
Svavar Benediktsson
Svavar Benediktsson var sannkallað alþýðutónskáld sem samdi nokkrar af þeim sígildu dægurlagaperlum sem komu út um miðja síðustu öld, margar þeirra hafa lifað góðu lífi til dagsins í dag og fremst þeirra hlýtur að teljast Sjómannavalsinn (Það gefur á bátinn við Grænland).
Svavar hét réttu og fullu nafni Karl Svafar Liljendal Benediktsson og var hann fæddur vorið 1913 austur á Norðfirði, nafn hans var þó iðulega ritað með v-i. Hann missti móður sína áður en hann náði eins árs aldri og var alinn upp af fósturforeldrum. Svo virðist sem hann hafi komist í kynni við tónlist á æskuheimilinu því hann var snemma farinn að leika á hljóðfæri s.s. píanó, harmonikku og sítar sem er og var fremur sjaldgæft hljóðfæri á austfirskum heimilum en það mun hafa verið tónskáldið Ingi T. Lárusson sem gaf honum sítarinn þegar Svavar var um tíu ára gamall. Svavar eignaðist sína fyrstu nikku 19 ára gamall og lék reyndar stundum á hana á dansleikjum eystra ásamt fyrrnefndum Inga T. en tónskáldið lék þá iðulega á píanó. Einnig lék Svavar stundum á böllum með sveitunga sínum Róberti Arnfinnssyni (síðar leikara) sem einnig var viðloðandi tónlist á sínum yngri árum. Þá var einnig lengi vel fastur liður hjá Svavari að leika á nýárskvöldsdansleikjum á Eskifirði á þessum árum en hann starfaði annars við sjómennsku.
Þegar fósturforeldrar Svavars létust fluttist hann suður til Reykjavíkur, reyndar var hann um tíma í Stykkishólmi fyrst þar sem hann lék áfram á harmonikku á dansleikjum og starfaði með leikfélaginu á staðnum svo dæmi séu nefnd en þegar á höfuðborgarsvæðið var komið á stríðsárunum hafði hann lært klæðskeraiðn og starfaði eftir það sem klæðskeri. Samhliða þeim störfum spilaði hann eitthvað áfram á dansleikjum og reyndar einnig í útvarpi, og leiklistaráhugi hans varð einnig til þess að hann tók þátt í revíusýningum á höfuðborgarsvæðinu, það var svo árið 1952 að Svavar tók fyrst þátt í dægurlagakeppni SKT sem haldin hafði verið fyrst árið 1950 en hann hafði þá samið lög frá unga aldri án þess að hann væri eitthvað sérstaklega að flíka því.

Svavar Benediktsson
Svavar var því orðinn tæplega fertugur þegar hann fyrst vakti athygli sem lagahöfundur og í kjölfarið tók við skeið þar sem hvert lagið á fætur öðru spratt úr ranni hans og hann varð á fáeinum árum einn af vinsælustu dægurlagahöfundum landsins en lög hans voru gjarnan unnin í samstarfi við Kristján frá Djúpalæk sem samdi marga texta við lögin – þeir Svavar og Kristján voru mágar, eiginkona Svavars var systir Kristjáns. Þetta samstarf leiddi af sér lög eins og Nótt í Atlavík og Lífsgleði njóttu sem hann sendi í keppnina árið 1952 og svo kom stórsmellurinn Sjómannavals (Það gefur á bátinn við Grænland) sem sigraði flokk gömlu dansanna í SKT-keppninni ári síðar en það varð fljótlega sígilt og hefur síðan verið gefið út í ótal útgáfum og á enn fleiri plötum. Meðal annarra laga hans má nefna Togararnir talast við, Baujuvaktin, Eyjan hvíta, Gamla kvíabryggjan, Loftleiðavalsinn, Einu sinni var, Hafið bláa og Fossarnir sem komu út á næstu árum, flest við texta Kristjáns en fleiri textahöfundar komu vissulega einnig við sögu. Mörg þessara laga unnu til verðlauna í keppnunum.
Á þessum tíma var gjarnan sá háttur hafður á að ný lög voru kynnt á skemmtunum og dansleikjum í Góðtemplarahúsinu (Gúttó) og þannig breiddust lögin út meðal almennings, lögin voru einnig gjarnan gefin út á nótum og hljómsveitir tóku þau upp á sína arma, sjálfur flutti hann einnig stundum lög sín opinberlega. Þarna hafði Ríkisútvarpið ekki enn hlotið það hlutverk að miðla dægurlögum til hlustenda sinna en óskalagaþáttur sjómanna var þó kominn í loftið og þar naut m.a. Sjómannavalsinn mikilla vinsælda og Svavar hlaut fjölda kveðja þar og persónulega fyrir lagið, og fyrir kom að stúlkur sendu honum blóm.
Þá kom einnig að því að lög Svavars kæmu út á plötum, Sjómannavalsinn kom fyrst út með Sigurði Ólafssyni en söngvarar eins og Alfreð Clausen, Adda Örnólfs, Smárakvartettinn, Haukur Morthens, Guðbergur Auðunsson og fleiri vinsælir flytjendur áttu eftir að syngja lög hans inn á plötur við miklar vinsældir. Mörg þessara laga hafa svo jafnframt gengið ýmist í endurnýjun lífdaga með öðrum flytjendum eða verið gefin út margsinnis á safnplötum.
Svavar var sjálfur að koma fram með harmonikkuna að vopni á dansleikjum eitthvað fram eftir sjöunda áratugnum en eftir að bítlar og blómabörn tóku yfir þann markað minnkaði eftirspurnin eftir harmonikkuleikurum eins og búast mátti við, hann var þó eitthvað að koma fram á gömludansa-böllum og öðrum skemmtunum fram undir andlátið en hann lést sumarið 1977, sextíu og fjögurra ára gamall.

Svavar Benediktsson 1973
Þegar Svavar lést var ekki langt síðan að tvö eftir hann höfðu komið út á plötu Vilhjálms Vilhjálmssonar – Með sínu nefi, lögin Einu sinni var og Við sundin (bæði við texta Kristjáns frá Djúpalæk) eru bæði vel þekkt lög. Árið 1978 var svo sett á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur leikritið Valmúinn springur út á nóttunni eftir Jónas Árnason en tónlistin í leikritinu var eftir Svavar, þá hafa margsinnis verið settar á svið tónlistardagskrár í tengslum við minningu hans bæði á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan sem sýnir orðspor hans sem lagahöfundur.
Til viðbótar við þá flytjendur sem að framan eru nefndir og hafa flutt lög Svavars á plötum í seinni tíð má nefna Álftagerðisbræður, Egil Ólafsson, Strákabandið, Hjaltalín, Ara Jónsson, Örn Árnason, Vindbelgina og Lillukórinn svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd. Aldrei hefur þó komið út safnplata með lögum hans.