Afmælisbörn 20. maí 2023

Svavar Benediktsson

Afmælisbörn dagsins eru eftirfarandi:

Pétur Jónasson gítarleikari er sextíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Pétur nam gítarleik fyrst hér heima en fór til framhaldsnáms til Mexíkó, Spánar og víðar, hann hefur haldið fjölda einleikaratónleika víða um heim og í öllum heimsálfum. Ein sólóplata hefur komið út með gítarleik Péturs en hann hefur þó leikið inn á fjölmargar plötur, til að mynda í samstarfi við Caput hópinn, Guðrúnu Birgisdóttur, Martial Nardeau og Kjartan Ólafsson, en með þeim síðast talda starfaði Pétur í hljómsveitinni Pjetur og úlfarnir hér í gamla daga.

Sigurður Helgi Jóhannsson eða Siggi Helgi eins og hann er oft kallaður, er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Siggi Helgi var einn af fyrstu kántrísöngvurunum hérlendis og starfaði með fjölmörgum hljómsveitum í þeim geira og annars konar sveitum auk þess að hafa gefið út sólóplötu. Meðal sveita sem hann hefur starfað með eru Fortíðardraugarnir, Kúrekar norðursins, Geislabandið, Casanova, Afabandið og Sigges orkester en síðast talda sveitin starfaði í Noregi þar sem hann hefur búið síðustu árin.

Norðfirðingurinn Svavar Benediktsson (1913-77) átti þennan afmælisdag einnig. Hann var kunnur lagahöfundur, tók oft þátt í dægurlagasamkeppnum SKT og samdi m.a. hinn ódauðlega Sjómannavals (Það gefur á bátinn við Grænland) en einnig Nótt í Atlavík, Togararnir talast á og fleiri vinsæl dægurlög fyrri ára. Hann var einnig harmonikkuleikari og skemmti oft með nikkuna áður en önnur og háværari hljóðfæri tóku völdin um 1960.

Vissir þú að í Gaggó Vest var fyrir löngu síðar starfandi unglingahljómsveit sem hét Rock boys?