Siggi Björns (1955-)

Siggi Björns

Trúbadorinn Siggi Björns (Siggi Bjørns) hefur haft tónlist að lifibrauði síðan á níunda áratug síðustu aldar og hefur gefið út fjölda platna á ferli sínum, hann er líkast til einn víðförlasti tónlistarmaður Íslendinga en hann hefur heimsótt fjölda landa í flestum heimsálfum.

Sigurður Björnsson eða Siggi Björns er fæddur (1955) og uppalinn á Flateyri, hann mun hafa komist í tæri við gítar á unglingsárunum og var hann í fyrstu hljómsveitinni sinni á Núpi í Dýrafirði þar sem hann var í námi, sú sveit hét Trénuðu kartöflurnar. Um svipað leyti spilaði hann með hljómsveitinni Æfingu í fyrsta skipti en sú sveit hafði verið stofnuð á Flateyri árið 1969, Siggi átti eftir að starfa með þeirri sveit með hléum allan áttunda áratuginn og svo aftur þegar sveitin kom saman á nýrri öld og sendi þá frá sér plötu. Hann lék með nokkrum öðrum hljómsveitum á þessum árum og framundir þrítugt, bjó m.a. um tíma í Stykkishólmi og starfaði þar með hljómsveitinni Álos og svo með ýmsum skammlífum sveitum á þeim stöðum sem hann bjó og starfaði s.s. RÁS-tríóinu, en hann var um tíma farandverkamaður og fór víðar við beitningar og sjómennnsku.

Siggi var í nokkurri óreglu á þessum tíma lífs síns en árið 1983 sagði hann skilið við áfengið og tveimur árum síðar má segja að nýr kafli hafi tekið við í lífi hans þegar hann ákvað að hætta togarasjómennsku og gerast trúbador að atvinnu. Tildrög þess má rekja til þess að þegar Bubbi Morthens kom vestur og hélt þar tónleika gisti hann hjá Sigga og hvatti hann til þess að gerast trúbador en hann hafði þá um árabil verið partíspilari og nokkuð liðtækur sem slíkur. Trúbadoraferill hans hófst svo líklega formlega á Vagninum á Flateyri á Þorláksmessu 1987 en sagan segir að staðnum hafi verið breytt í pöbb til þess að Siggi gæti startað trúbadoraferlinum þar. Boltinn fór fljótlega að rúlla og fyrstu tvö til þrjú árin spilaði hann nokkuð með Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni en Siggi hafði farið suður 1988 og leikið þá á stöðum eins og Fógetanum og Bíókjallaranum í Reykjavík en einnig á A. Hansen í Hafnarfirði og öðlaðist þá heilmikla reynslu, einkum var mikið að gera hjá honum frá og með bjórdeginum 1. mars 1989 þegar sala á áfengum bjór var leyfð eftir um 75 ára bjórbann.

Sigurður Björnsson við upphaf trúbadoraferilsins

Siggi gerði líka sitt til að kynna sig og árið 1988 sendi hann frá sér kassettuna ÍS.261 en hann hafði einmitt verið á togaranum Gylli ÍS.261 áður en hann söðlaði um og gerðist trúbador, á kassettunni sem Siggi gaf út undir eigin útgáfumerki, Tófutaki, var að finna tólf lög úr ýmsum áttum, bæði frumsamin og sígilda slagara, íslenska og erlenda. Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem hann kom við sögu á plötu því hann hafði nokkrum árum áður leikið á bassa á plötu Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar. Ári síðar gaf hann úr aðra svipaða kassettu, að þessu sinni eingöngu með ábreiðutónlist en sú kassetta hafði að mestu verið hljóðrituð á A. Hansen í Hafnarfirði. Sú kassetta bar titilinn Party songs. Um það leyti átti Siggi lag á safnplötunni Vestan vindar, sem gefin var út með vestfirsku tónlistarfólki.

Siggi hleypti fljótlega heimdraganum og yfirgaf landið, hann spilaði í Danmörku og Noregi sumarið 1989 og þegar hann kom heim að þeirri ferð lokinni hafði hann sett stefnuna á Singapore, Ástralíu og Nýja Sjáland og var reyndar með mörg plön í gangi og þó nokkuð fram í tímann, var þá kominn á skrá hjá danskri umboðsskrifstofu og var mikið bókaður næsta árið um Evrópu. Á þessum tíma hafði hann komið sér upp um þrjú hundruð laga prógrammi og laumaði inn á milli frumsömdu efni. Þegar hann var hér heima spilaði hann töluvert mikið, og á þessum árum kom hann m.a. fram bæði með Bubba Morthens á Hótel Borg og Sykurmolunum á Tunglinu en með þeirri sveit tók hann lagið Þórður sjóari sem mun vera eftirminnilegt þeim sem á hlýddu.

