Sigtryggur dyravörður (1993-94)

Sigtryggur dyravörður

Hljómsveitin Sigtryggur dyravörður starfaði á annað ár undir lok síðustu aldar, spilaði mikið á þeim tíma og sendi frá sér eina plötu sem hlaut ágætar viðtökur.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1993 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Eiður Alfreðsson bassaleikari, Jón Elfar Hafsteinsson gítarleikari, Sigurður Ingimarsson söngvari og Tómas Jóhannesson trommuleikari. Nafn sveitarinnar kemur að öllum líkindum tengt Sigtryggi Sigurðssyni glímukóngi sem var kunnur dyravörður á Röðli hér á árum áður en Þursaflokkurinn hafði áður gert honum skil í einu laga sinna.

Þeir félagar komu fram í fyrsta sinn fyrir alþjóð þegar þeir spiluðu í þætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali hjá Hemma Gunn í Ríkissjónvarpinu um vorið 1993. Fljótlega eftir það hóf sveitin að spila í öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins og svo einnig úti á landsbyggðinni um sumarið. Þær breytingar urðu þá á skipan sveitarinnar að Jóhannes Eiðsson tók við sönghlutverkinu af Sigurði Ingimarssyni.

Um haustið birtist plata með Sigtryggi dyraverði en hana höfðu þeir að mestu hljóðritað sjálfir í heimahúsi og gáfu hana einnig út á eigin vegum. Platan bar titilinn Mr. Empty og þrátt fyrir að gera ekki miklar rósir hvað vinsældir og útvarpsspilun varðar hlaut hún þokkalega dóma í DV og Pressunni en góða í Degi og Morgunblaðinu. Sveitin fylgdi útgáfunni eftir með frekari spilamennsku og var mjög virk uns þeir félagar hurfu jafn skjótlega af sviðinu og þeir höfðu birst, haustið 1994.

Efni á plötum