Siggi Helgi (1959-)

Siggi Helgi

Tónlistarmaðurinn Siggi Helgi var töluvert áberandi á níunda áratug síðustu aldar og sendi þá frá sér sólóplötu auk þess sem hann kom fram í kvikmyndinni Kúrekum norðursins ásamt fleirum og tók samhliða því þátt í kántríhátíðar-ævintýrinu á Skagaströnd. Í seinni tíð hefur hann mestmegnis starfrækt hljóðver og eitthvað starfað með hljómsveitum.

Sigurður Helgi Jóhannsson (Siggi Helgi) fæddist 1959 á Ólafsfirði og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar og á Akureyri en fluttist svo til Keflavíkur á unglingsárum sínum, þar hófst tónlistarferill hans og starfaði hann með fáeinum hljómsveitum en þekktust þeirra var Casanova þar sem hann var söngvari.

Um tvítugt flutti Siggi Helgi aftur norður til Akureyrar og bjó þar og starfaði lengi vel, og árið 1984 hlaut hann töluverða athygli þegar hann sendi frá sér plötuna Feti framar… Upphaflega var ætlunin að gefa einungis út á kassettuformi og voru tólf lög hljóðrituð í Stúdíó Bimbó á Akureyri í því skyni, sjálfur samdi hann megnið af tónlistinni og textunum en hann fékk nokkra tónlistarmenn til liðs við sig til að leika í upptökunum og sjálfur sá hann um sönginn að mestu og lék á bassa og gítar. Mönnum leist vel á efnið og því var afráðið að gefa það út á vínylplötuformi að auki um vorið, eftir að kassettu-útgáfan hafði litið dagsins ljós.

Tónlistin á plötu Sigga Helga var ekki beinlínis kántrí en um sumarið hófst það sem kalla mætti kántrískeiðið en þá kom hann fram ásamt Hallbirni Hjartarsyni og Johnny King á fyrstu kántríhátíðinni á Skagaströnd, þar skemmtu þeir félagarnir undir nafninu Kúrekar norðursins og líklega einnig Dalton-bræður við undirleik hljómsveitarinnar Týról en einnig skemmtu þeir víðar um norðanvert landið með kántrítónlist það sumar. Kántríhátíðin var kvikmynduð af Friðriki Þór Friðrikssyni og var myndin síðar frumsýnd undir nafninu Kúrekar norðursins, tónlistin úr myndinni kom út á plötu samnefndri henni. Þetta sama ár kom hann við sögu sem útsetjari á plötu sem Stúdíó Bimbó gaf út undir titlinum Dolli dropi en virðist ekki hafa verið viðloðandi tónlist að öðru leyti.

Lítið fór fyrir Sigga Helga á tónlistarsviðinu næstu árin þrátt fyrir nokkra velgengni sumarið 1984, hann mun hafa verið titlaður framkvæmdastjóri kántríhátíðarinnar á Skagaströnd sumarið 1985 en virðist ekki hafa komið þar við sögu sem skemmtikraftur, og reyndar segir sagan að hann hafi þá verið genginn í söfnuð Votta Jehóva.

Sigurður Helgi Jóhannsson

Það var svo ekki fyrr en eftir miðjan tíunda áratuginn sem næst spurðist til Sigga Helga en hann starfaði þá m.a. hjá norðlensku sjónvarpsstöðinni Aksjón, en árið 1996 hóf hann að koma fram á nýjan leik ásamt Johnny King, m.a. í Hrísey 1996 og á Halló Akureyri 1998. Í kjölfarið settu þeir félagar á stofn hljóðver en svo virðist sem Siggi Helgi hafi svo rekið það einn síns liðs og plötuútgáfu samhliða því undir nafninu ICR-music, hann var um tíma að vinna að nýrri sólóplötu en sú hugmynd mun hafa verið lögð í salt.

Siggi Helgi gaf út nokkrar plötur undir ICR-music merkinu, m.a. með Edwin Kaber en einnig starfræktu þeir Johnny King dúóið Fortíðardraugana sem gaf út plötu 1998 en tóku svo upp nafnið Kúrekar norðursins / Cowboys of the north og gáfu út plötur undir því nafni, þá síðustu árið 2008 en þá hafði Siggi Helgi einnig starfað með hljómsveitinni Afabandinu um tíma sem einnig gaf út plötur. Árið 2008 stofnaði hann jafnframt nýja sveit, Geislabandið en sú sveit náði ekki að senda frá sér neitt efni því ári síðar flutti hann til Noregs í kjölfar bankakreppunnar hér á landi og þar hefur hann búið síðan og starfrækt þar hljóðver sitt, þar hefur hann einnig starfrækt íslensk-norska hljómsveit sem gengur undir nafninu Sigges Orkester.

Efni á plötum