Þórarinn Óskarsson (1930-)

Þórarinn Óskarsson

Þórarinn Óskarsson básúnuleikari er einn af fyrstu djassleikurum íslenskrar tónlistarsögu og var lengi meðal þeirra fremstu en hann lék með fjölda danshljómsveita auk annarra sveita.

Þórarinn fæddist norður í Húnavatnssýslu 1930, ólst upp að mestu leyti á Blönduósi og nærsveitum en flutti suður til Reykjavíkur þar sem eiginlegur tónlistarferill hans hófst.

Þórarinn nam sín básúnufræði fyrst af Birni R. Einarssyni og síðan Albert Klahn og var farinn að leika með djass- og danshljómsveitum þess tíma aðeins átján ára gamall, fyrst virðist hann leika með danshljómsveit haustið 1948 undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar  (KK) sem mun þó ekki hafa verið KK sextettinn. Hann lék einnig á þessum árum með hljómsveit FÍH og eitthvað síðar með Karli Jónatanssyni og hljómsveit hans.

Það var svo sumarið 1950 sem Þórarinn stofnaði band undir eigin nafni, Þ.Ó. kvintett, og Hljómsveit Þórarins Óskarssonar í framhaldi af því (einnig kölluð Dixielandhljómsveit Þórarins Óskarssonar). Síðarnefndu sveitina starfrækti Þórarinn til ársins 1954 en þá fluttist hann suður til Keflavíkur og átti eftir að starfa hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli lengi eftir það, og hætti því að starfrækja og leika með danshljómsveitum.

Hann hætti þá einnig að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann hafði starfað með frá stofnun, 1950 en hann lék áfram með Lúðrasveit Reykjavíkur sem hann hafði verið í frá 1947. Með þeirri sveit lék hann allavega til ársins 2010 og sat um tíma í stjórn hennar, en hann var heiðraður síðar fyrir störf sín með Lúðrasveit Reykjavíkur.

Þórarinn var lítið viðloðandi tónlist lengi vel á meðan hann starfaði fyrir Varnarliðið en hann hóf að leika með Dixielandhljómsveit Árna Ísleifssonar um miðjan áttunda áratuginn í einhvern tíma og svo aftur síðar um og eftir aldamótin 2000. Hann hefur starfað einnig með Stórsveit Öðlinganna, sveit gamalla djassara, hin síðari ár.