Þorsteinn Ö. Stephensen (1904-91)

Þorsteinn Ö. Stephensen

Þorsteinn Ögmundsson Stephensen leikari kom lítið við sögu íslenskrar tónlistar en eftir hann liggur þó ein hljómplata með upplestri á ljóðum.

Þorsteinn fæddist 1904, lærði leiklist í Kaupmannahöfn um miðjan fjórða áratuginn og kom heim til Íslands til starfa hjá Ríkisútvarpinu, fyrst sem þulur en síðan einnig sem leiklistarstjóri útvarpsins en því starfi gegndi hann í um þrjá áratugi.

Samhliða störfum sínum hjá Ríkisútvarpinu lék hann við Þjóðleikhúsið og Iðnó, auk útvarpsleikrita en hlutverk hans skiptu hundruðum.

Þorsteinn gegndi ýmsum embættum tengdum félagsstörfum leikara, hann var um skeið formaður Leikfélags Reykjavíkur, formaður Félags íslenskra leikara og var í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, hann var ennfremur formaður starfsmannafélags Ríkisútvarpsins en hann hafði verið í forsvari fyrir stofnun þess. Hann hlaut einnig fjölda viðurkenninga fyrir starf sitt í leikhúsinu.

Þorsteinn lést 1991 og þremur árum síðar gáfu Ríkisútvarpið og leiklistarsjóður sem stofnaður hafði verið í nafni hans, út plötuna Ljóð & saga en á henni var að finna upplestur Þorsteins á átján ljóðum, úrval upptaka úr eigu Ríkisútvarpsins frá ýmsum tímum. Rödd hans er einnig að finna í leikritum útgefnum á plötum.

Efni á plötum