heimildir séu fyrir. Þar segir sagan að Þorvaldur hafi í fyrsta skipti sungið opinberlega en hann tók upp á því að syngja klarinettusóló sem hann réði ekki við að spila á hljóðfærið. Hvort það var frammistaða hans þar eða eitthvað annað þá sáu menn snemma að hann gæti sungið og þegar siglfirska hljómsveitin Fjórir fjörugir fékk hann til liðs við sig til að leika um sumarið 1960 var ekki aftur snúið. Þorvaldur var þá sextán ára og um haustið lá leið hans til Akureyrar í menntaskólann þar.

Í Menntaskólanum á Akureyri söng Þorvaldur með skólabandinu sem hét Busabandið og var skipuð nokkrum síðar þekktum tónlistarmönnum, þeirra á meðal var annar söngvari og bassaleikari sveitarinnar, Vilhjálmur Vilhjálmsson sem þá var einnig að stíga sín fyrstu skref í bransanum en þeir áttu eftir að starfa nokkuð saman síðar meir.

Þorvaldur var reyndar aðeins eitt og hálft ár í MA en þá hafði hann einsett sér að gerast rafvirki. Hann hætti í Busabandinu um áramótin 1961-62, starfaði með hljómsveitinni Ebro í fáeina mánuði fyrri hluta árs 1962 en gekk síðan til liðs við hljómsveit Hauks Heiðars Ingólfssonar píanóleikara sem ýmist var kölluð H.H. kvintett eða kvartett, og lék á Hótel KEA á Akureyri.

Með Hauki Heiðari lék Þorvaldur um tveggja ára skeið en þá (haustið 1964) var honum ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni félaga sínum úr Busabandinu boðið að ganga í Hljómsveit Ingimars Eydal sem þá var húshljómsveit Sjallans (Sjálfstæðishússins) á Akureyri.

Þorvaldur söng og lék á gítar í hljómsveit Ingimars sem var á þeim árum að skapa sér óvinnandi vígi í Sjallanum, það þótti fljótlega við hæfi að gefa út plötur til að styrkja stöðu sína enn fremur og því fór svo að sveitin fór suður til Reykjavíkur og tók upp átta lög sem komu skyldu út á tveimur fjögurra laga smáskífum á vegum SG-hljómplatna Svavars Gests.

Fyrri platan kom út haustið 1965 og með útgáfu hennar sló Þorvaldur í gegn svo um munaði en hún hafði m.a. að geyma stórsmellinn Á sjó. Lagið varð strax feikilega vinsælt og platan seldist í um fimm þúsundum eintaka sem þá var gríðarlega mikið og miklu meira en plata hafði nokkru sinni selst á Íslandi, lagið varð einnig mest um beðna lagið í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins, Óskalögum sjúklinga og Á frívaktinni, sem var óskalagaþáttur sjómanna. Það sem helst einkenndi rödd Þorvaldar var dýpt hennar en fáir leika eftir þann söng.

Þorvaldur og Vilhjálmur Vilhjálmsson

Síðari platan kom út eftir áramótin 1964-65 og hafði einnig að geyma lag með Þorvaldi, Hún er svo sæt, sem ennfremur naut mikilla vinsælda. Það lag samdi Þorvaldur sjálfur við texta Ómars Ragnarssonar en þeir áttu einnig lagið Komdu, sem hafði verið á fyrri plötunni.

Þorvaldur, Vilhálmur og hljómsveit Ingimars urðu með plötunum tveimur meðal vinsælustu popptónlistarmanna landsins, útgefandinn Svavar hamraði auðvitað járnið meðan það var heitt og þeir Þorvaldur og Vilhjálmur fengu fjölda verkefna á vegum útgáfunnar í kjölfarið. Reyndar hætti Vilhjálmur í hljómsveit Ingimars um svipað leyti og síðari platan kom út og þá færði Þorvaldur sig yfir á bassagítarinn í sveitinni.

Þorvaldur átti eftir að starfa í nokkur ár fyrir norðan en þegar hann fór suður til Reykjavíkur í plötuupptökur vorið 1966 kom hann í nokkur skipti fram með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar en Vilhjálmur hafði þá einmitt gengið til liðs við þá sveit. Í þeirri ferð söng Þorvaldur lag úr Danslagakeppni Útvarpsins inn á plötu en ferðin var fyrst og fremst til að taka upp heila breiðskífu með sjómannalögum sem kom út um haustið undir titlinum Þorvaldur Halldórsson syngur sjómannalög. Þó að platan væri sólóverkefni Þorvaldar átti Ingimar Eydal stóran þátt í henni, hljómsveit hans lék undir og Ingimar annaðist sjálfur allar útsetningar. Sjö laganna voru erlend við íslenska texta og átti Þorvaldur sjálfur eitt íslensku laganna, Sjómannskveðja. Pétur Steingrímsson annaðist upptökurnar sem fóru fram í Ríkisútvarpinu eins og títt var á þessum árum.

