
Þórarinn Óskarsson
Fimm afmælisbörn koma við sögu í dag í gagnagrunni Glatkistunnar:
Íris Kristinsdóttir söngkona er fjörutíu og átta ára gömul á þessum degi. Íris vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Írafári sumarið 1998 en sló síðan í gegn ári síðar sem gestasöngvari með Sálinni hans Jóns míns á frægum órafmögnuðum tónleikum sem gefnir voru út. Síðar söng Íris með hljómsveitinni Buttercup sem gerði fjölmörg lög vinsæl um aldamótin, og enn síðan með Ber. Lítið hefur farið fyrir Írisi á söngsviðinu undanfarin ár en hún hefur þó reglulega birst í undankeppni Eurovision, Sæluvikukeppni Sauðkræklinga og víðar s.s. Rokkkór Íslands.
Andri Freyr Viðarsson eða Freysi dagskrárgerðamaður er fjörutíu og þriggja ára gamall í dag. Þótt Andri Freyr sé fyrst og fremst útvarpsmaður hefur hann einnig verið viðloðandi tónlist, hann hóf ferilinn með hljómsveitinni Kristur drepinn á bernskuárum sínum en hefur auk þess leikið á gítar og jafnvel sungið í sveitum eins og Thundergun, Bitch tits, Botnleðju, Fídel, Tríó Briggs & gullvagninn og Bisund.
Jón Símonarson (Junior) er fjörutíu og níu ára gamall, hann vakti fyrst athygli sem söngvari Nabblastrengja sem sigruðu Músíktilraunir 1990 en strax í kjölfar þess gekk hann til liðs við Bootlegs. Síðar starfaði hann með hljómsveitum eins og Dos Pilas, Stunu og Solid I.V., hann hefur jafnframt því unnið í hljóðverum.
Karólína Einarsdóttir hljómborðsleikari, ein af yngri og efnilegri tónlistarmönnum landsins er tuttugu og eins árs gömul í dag. Karólína hefur vakið athygli með hljómsveit sinni, Gróu sem keppti í Músíktilraunum 2017 og sendi fyrir nokkru frá sér plötu á veraldarvefnum. Margir muna einnig eftir henni er hún flutti frumsamið píanóverk í sjónvarpsþætti þegar hún var ellefu ára gömul.
Þá á Þórarinn Óskarsson básúnuleikari afmæli á þessum degi en hann er níutíu og þriggja ára gamall, hann var með fyrstu básúnuleikurum þessa lands. Þórarinn er upphaflega Húnvetningur en fór til Reykjavíkur og nam sín fræði fyrst hjá Birni R. Einarssyni og síðan Albert Klahn, hann fór fljótlega að leika með hinum og þessum hljómsveitum s.s. Hljómsveit FÍH, hljómsveit undir stjórn KK og Hljómsveit Karls Jónatanssonar áður en hann stofnaði sveit í eigin nafni. Hann lék einnig lengi vel með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Lúðrasveit Reykjavíkur.
Vissir þú að fyrir miðja síðustu öld var starfandi kór sjómanna á Ísafirði?