Sixties [2] (1994-2012)

Fyrsta útgáfa Sixties

Hljómsveitin Sixties spratt fram á sjónarsviðið um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar og sló í gegn með tónlist frá sjöunda áratugnum líkt og Bítlavinafélagið hafði gert nokkrum árum áður. Sixties sendi í kjölfarið frá sér fjölmargar plötur með þessari tónlist en smám saman breyttust áherslurnar m.a. með tilkomu nýrra efnis á prógramminu auk frumsamdra laga, það gafst þó ekki eins vel og sveitin færði sig aftur í fortíðina.

Sixties var stofnuð haustið 1994 í kjölfar þess að nokkrir félagar höfðu séð kvikmyndina Backbeat sem þá var verið að sýna í kvikmyndahúsum borgarinnar en hún fjallar um Hamborgarár Bítlanna. Myndin varð kveikjan að því að stofna hljómsveit sem sérhæfði sig í tónlist þeirra ára og einkum Bítlanna. Stofnmeðlimir sveitarinnar voru þeir Guðmundur Gunnlaugsson trommuleikari, Svavar Sigurðsson gítarleikari og Rúnar Friðriksson söngvari sem allir höfðu verið í rokksveitinni Jötunuxum, Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari og Þórarinn Freysson bassaleikari, ein heimild segir reyndar að Þórarinn Leifsson hafi verið bassaleikari sveitarinnar en þar er líklega um nafnarugling að ræða.

Svavar gítarleikari staldraði ekki lengi við í Sixties og reyndar höfðu fleiri gítarleikarar komið og farið fyrstu mánuðina áður en þeir félagar héldu áfram bara fjórir, Guðmundur, Rúnar, Andrés Þór og Þórarinn. Sixties fór á fullt strax um haustið í spilamennsku og einhver þörf landans fyrir slíka tónlist var augljóslega fyrir hendi því sveitin sló strax í gegn á böllum sínum, einkum meðal miðaldra fólks sem sótti dansleiki hennar, uppistaðan í ballprógrammi sveitarinnar voru bítlalög en önnur tónlist frá sama tíma hlaut þar aukið vægi eftir því sem á leið.

Fljótlega lék sveitin í sjónvarpsþættinum Dagsljós og það mun hafa verið sá þáttur sem gaf Rafni Jónssyni plötuútgefanda hjá R&R músík og trommuleikara Bítlavinafélagsins þá hugmynd að gefa út plötu með sveitinni, hann lumaði þá á lagalista með gömlum íslenskum lögum sem til hafði staðið að Bítlavinafélagið myndi nota á plötunni Önnur tólf íslensk bítlalög (sem aldrei kom út þar sem Bítlavinafélagið reri á önnur mið eftir útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar – 12 íslensk bítlalög) og úr varð að hafist var handa við að hljóðrita plötuna. Hún kom út um vorið 1995 en þá var sveitin einungis búin að vera starfandi í um hálft ár og um svipað leyti komu lög með sveitinni einnig út á safnplötunum Ís með dýfu og Pottþétt ´95. Platan sem bar titilinn Bítilæði sló strax í gegn og fyrsta upplagið seldist upp á örfáum vikum og þegar upp var staðið hafði hún selst í um 7000 eintökum og varð í þriðja sæti yfir söluhæstu plötur ársins. Lagið Vor í Vaglaskógi varð strax vinsælt við útgáfu plötunnar og fór á topp Íslenska listans og fleiri lög (Söknuður og Alveg ær) fylgdu í kjölfarið þótt ekki kæmust þau á toppinn, platan fékk aukinheldur ágæta dóma í DV.

Sixties

Sixties spilaði hvarvetna fyrir fullum húsum við þessar óvæntu vinsældir og þrátt fyrir að fólkið sem sótti böllin væri almennt yfir þrjátíu og fimm ára aldur sótti fremur breiður aldurshópur þau, þannig virtist sveitin hafa hitt á markhóp sem þyrsti í dansleiki en var of gamall til að sækja dansleiki með vinsælum hljómsveitum eins og Sálinni hans Jóns míns og SSSól. Sem dæmi um vinsældir sveitarinnar má nefna að hún lék á fjórum stöðum um verslunarmannahelgina 1995, Sjallanum á Akureyri, Vopnaskaki á Vopnafirði, Neistaflugi á Neskaupstað og Bindindismótinu í Galtalæk, þá fór sveitin jafnvel út fyrir landsteinana og lék í Þýskalandi síðsumars.

