Miserable people – ný smáskífa Myrkva

Þriðja smáskífa dúósins Myrkva af væntanlegri breiðskífu er nú komin út en smáskífan ber heitið Miserable people og mætti skilgreina tónlistina sem þægilegt indí-gítarpopp, skífan er nú aðgengileg á streymisveitum og sem myndband á Youtube.

Þetta nýjasta Myrkvaverk er grúví smellur og löðrandi af ádeilu. Hið vansæla fólk virðist skemmta sér vel, þar til tónlistin snýr baki við gleðinni og fer að eltast við annars konar tilfinningu. Tónlistarmyndbandið var tekið upp á tónleikaferð og málverk eftir Freydísi Halldórsdóttur prýðir umslag smáskífunnar.

Miserable people er sem fyrr segir þriðja smáskífan af komandi breiðskífu Myrkva en þeir kumpánar hafa ýmsa fjöruna sopið í gegnum tíðina. Týndu árin og hljóðheimur uppvaxtaráranna, sitt hvorum megin við aldamótin, brutust út við gerð plötunnar.

Myrkvi er samstarfsverkefni Magnúsar Thorlacius og Yngva Rafns Garðarssonar Holm en Magnús starfaði áður einn undir þessu nafni, þeir félagar voru áður í hljómsveitinni Vio sem sigraði Músíktilraunir vorið 2014 og hlaut þá verðskuldaða athygli sem skilaði sér m.a. í verðlaunum á Íslensku tónlistarverðlaununum.