Á ferðum sínum um Eyja-álfu spilaði Siggi töluvert mikið, lék um tíma m.a. ásamt tveimur böndum (Gorilla Biscuits og Hard to handle) og eitthvað af því efni var hljóðritað „live“ og gefið út ásamt fleiri lögum á næstu kassettu hans, Blúsý báðum megin / Bluesey on both sides árið 1991 – sú plata kom svo út á geislaplötu 1994. Á henni var þó uppistaðan tónlist með hljómsveitinni Kexunum sem Siggi starfrækti um skamman tíma ásamt KK, Þorleifi Guðjónssyni og Sigtryggi Baldurssyni, sem strangt til tekið var einhvers konar frumútgáfa af KK-bandi.

Siggi hafði komið sér upp heilmiklu tengslaneti og kunni orðið vel að koma sér á framfæri á ferðum sínum, stundum var hann bókaður fyrirfram hjá umboðsskrifstofunni en einnig gekk þessi vinna út á að birtast á pöbbunum, gefa sig til kynna, spila jafnvel frítt eitt eða tvö kvöld og vera svo ráðinn eftir stemmingunni sem þá náðist – þannig lék hann flest eða öll kvöld vikunnar ef hann var ekki að ferðast milli staða og það var ekki óalgengt að hann spilaði hátt í þrjú hundruð sinnum á ári.

Á Nýja Sjálandi

Siggi fór aftur utan í langan túr um Nýja Sjálands haustið 1990 en bætti einnig við sig nokkrum Asíulöndum í þeirri ferð, m.a. Japan, Hong Kong og Tælandi en eftir þá ferð hélt hann sig að mestu leyti á nálægri og norðlægari slóðum þótt hann væri sífellt á ferð og flugi, og allt til þessa dags. Þá um sumarið 1990 hafði hann komið fram í fyrsta sinn á sumardvalarstöðum Dana á Borgundarhólmi en þar hefur hann verið aufúsugestur allar götur síðan á sumrin, leikið þar tónlist sína við miklar vinsældir öll kvöld vikunnar á pöbbum eins Søren‘s, Bakkarøgeriet og Bryghuset, og gefið út plötur sem hafa að geyma upptökur frá eyjunni. Fyrsta slíka platan kom út 1993 undir heitinu „Live“ at Søren‘s, fimmtán laga plata með sígildum erlendum rokkslögurum úr ýmsum áttum að hætti trúbadora, á henni naut hann aðstoðar Englendingsins Keith Hopcroft sem lék þar á bassa en þeir hafa síðan þá verið nánir samstarfsmenn í gegnum tíðina.

Á næstu árum hélt Siggi Björns sig mestmegnis í norðanverðri Evrópu, var mikið á Norðurlöndunum og þá aðallega í Danmörku og Noregi (og fór m.a.s. til Grænlands og lék þar í nokkrar vikur), hann bjó eitt ár í Kaupmannahöfn en settist svo að í Árósum og bjó þar um árabil. Hann hafði um það leyti spilað í um tuttugu löndum, átt lög á safnplötuútgáfum víða um heim og skapað sér þannig nafn en hann hafði þá heldur bætt við það lagaúrvarl sem hann gat boðið upp á en í blaðaviðtali sagðist hann hafa um sjö hundruð lög á prógrammi. Siggi kom líka reglulega heim til Íslands, oft tvisvar á ári og staldraði þá hér við í nokkrar vikur og lék þá ýmis á pöbbum höfuðborgarsvæðisins eða fór í ferðir um landsbyggðina, Flateyri var þá aldrei skilin útundan og þar endurnýjaði hann m.a. kynni sín við hljómsveitina Æfingu sem aldrei hefur hætt störfum þótt hún starfi með hléum.

Árið 1994 sendi Siggi frá sér tvær plötur, önnur þeirra var „Borgundarhólms-plata“ með pöbbaupptökum og bar titilinn Smoke ´n´ parfumes, átján lög úr ýmsum áttum en hin hét Bísinn á Trinidad og hafði mestmegnis að geyma frumsamin lög eftir hann við texta úr ýmsum áttum, m.a. eftir hann sjálfan. Platan hafði verið hljóðrituð hér heima og var fyrsta eiginlega sólóplata Sigga Björns en á henni naut hann aðstoðar meðal annarra Þorleifs Guðjónssonar og Kristjáns Kristjánssonar úr KK-bandinu. Þá má geta að Bubbi Morthens söng sem gestasöngvari í laginu Bubbinn, sem fjallar á gamansaman hátt um það hlutskipti trúbadorsins að þurfa alltaf að leika lög eftir Bubba. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta einnig í Helgarpóstinum og DV.