Sjómannalögin slógu samstundis í gegn og á fyrstu þremur vikunum seldist upplagið, fimmtán hundruð eintök, upp svo panta þurfti fleiri. Platan varð meðal söluhæstu platna og festi Þorvald heldur betur í sessi meðal fremstu söngvara landsins.

Þorvaldur 1974

Þorvaldur hélt áfram að starfa með hljómsveit Ingimars norðan heiða og um sumarið 1967 kom enn ein fjögurra laga smáskífan út, þá söng Helena Eyjólfsdóttir á móti honum. Það gerði hún líka á næstu smáskífu sem kom út 1968 og hafði að geyma íslenskuð lög úr kvikmyndinni um Mary Poppins, sú plata var sex laga sem flest nutu nokkurra vinsælda.

Önnur smáskífa, fjögurra laga, kom út þetta sama ár (1968), lögin Mig dregur þrá sem Þorvaldur söng einn, og Sumarást og Ég tek hundinn, sem þau Helena sungu saman náðu nokkrum vinsældum og kannast margir einnig við endurgerð Radíus-bræðra af Sumarást mörgum árum síðar.

Síðasta smáskífan sem Þorvaldur vann með hljómsveit Ingimars Eydal kom út 1969 (á vegum Tónaútgáfunnar) en vakti ekki mikla athygli. Hlutverki hans með sveitinni á plötum var þó ekki lokið því hann söng með henni inn á splitplötu með Kirkjukór Akureyrar, Heims um ból, sem kom út fyrir jólin 1969 en einnig hafði komið út platan Unga kirkjan: trúarsöngvar (1968) þar sem sveitin kom við sögu.

Þorvaldur söng með hljómsveit Ingimars til haustsins 1972 en þá fluttist hann suður til Reykjavíkur. Um það leyti kom út ný sólóplata með honum á vegum SG-hljómplatna. Á þeirri plötu er fékk titilinn …gerir ekki neitt, lék hljómsveit undir stjórn Jóns Sigurðssonar, sem sá jafnframt um útsetningar en upptökur fóru fram hjá Pétri Steingrímssyni í Útvarpshúsinu eins og áður. Öll voru lögin erlend nema eitt en Þorvaldur samdi einn textanna. Platan vakti ekki mikla athygli miðað við það sem áður þekktist hjá Þorvaldi og hún innihélt engan stórsmell á borð við Á sjó.

Nú fór í hönd nokkurra mánaða skeið þar sem Þorvaldur starfaði sjálfstætt sem söngvari, kom fram á skemmtistöðum og söng við undirleik hinna og þessa hljómsveita. Það varð ekki fyrr en haustið 1973 sem hann gekk til liðs við hljómsveitina Pónik þar sem hann söng og lék á bassa. Í þeirri sveit hann var í nokkra mánuði, söng inn á tvær plötur með henni en þær voru aldrei líklegar til vinsælda. Á þessum tímapunkti má því segja að hátindi ferils Þorvalds á útgáfusviðinu hafi verið náð.

Þorvaldur Halldórsson 1983

Þorvaldur söng um skamman tíma með hljómsveit Ólafs Gauks en um sumarið 1974 fluttist hann til Vestmannaeyja, sem þá var að byggjast upp eftir gos, ásamt nýrri unnustu sinni en hann var þá fráskilinn. Þorvaldur varð þegar virkur í tónlistarlífi Eyjamanna, söng með Samkór Vestmannaeyja og stjórnaði barnakór svo dæmi séu tekin. Hann varð jafnframt öflugur í leiklistarsamfélaginu í Eyjum en hann hafði áður fengist lítillega við leiklist á Akureyri.

Segja má að líf Þorvaldar hafi tekið miklum breytingum í Eyjum en haustið 1977 frelsaðist hann og sneri þá baki við popptónlistinni um tíma, hann hóf nám í guðfræði en varð síðar reyndar að hætta því sökum fjárskorts. Trúarlífið tók nú hug hans allan og trúarleg tónlist samhliða því en þó liðu allmörg ár áður en útgáfa þess eðlis leit dagsins ljós hjá honum. Það var árið 1983 í formi fjórtán laga snældu sem fékk titilinn Leiðin til lífsins og gaf Þorvaldur hana út sjálfur, ellefu árum eftir síðustu útgáfu. Snældan var líkast til tekin upp á Akureyri í Stúdíó Bimbó og voru lögin blanda erlendra laga og frumsamins efnis Þorvaldar.

Tvö ár liðu áður en næsta útgáfa kom út en það var í formi plötunnar Föðurást, sem hafði að geyma kristilega tónlist eins og Leiðin til lífsins. Þorvaldur samdi níu af lögunum ellefu á plötunni en Margrét Scheving eiginkona hans hin tvö, þar af lagið við sálminn Drottinn er minn hirðir sem flestir ættu að þekkja. Þorvaldur naut aðstoðar fjölmargra tónlistarmanna við upptökur á plötunni sem fór fram í Hljóðrita en Gunnar Smári Helgason annaðist upptökuþáttinn.

