Siggi Ingimars (1970-)

Siggi Ingimars

Tónlistarmaðurinn og Hjálpræðishers-kapteinninn Sigurður Ingimarsson hefur verið viðloðandi tónlistarbransann á Íslandi með einum eða öðrum hætti frá unglingsaldri, bæði í kristilega geira tónlistarinnar sem og í hinu almenna poppi.

Sigurður Hörður Ingimarsson (Siggi Ingimars) er fæddur 1970 og kemur upphaflega frá Akureyri. Hann var virkur í kristilegu starfi KFUM og K þar í bæ og var á unglings aldri farinn að spila og syngja á samkomum þess félagsskapar. Svo virðist sem Siggi hafi um tvítugt einnig verið farinn að koma fram sem trúbador, að minnsta kosti var maður með þessu nafni auglýstur á Vagninum á Flateyri en alls óvíst er hvort um sama mann sé að ræða. Hann var þó kominn í hljómsveitina Kredit sem starfaði á Akureyri um 1991, var þar sem gítarleikari og söngvari um tíma. Um svipað leyti kom hann fram í uppfærslu Freyvangsleikhússins á söngleiknum Jesus Christ superstar, söng þar hlutverk Júdasar en hann átti síðar eftir að syngja það hlutverk í nokkur skipti á ferli sínum.

Sigurður virðist hafa verið sunnan heiða um tíma og var þá í hljómsveitinni Sigtryggi dyraverði sem vakti nokkra athygli, sú sveit sendi frá sér plötu árið 1993 undir titlinum Mr. Empty en hann var þá hættur í sveitinni, um svipað leyti sigraði hann trúbadorakeppni sem haldin var í Ölkjallaranum. Hann fór svo norður á nýjan leik og starfaði þar með Dúótón tríóinu og einnig öðru tríói, Nonna og Manna þar sem hann lék á gítar og harmonikku – og reyndar leikur hann á fjölmörg önnur hljóðfæri.

Sigurður Ingimarsson

Um miðjan tíunda áratuginn má svo segja að kristilegi þátturinn hafi komið meira inn í tónlistarferil Sigga, hann söng með gospelkór innan KFUM og K starfsins og var þar reyndar einnig í Gospelkvartettnum en um það leyti hóf hann einnig að starfa fyrir Hjálpræðisherinn og tók þar virkan þátt í tónlistarstarfinu sem söngvari og hljóðfæraleikari, í því starfi hefur hann komið fram með kristilegu hljómsveitinni Nýir menn, sungið í uppfærslu á kristilegu rokkóperunni !Hero, fleiri uppfærslum á Jesus Christ Superstar, sungið í U2 messum o.s.frv.

Siggi hefur tengt þessu starfi einnig sungið inn á nokkrar plötur og má þar nefna safnplötuna No3 (1996) þar sem hann var meðal flytjenda ásamt hljómsveitunum Operation big beat og Góðu fréttunum, þá söng hann á plötu Miriam Óskarsdóttur (1994), safnplötunum Regn (1998) og Fótspor í 120 ár (2016) og á norskri safnplötu tengt starfi Hjálpræðishersins en Siggi bjó ásamt eiginkonu sinni um tíma bæði í Noregi og Færeyjum og starfaði þar fyrir Herinn. Þá hefur hann gegnt starfi kapteins í Hernum bæði á Akureyri og Reykjavík. Hann hefur jafnframt sent frá sér sex laga smáskífu sem bar nafið King (2016).

Siggi hefur verið viðloðandi annars konar tónlist áfram samhliða þeirri kristilegu, hann hefur t.d. komið fram með djasstríói Carls Möller, sungið á plötum Sveins Haukssonar, Rúnars Eff og Blússveitar Þollýjar, hann söng í Abba-sýningu á Broadway, átti lag í jólalagasamkeppni Rásar 2 og tók m.a.s. þátt í X-faktor keppninni sem Stöð 2 stóð fyrir á sínum tíma, þá hefur hann sungið á fjölmörgum tónleikum í gegnum tíðina s.s. jólatónleikum, með Rokkkór Íslands og Kór Lindarkirkju, á tónleikum á Græna hattinum helguðum Johnny Cash og svo mætti áfram telja.

Siggi Ingimars býr nú á Akureyri og kennir tónlist samhliða störfum sínum fyrir Hjálpræðisherinn.

Efni á plötum