Um haustið ákváðu þeir félagar að nýta sér meðbyrinn og hljóðrituðu jólaplötuna Jólaæði sem kom svo út fyrir jólin 1995 og hafði að geyma blöndu íslenskra og erlendra lagasmíða, skemmst er frá því að segja að platan sló ekki í gegn, fékk t.a.m. fremur slaka dóma í Morgunblaðinu og seldist jafnframt illa enda hafði hún verið unnin í miklum fljótheitum og hroðvirknislega.

Árið 1996 byrjaði með spilamennsku víða um land en að því loknu fór Sixties í nokkurra vikna kærkomið frí frá spilamennsku enda hafði sveitin þá spilað nokkuð samfleytt frá stofnun. Að því fríi loknu var hafist handa við að vinna nýja plötu eftir sömu uppskrift og fyrstu plötunni nema að nú voru nokkur laganna örlítið nýrri, frá áttunda áratugnum, sú plata yrði þá þriðja plata sveitarinnar á rétt rúmu ári. Platan kom út á vegum R&R músík um vorið og hét Ástfangnir, hún seldist mjög vel þó ekki yrði hún sami hittarinn og fyrsta platan en fyrsta upplagið seldist þó fljótlega upp. Ástfangnir fékk þokkalega dóma gagnrýnenda Dags og DV og lög eins og Æsandi fögur og Stjáni saxafónn nutu nokkurra vinsælda. Sem fyrr lék sveitin mikið á dansleikjum um sumarið og haustið við góða aðsókn og vinsældir, og annað árið í röð kom Sixties fram á fjórum stöðum um verslunarmannahelgina, Neistaflugi, Vopnaskaki, Halló Akureyri og Kántrýhátíð á Skagaströnd. Tvö lög komu einnig út með sveitinni á safnplötunni Ávextir: blandaðir flytjendur en annað þeirra laga var reyndar eftir Rafn Jónsson (útgefanda) og féll því ekki undir sixties ímynd sveitarinnar.

Sixties 1997

1997 hófst með svipuðum hætti og árið á undan, spilamennska af fullum krafti og undirbúningur fyrir næstu plötu sem átti að koma út um sumarið. Uppskriftin nokkurn veginn sú sama og áður nema að þessu sinni fylgdu sex frumsamin lög, þar af fjögur eftir meðlimi sveitarinnar – eitt laganna, Sól mín og sumar (e. Jóhann Helgason) naut nokkurra vinsælda. Sixties gaf plötuna sjálf út en hún hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Á þessum tíma var örlítið farið að halla undan fæti hjá bandinu og nýjabrumið farið af gamla efninu, mikil spilamennska og mikið álag hafði sjálfsagt sitt að segja þannig að þreyta var komin í mannskapinn, tveir nýir meðlimir komu inn í sveitina í stað Þórarins og Andrésar (sem um þetta leyti var að ljúka námi í djassgítarleik) en það voru þeir Bergur Heiðar Birgisson bassaleikari og Einar Þorvaldsson gítarleikari, sá síðarnefndi hafði einmitt verið áður í hljómsveit með Guðmundur trymbli sem einnig bar nafnið Sixtís / Sixties.

Sixties með nýja skipan hélt að mestu sínu striki og um sumarið 1998 kom enn ein platan út með sveitinni – The best of Sixties, að þessu sinni var um safnplötu að ræða með tveímur áður óútgefnum lögum sem þó voru gamlir slagarar. Bergur staldraði ekki lengi við í Sixties og um haustið 1998 var Ingimundur Óskarsson orðinn bassaleikari sveitarinnar.

Sveitin spilaði ekki orðið eins mikið og áður, og heldur hægðist á plötuútgáfunni eftir öra útgáfu árin á undan en frá því um vorið 1995 til sumarsins 1998 höfðu komið út fimm plötur með sveitinni, á rúmlega fjórum árum. Sumarið 1999 sendi sveitin frá sér lag á safnplötunni Svona er sumarið ´99 en það var frumsamið lag eftir Guðmund trommara, það sama haust urðu söngvaraskipti í sveitinni þegar Jóhannes Eiðsson tók við söngnum af Rúnari og um svipað leyti kom Svavar Sigurðsson upprunalegi gítarleikari sveitarinnar aftur inn í hana í stað Einars. Aðrir meðlimir Sixties voru þá Ingimundur bassaleikari og Guðmundur trommuleikar en sá síðarnefndi var þá sá eini sem hafði verið allan tímann í sveitinni.

