
Sveiflusextettinn
Sveiflusextettinn svokallaði mun hafa verið settur á laggirnar til að leika á norrænni djasshátíð Ríkisútvarpsins, RÚREK vorið 1990 en sveitin kom þar fram í fyrsta sinn.
Meðlimir Sveiflukvartettsins voru þeir Hrafn Pálsson píanóleikari, Friðrik Theódórsson bassaleikari, Guðmundur Steinsson trommuleikari, Bragi Einarsson klarinettu- og saxófónleikari, Guðjón Einarsson básúnuleikari og Kristján Kjartansson trompetleikari. Sveitinni þótti takast það vel upp á djasshátíðinni að þeir félagar ákváðu að starfa áfram og um sumarið kom sveitin fram í nokkur skipti sem og um haustið þegar við tók spilamennska fyrir erlenda ferðamannahópa, m.a. uppi á Langjökli en það uppátæki vakti mikla athygli og fór sú saga á flakk að sveitin hefði komist í Heimsmetabók Guinness fyrir vikið – ekki liggur fyrir hvort það var þó raunin.
Sveiflusextettinn hélt áfram störfum um veturinn og vorið eftir (1991) kom hann aftur fram á Rúrek-hátíðinni en lagðist að henni lokinni í dvala um tíma. Sveitin birtist svo aftur snemma um vorið 1992 þegar hún lék á styrktartónleikum fyrir Finn Eydal sem þá glímdi við veikindi og í kjölfarið lék sveitin einnig á Jazzhátíð Egilsstaða um sumarið. Skipan sveitarinnar var þá hin sama fyrir utan að Árni Elfar lék á píanó í stað Hrafns Pálssonar.
Sveiflukvartettinn virðist ekki hafa starfað eftir djasshátíðina á Egilsstöðum.