Siggi Björns

Siggi hélt sínu striki og lék sem fyrr mest í Danmörku enda átti svo að heita að hann byggi þar, hann lék líka nokkuð í Þýskalandi en kom áfram reglulega hingað til Íslands. Hann starfrækti um tíma hljómsveit í Árósum þar sem hann bjó og sú sveit lék með honum á næstu plötu sem var hljóðrituð þar undir nafninu Roads, hún kom út 1998. Þar kom áðurnefndur Keith Hopcroft við sögu sem og Espen „Langkniv“ Laursen sem Siggi átti eftir að starfa nokkuð með en annars voru í sveit hans sérkennileg blanda manna af fjölþjóðlegu þjóðerni. Flest laganna voru eftir Sigga sjálfan við enska texta Espen Bøgh en þar var einnig að finna lagið Eat a rotten dog, woman eða Éttu úldinn hund eftir Pálma Sigurhjartarson sem hljómsveitin Chaplin frá Borganresi hafði upphaflega flutt á dansleikjum en hafði notið töluverðra vinsælda síðar með Sniglabandinu. Platan sem var tíu laga (ellefu ef aukalag er talið með) hlaut fremur jákvæða dóma í Morgunblaðinu og DV og hafði einnig fengið ágæta gagnrýni í Danmörku. Siggi mætti til Íslands með bandið árið 1999 til að kynna plötuna, og fór þá hringferð um landið.

Aldamótaárið 2000 kom út Borgundarhólms-platan Live and brewing, fimmtán laga plata með lögum úr ýmsum áttum, á henni naut Siggi aðstoðar Keiths sem fyrr en einnig kom Jack Lauwrenson við sögu á henni. Það sama ár kom út plata hér heima sem bar heitið Íslensku Disneylögin en á henni söng Siggi lagið Ég er vinur þinn, ásamt Kristjáni Kristjánssyni (KK) en lagið hefur komið út í nokkrum útgáfum með hinum ýmsu söngvurum. Tveimur árum síðar söng hann einnig lag á plötunni Í faðmi hafsins en sú plata hafði að geyma tónlist úr samnefndri kvikmynd, og árið 2003 átti hann tvö lög á safnplötunni Rokk og reykur sem gefin var út í tilefni af samnefndri menningarhátíð sem haldin var á Flateyri þá um sumarið en þangað mætti Siggi með hljómsveit meðferðis.

Siggi Björns 1993

Um þetta leyti var hann ásamt Keith Hopcroft og fleirum að vinna að næstu plötu í hljóðveri í Kaupmannahöfn, sem var eins konar dúettaplata þeirra en ráðgert var að sú plata kæmi m.a. út í Þýskalandi þar sem Siggi hugði á landvinninga á þeim árum en hann var þá fluttur frá Danmörku til Berlínar. Platan, Patches kom út árið 2004 – ellefu laga plata en efni hennar var allt samið af þeim félögum sem nutu aðstoðar danskra og enskra tónlistarmanna, hún hlaut ágæta dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Einnig kom út tveggja laga smáskífa af laginu Wild rovers, tengt þessari útgáfu en það lag var í tveimur útgáfum á skífunni. Um páskana þetta ár, 2004 var rokkhátíð alþýðunnar – Aldrei fór ég suður haldin á Ísafirði í fyrsta sinn, Siggi var þar á ferð með hljómsveit sem kölluð var Siggi Björns big band og síðan þá hefur hann verið velkominn á þessa vinsælu tónlistarhátíð og haft þar fast sæti.

Siggi flutti til Dresden frá Berlín árið 2005 en hann var þó töluvert á Íslandi einnig, ástæðan fyrir verunni hér var að hann var þá að vinna að næstu plötu sinni í hljóðverinu Tankinum á Flateyri sem þá var tekið til starfa og naut töluverðra vinsælda. Það var því aðallega íslenskt tónlistarfólk sem kom að gerð þeirrar plötu en hún hlaut titilinn Stories þegar hún kom út haustið 2005. Stories hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Lífið var í föstum skorðum hvað tónlistina varðar á þessum árum sem fyrr, hann kom reglulega heim til Íslands, spilaði á sumrin á Borgundarhólmi en var eðlilega meira orðið í Þýskalandi heldur en Danmörku, hann var aftur farinn að koma meira fram einn með gítarinn eftir að hafa verið með band með sér um tíma. Þá hafði ferðamáti Sigga breyst því hann notaði nú húsbíl til að komast á milli staða og sem svefnstað.

