Sixties [1] (1987-90)

Sixties / Sixtís

Hljómsveitin Sixties (einnig ritað Sixtís) starfaði undir lok níunda áratugar síðustu aldar og var líkast til eins konar undanfari sveitar sem spratt fram á sjónarsviðið fáeinum árum síðar undir sama nafni.

Svo virðist sem Sixties hafi verið stofnuð 1987 en hún spilaði töluvert, einkum í Hollywood næstu tvö árin. Sigríður Beinteinsdóttir söng eitthvað með sveitinni en ekki liggur þó fyrir hvort hún var meðlimur hennar, upplýsingar eru reyndar afar takmarkaðar um hana en allt bendir til að sömu meðlimir hafi verið í hljómsveitunum Centaur og Gíslunum, að minnsta kosti voru þeir Guðmundur Gunnlaugsson trommuleikari og Einar Þorvaldsson gítarleikari meðlimir hennar.

Sixties virðist hafa verið starfandi til 1990 og nokkrum árum síðar birtist ný sveit, skipuð sömu meðlimum að hluta til undir sama nafni og sló í gegn með tónlist sjöunda áratugarins.