Centaur (1982-)

Centaur

Centaur

Hljómsveitin Centaur var stofnuð vorið 1982 og sóttu meðlimir sveitarinnar nafn hennar til grísku goðafræðinnar en kentár (Centaur) er hálfur maður og hálfur hestur.

Sveitin sem spilaði lengi vel þungarokk, var söngvaralaus í upphafi en var skipuð þeim Guðmundi Gunnlaugssyni trommuleikara, Jóni Óskari Gíslasyni gítarleikara, Hlöðver Ellertssyni bassaleikara og Benedikt Sigurðssyni gítarleikara en þeir tveir síðast töldu skiptu þó gjarnan um hljóðfæri.

Fljótlega bættist söngvarinn og munnhörpuleikarinn Sigurður Sigurðsson við og þannig skipuð tók sveitin þátt í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982, og komst þar reyndar í úrslit. Á þeim tíma var sveitin þegar farin að vekja athygli enda sýndu fjölmiðlar þessari nýju hljómsveitakeppni töluverða athygli.

1983 hætti Benedikt gítarleikari í Centaur og um svipað leyti byrjaði Pálmi Sigurhjartarson hljómborðsleikari í henni, fleiri hræringar urðu í henni ári síðar þegar Hlöðver hætti og tók Þórhallur Björnsson við af honum. Þetta sama ár (1984) kom út efni með sveitinni á safnplötunni SATT 2. Hlöðver kom síðar aftur í bandið áður en Centaur gaf út sína fyrstu plötu 1985, hún hlaut nafnið Same places en þá hafði sveitin tekið nýja stefnu og var farin að spila blús, sem reyndar hafði aldrei verið langt undan. Jón „Skuggi“ Steinþórsson, Kjartan Kjartansson og Tryggvi Herbertsson tóku plötuna upp og hljóðblönduðu Same places, sem fékk góða dóma í tímaritinu Smelli.

Jón Óskar gítarleikari hætti í Centaur 1986 og í hans stað kom Einar Þorvaldsson en hann var einmitt með á næstu plötu sveitarinnar, Blús djamm sem kom út 1987. Hún var tekin upp um vorið í hljóðverinu Sýrlandi af Jóni Skugga. Blús djamm hlaut góðar viðtökur, ágæta dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í DV.

Ekki voru allir á eitt sáttir við nafn sveitarinnar og um tíma festist íslenskun orðsins Centaur við sveitina, þannig gekk hún undir nafninu Kentár á tímabili en það hefur aldrei náð að festast við hana svo heitið geti.

Á þessum tíma komu meðlimir sveitarinnar víða við, þeir starfræktu tvær aðrar sveitir, Gíslana annars vegar og hins vegar hljómsveitina Sixties en síðarnefnda sveitin spilaði í Hollywood fyrir „týndu kynslóðina“. Sveitirnar þrjár innihéldu líklega allar sömu meðlimina en rykið var síðan dustað af Sixties-nafninu nokkrum árum síðar þegar sveitin (með nokkuð breytta mannaskipan) hóf að syngja íslensk bítlalög. Einnig voru sveitarmenn í öðrum verkefnum, Gíslarnir spilaði t.d. undir á plötu Gaua (Guðjóns S. Guðmundssonar) sem út kom 1987, og á tónleikum í framhaldinu. Fyrir jólin 1988 kom út lag með sveitinni á safnplötunni Frostlög.

Sigurður söngvari hafði þarna fyrir löngu getið sér gott orð fyrir munnhörpuleik og 1989 fékk hljómsveitin Sálin hans Jóns míns hann til að spila munnhörpusóló í laginu Salt í sárin, sem kom út á plötu sveitarinnar, Hvar er draumurinn?

Það ár, 1989, varð síðasta starfsár Centaur í bili. Sveitarmenn fóru að snúa sér meira að frumsömdu rokki í anda þess sem sveitin ætlaði sér upphaflega og svo fór að Sigurður söngvari hætti í sveitinni um sumarið og tók Jóhannes Eiðsson við söngnum en hann átti eftir að gera það gott í Landslagskeppnunum og með hinum ýmsustu hljómsveitum. Sveitin varð þó ekki langlíf eftir það og hún hætti að lokum í árslok 1989. Einhverjir meðlima hennar stofnuðu þó aðra sveit, Jötunuxa, í kjölfarið.

Centaur hefur þó aldrei gefið formlega út dánarvottorð og hún hefur komið saman öðru hverju síðan 2002, þó með mannabreytingum. Einar gítarleikari hefur t.d. ekki spilað með þeim síðan 1989 en þeir Matthías Stefánsson og Tómas Tómasson gítarleikarar hafa spilað með sveitinni. Tónleikaplatan Blús á Grandrokk kom út 2003 en fór ekki hátt þótt hún fengi ágæta dóma í Morgunblaðinu. Blús á Grandrokk var tekin upp á tveimum kvöldum á Grandrokk af Jón „Skugga“

Efni á plötum