Árið 2009 var komið að veglegri Borgunarhólmsútgáfu Sigga en það ár voru komin tuttugu ár síðan hann sté fyrst á svið á eyjunni dönsku og af því tilefni kom út tvöföld geisla- og dvd-plata undir titlinum Live at Bakkarøgeriet: Twenty summers on Bornholm, útgáfunni fylgdi veglegur sextán síðna bæklingur.

Siggi með gítarinn á lofti

Næsta plata Sigga kom út árið 2011, sem hann vann með Keith Hopcroft en hún bar heitið Baltic blue og var hljóðrituð í Kaupmannahöfn á einni kvöldstundu. Á þeirri plötu er titillagið eftir Sigga en önnur lög plötunnar koma út ýmsum áttum, upplýsingar eru afar takmarkaðar um þessa plötu en á þeirri næstu sem hann vann einnig með Keith er einnig að finna lög úr ýmsum áttum – alls tólf lög en hún hét einfaldlega Siggi & Keith og var líklega einvörðungu gefin út í Þýskalandi.

Eins konar hliðarverkefni Sigga á þessum árum sneri að útgáfu plötu með hljómsveitinni Æfingu á Flateyri sem fyrr hefur verið hér nefnd, en platan – Fyrstu 45 árin var gefin út í minningu Kristjáns Jóhannessonar, eins meðlima hennar en sveitin hafði komið saman árið 2009 eftir nokkurt hlé. Siggi samdi megnið af efninu á þeirri plötu sem síðan kom út árið 2013. Um vorið 2014 sendi hann frá sér lagið Tveir vinir ásamt náfrænda sínum Skapta Ólafssyni söngvara sem þá var orðinn 87 ára gamall, en það verkefni var fyrir tilstilli Pálma Sigurhjartarsonar sem þá hafði verið búsettur í Þýskalandi og starfað lítillega með Sigga þar. Þeir Siggi og Pálmi fóru svo í stutta tónleikaferð saman um Ísland um svipað leyti – einmitt undir yfirskriftinni Tveir vinir.

Árið 2017 kom út enn ein plata með Sigga en að þessu leyti undir merkjum Sigga Björns & The Acoustics en hún fékk titilinn Jamsession at Rickenbacher‘s Berlin: Special guest Fru Hansen, og er eins og nafnið gefur til kynna live-plata frá Berlín, hljóðrituð á St. Patrik‘s deginum 2017 en einnig voru þessir tónleikar kvikmyndaðir. The Acoustics hefur að geyma vinahóp Sigga frá Berlín og á plötunni leikur Magnús sonur Sigga á djembe en hann var þá á unglingsaldri.

Ári síðar, 2018 kom svo út plata með hljómsveitinni KAOS en það er tríó sem Siggi starfrækti ásamt Esben Laursen og Franzizku Günther og fór t.a.m. um Þýskaland, Danmörku og Holland til tónleikahalds árið á undan. Þessi plata ber heitið Live at Kastens og hefur að geyma tónleikaupptökur eins og titilinn gefur til kynna.

Sigurður Björnsson

Á síðustu árum hefur Siggi Björns því síður en svo sest í helgan stein þó svo að hann sé kominn fram yfir miðjan aldur, og á öðrum áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar hafa fjölmargar plötur komið út með honum og enn spilar hann mikið opinberlega hér á landi sem utan. Í dag býr hann í Berlín í Þýskalandi með sambýliskonu sinni og samstarfskonu, Franzizku Günther söngkonu og gítarleikara en þau hafa spilað mikið saman á tónleikum en einnig á plötum. Árið 2019 kom út plata með þeim saman undir heitinu Songs we didn‘t write, fjórtán lög úr ýmsum áttum tekin upp í Þýskalandi og á vormánuðum 2021 kom út enn ein platan með Sigga – Roll on, á þeirri plötu nýtur hann aðstoðar Franzizku en einnig Halldórs Gunnars Pálssonar (Fjallabróður frá Flateyri), Óskars Þormarssonar trommuleikara og Magnúsar sonar síns sem leikur á slagverk. Þegar þetta er ritað er tónleikaferð hafin til kynningar á plötunni en tónleikahald hefur mikið til legið niðri í heilt ár sökum Covid-heimsfaraldurs.

Efni á plötum