Sumarið 2000 sendi Sixties frá sér frumsamið lag á safnplötunni Svona er sumarið 2000 og hafði þá orðið stefnubreyting hjá sveitinni, búnir að leggja sixties-ímyndina til hliðar og voru komnir í metnaðarfullar pælingar sem popphljómsveit með frumsamið efni. Í viðtali sögðust þeir stefna á breiðskífu sumarið 2001 og augljóst var að nýjum meðlimum fylgdu nýir straumar. Sveitin spilaði nú orðið sjaldnar en áður og eitthvað virtist ekki ganga alveg upp því vorið 2001 var Rúnar tíður gestasöngvari með sveitinni og um sumarið var hann aftur orðinn söngvari hennar, um leið færðu þeir sig aftur yfir í gömlu tónlistina.

Sixties um aldamótin

Sitxties starfaði áfram og um vorið 2002 hófu þeir að kynna efni af nýrri plötu sem væntanleg var um sumarið. Nýja platan, sem var fyrsta plata sveitarinnar í fjögur ár bar heitið Sumargleði og hafði að geyma gamla íslenska slagara sem flestir voru frá níunda áratugnum en hún hafði þó þá sérstöðu að vera órafmögnuð eða unplugged eins og var nokkuð í tísku á þeim árum. Platan vakti ekki mikla almenna athygli og ekkert laganna varð áberandi í spilun útvarpsstöðvanna en sveitin átti þó sinn fasta aðdáendakjarna sem mætti þokkalega á dansleiki hennar. Um þetta leyti hafði nýr bassaleikari, Björgvin Björgvinsson gengið til liðs við Sixties og lék hann á plötunni.

Og þannig gekk þetta fyrir sig næstu árin, sveitin hélt sínu striki með nokkuð reglulegri spilamennsku á dansleikjum án þess að senda frá sér neina stórsmelli og virðist sem manna- og hljóðfæraskipan hafi verið með sama hætti næstu misserin. Kalli Bjarni (Karl Bjarni Guðmundsson) sem sigraði fyrstu Idol-keppnina hérlendis 2004 kom eitthvað fram með sveitinni og vakti lukku.

Ingi Valur Grétarsson gítarleikari (og söngvari) bættist í Sixties hópinn sem þar með var orðinn kvintett og þannig skipuð kom næsta plata sveitarinnar út – sem jafnframt varð síðasta plata hennar. Það var haustið 2006 og hafði hún verið nokkurn tíma í vinnslu en hún hafði að geyma lög eftir Jóhann G. Jóhannsson og var að einhverju leyti unnin í samstarfi við hann, hún bar heitið Hvað er, hvað verður? Lag af plötunni hafði komið út sumarið á undan á safnplötunni Svona er sumarið 2005 en ekki vakið neina sérstaka athygli, og það gerði platan ekki heldur og reyndar hlaut hún mjög slaka dóma í Morgunblaðinu. Lag af plötunni var jafnframt að finna á safnplötunni Ljósalagið 2006 og hafði það að öllum líkindum verið eitt þátttökulaga í Ljósalaga-keppninni.

Eftir útgáfu Hvað er, hvað verður? tók smám saman að fjara undan sveitinni, tíðar mannabreytingar höfðu sett svip sinn á samstarfið síðustu árin og hún lék nú orðið mun minna á dansleikjum, nokkrum sinnum á ári líklega þó með sömu mannaskipan og svo kom að því sumarið 2012 að þeir félagar gáfu það út að þeir væru farnir í pásu. Þar með má segja að sögu Sixties hafi lokið en hún var þó ekki alveg dauð úr öllum æðum því árið 2015 birtist sveitin og lék á Græna hattinum á Akureyri en tilefnið var þá 20 ára afmæli fyrstu plötunnar, Bítilæði. Það ætti því ekki að gefa endanlega út dánarvottorð á sveitina, að minnsta kosti ekki alveg strax.

Hér að framan hafa verið nefndar nokkrar safnplötur þar sem Sixties hefur komið við sögu, þær eru að sjálfsögðu töluvert fleiri og hér má m.a. nefna plötur eins og Ástarperlur (1997), Pottþétt sumar (1999), Með von í hjarta (2001), Jólin eru að koma (2001) og Ástin og lífið (2002).

Efni á plötum