Sveiflukvartettinn [1] (1998-2003)

Sveiflukvartettinn

Sveiflukvartettinn var skipaður mönnum sem flestir voru komnir á efri ár en sveitin lék töluvert opinberlega í kringum síðustu aldamót.

Kvartettinn var settur saman árið 1998 og það var svo árið 2000 sem hann kom fyrst fram opinberlega og í kjölfarið lék hann reglulega til ársins 2003, eða um þrjátíu sinnum bæði á tónleikum og dansleikjum – sveitin lék víða um land en aðallega þó á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og nafnið gefur til kynna var djasssveifla áberandi í spilamennsku kvartettsins en meðal meðlima hans voru tveir gamalreyndir djasstónlistarmenn sem höfðu spilað með ótal hljómsveitum allt frá því á sjötta áratug síðustu aldar, það voru þeir Þorsteinn Eiríksson (oft nefndur Steini Krúpa) trommuleikari og Gunnar H. Pálsson bassaleikari en einnig voru í sveitinni þeir Baldur Geirsson saxófónleikari og Svavar Sölvason píanóleikari. Leifur Benediktsson bassaleikari lék einnig stöku sinnum með sveitinni og fleiri gætu jafnvel hafa komið við sögu hennar.