Í millitíðinni, eða árið 1984 hóf Þorvaldur aftur að syngja „veraldlega“  tónlist þegar hann kom fram á rokkhátíð á skemmtistaðnum Broadway, í kjölfarið voru haldnar sams konar skemmtanir m.a. í Sjallanum á Akureyri þar sem gamla rokkið var heiðrað með ýmsum hætti og söng Þorvaldur síðar á mörgum slíkum skemmtunum enda var honum hvarvetna tekið sem týnda syninum, þarna má m.a. nefna sýningu í tilefni af tuttugu og fimm ára afmælis Hljómsveitar Ingimars Eydal (1987), sýninguna Komdu í kvöld á Broadway (1989) og sýningum sem settar voru á svið til minningar um Vilhjálm Vilhjálmsson (1991) og Ingimar Eydal (1996).  Það þarf varla að taka fram að aðallag hans í sýningum sem þessum var Á sjó og oft fylgdi í kjölfarið Hún er svo sæt, sem enn trekktu að. Samhliða þessu skemmti hann oft á þessum árum ásamt Gunnari Tryggvasyni á Dansbarnum og víðar. Hann hefur einnig komið fram með hljómsveitinni Næturgölum.

Með Hljómsveit Ingimars Eydal 1987

Þorvaldur og Margrét höfðu flutt frá Vestmannaeyjum eftir áratugar búsetu þar og sest að á höfuðborgarsvæðinu, Þorvaldur hafði orðið að hætta guðfræðinámi en nam þess í stað húsasmíði og við þá iðngrein starfaði hann um árabil samhliða söng í kirkjustarfi og á skemmtunum, hann tók ennfremur þátt í starfi fyrir eldri borgara og helgihaldi í Kolaportinu um helgar og var afar virkur í því starfi öllu, og hafði yfirið nóg að gera.

Þorvaldur starfrækti á þessum árum kristilega sönghópinn Án skilyrða og fór með hann í tónleikaferð í kringum landið 1990, þar er hópurinn ýmist skilgreindur sem sönghópur eða hljómsveit en á snældu sem hópurinn gaf út og bar heitið Án skilyrða er án nokkurs vafa um að ræða söngkvartett en Þorvaldur annast þar allan hljóðfæraleik.

Árið 2000 kom út platan Drottinn er minn hirðir, hún var mestmegnis skipuð lögum eftir Þorvald sjálfan en fjölmargir aðrir tónlistarmenni komu að henni. Morgunblaðið birti ágætan dóm um plötuna en fremur fátítt var að slík gagnrýni birtist um trúarlega tónlist í blöðum. Það var svo árið 2010 sem platan Þorvaldur Halldórsson syngur sjómannalög var endurútgefin en hún hafði þá verið ófáanleg svo áratugum skipti.

Þorvaldur vann sem fyrr segir við smíðar lengi vel en varð í kringum aldamótin að hætta þeim starfa vegna slitgigtar, eftir það hóf hann að starfa hjá Þjóðkirkjunni við tónlistarflutning, einkum fyrir eldri borgara. Hann hefur hin síðustu ár verið búsettur á Selfossi.

Þorvaldur árið 1985

Eins og gefur að skilja hafa ýmsar safnplötur komið út með lögum sungnum af Þorvaldi, þetta eru plötur eins og Það gefur á bátinn (1981), Óskalögin 1 og 2 (1997 og 98), Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Aftur til fortíðar 60-70 I og III (1990), Á sjó: fjórtán sjómannalög (1971), Stóra bílakassettan III, IV og V (1979), Óskastundin 3 (2004), Síldarævintýrið: 23 vinsæl lög síldaráranna (1992), Strákarnir okkar  (1994), Óskalög sjómanna (2007), Hafið lokkar og laðar (1975), Jón Múli Árnason: Söngdansar og ópusar (2011), Litlu andarungarnir (1983), Stóra barnaplatan (1977), Svona var… serían (2005-08), Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins (1966) og Úrval ’73  (1974).

Söng Þorvaldar er einnig að finna á afar mörgum safnplötum í kristilega geiranum en ógrynni platna hefur komið út í þeirri deild síðustu áratugina, meðal platna þar má nefna Hefur þú heyrt? (1986), Enn er von (1986), Hjálparhönd (1988), Rjóminn af trúartónlist 9. áratugarins (1997) og Niður við krossinn (1989).

Í gegnum tíðina hefur Þorvaldur einnig sungið sem gestur á plötum annarra listamanna, meðal platna má t.d. nefna með hljómsveitinni Farmalls (1997), jólaplötuna Hurðaskellir og Stúfur snúa aftur (1989), plötu Samkórs Vestmannayja (1977) og Svona var á Sigló (2000) sem var plata með siglfirsku tónlistarfólki, hann hafði ennfremur sungið á minningartónleikum um Vilhjálm Vilhjálmsson sem gefnir voru út á plötu 2008.

Efni á plötum