Geirfuglarnir (1991-)

Geirfuglarnir

Hljómsveitin Geirfuglarnir hefur starfað frá því snemma tíunda áratugarins með hléum og er af því er best er vitað enn starfandi. Sveitin hefur sent frá sér nokkrar plötur og hefur starfað nokkuð í leikhúsi.

Upphaf Geirfuglanna má rekja til Menntaskólans við Sund þar sem Halldór Gylfason (leikari), Freyr Eyjólfsson (útvarpsmaður) og Þorkell Heiðarsson voru við nám árið 1991, þremenningarnir spiluðu þá eitthvað saman og sömdu þá fjölda laga og meðal þeirra voru sjómannalög en enginn þeirra félaga hafði nokkru sinni verið til sjós og vissu því hvorki haus né sporð um neitt sem sneri að því starfi, þeir sögðu síðar frá því í viðtali að sjómenn hefðu skellihlegið að textunum sem þóttu æði landkrabbalegir. Þeir sömdu einnig fjölda annarra laga og mörg þeirra rötuðu á fyrstu plötu sveitarinnar árið 1998.

Þeir Halldór, Freyr og Þorkell voru einnig saman í hljómsveitinni Sirkus Babalú og þegar um hægðist hjá þeirri sveit um miðjan áratuginn fóru þeir af stað með Geirfuglana og hófu að spila opinberlega. Stefán Már Magnússon kom þá inn í sveitina og lék þá mest á trommur en annars komu fjölmargir við sögu hennar án þess að vera eiginlegir meðlimir hennar, bassaleikararnir Ottó Tynes og Guðmundur Ingólfsson léku til að mynda með Geirfuglunum. Sá fyrrnefndi lék t.d. með sveitinni sumarið 1997 þegar hún spilaði á útihátíðinni Halló Klapparstígur en þá voru aðrir meðlimir sveitarinnar Halldór, Freyr, Þorkell og Stefán Már.

Það var svo árið 1998 sem Geirfuglarnir gáfu út sína fyrstu plötu, Drit en það var fimmtán laga plata gefin út af útgáfufyrirtækinu Spaða. Um það leyti hafði Streingrímur Óli Sigurðsson tekið við trommuleiknum og Stefán fært sig yfir á gítar en hann hafði þó leikið á trommurnar á plötunni, Guðmundur Ingólfsson lék þá á bassa og Ottó Tynes á gítar og sitthvað fleira þegar sveitin lék opinberlega. Drit fékk ágæta dóma í DV og þokkalega í Morgunblaðinu en platan seldist þó dræmt. Sveitin fór mjög víða í tónlistarsköpun sinni á plötunni eins og reyndar alltaf en mest fór fyrir austur-evrópskri balkantónlist í anda Emir Kusturica & the No smoking orchestra í bland við popp, rokk, tangó og suður-ameríska tónlist sem að mestu hafði verið samin á frumárum sveitarinnar eins og fyrr er nefnt.

Haustið 1999 kom síðan út næsta plata og líklega þeirra þekktasta, hún bar titilinn …byrjaðu í dag að elska og var tólf laga. Á þessari plötu var komin nokkuð föst skipan á sveitina, Halldór, Freyr, Þorkell og Stefán Már skipuðu sveitina sem fyrr en einnig voru þeir Kristján Freyr Halldórsson trommuleikari og Vernharður Jósefsson bassaleikari komnir inn sem fastir meðlimir. Platan fékk mjög góða dóma í Fókusi og Morgunblaðinu og ágæta í Degi en vinsælasta lag plötunnar var titillagið sem naut töluverðra vinsælda. Flest laganna voru ný af nálinni en þau höfðu sveitarliðar valið úr úrvali fimmtíu laga þannig að efniviðurinn var nægur. Platan hafði verið tekin upp í hljóðveri Jóns Ólafssonar, Eyranu en hann annaðist upptökurnar og aðstoðaði við útsetningar.

Geirfuglarnir voru töluvert áberandi í spilamennsku sinni um þetta leyti, þeir léku mest í miðborg Reykjavíkur en einnig á landsbyggðinni, sveitin lék reglulega á dansleikjum í Iðnó, t.d. á áramótaböllum en einnig á Menningarhátíð, sveitin var jafnframt tíður gestur á Grand rokk en þar lék önnur sveit oft sem var náskyld Geirfuglunum, það var hljómsveitin Miðnes sem mikið til var skipuð sömu meðlimum.

Geirfuglarnir 1998

Árið 2000 var sveitin töluvert á ferðinni, spilaði mikið og kom þá einnig fram í leikritinu Trúðleikur eftir Hallgrím H. Helgason sem sýnt var í Iðnó, Halldór lék einmitt annað hlutverkið í leikritinu. Plata kom þá einnig út og hafði að geyma átta lög úr leikritinu og að auki tvö lög úr Sjeikspír eins og hann leggur sig sem var sett á svið í sama leikhúsi um svipað leyti. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu en varla nema þokkalega í DV. Þetta sama ár kom sveitin lítillega við sögu á sólóplötu Heiðu (oft kennda við Unun) Svarið en Heiða hafði einmitt lagt Geirfuglunum lið á plötunni …byrjaðu í dag að elska.

Næsta ár, 2001 var sveitin ekki alveg eins áberandi í fjölmiðlaumfjölluninni og áður og kann skýringin vera sú að hún lék þarna orðið nokkuð á árshátíðum, afmælum og þess konar dansleikjum sem ekki fengu umfjöllun eða auglýsingu í almennum fjölmiðlum. Geirfuglarnir höfðu á þessum tíma verið skipaðir sömu meðlimum um tveggja ára skeið en þarna urðu breytingar á sveitinni þegar trommuleikarinn Andri Geir Árnason tók við af Kristjáni en Vernharður bassaleikari var hins vegar hættur og því fækkaði einnig í hópnum, við síðarnefndu breytinguna mun Stefán Már hafa tekið við bassanum. Sveitin sendi um haustið frá sér plötuna Tímafiskurinn, tónlistin á henni var nokkuð rólegri en á fyrri plötum sveitarinnar og vakti hún ekki mikla athygli en hlaut þó ágæta dóma í Morgunblaðinu og tímaritinu Sándi.

Geirfuglarnir voru nokkuð virkir í kjölfarið og þótt sveitin gæfi ekki út plötu árið 2002 spilaði hún nokkuð jafnt og þétt það árið, auk almenns dansleikjahalds hituðu þeir félagar upp fyrir söngkonuna Cesariu Evoru (frá Grænhöfðaeyjum) en hún hélt tónleika í Laugardalshöll þá um vorið, þá má geta þess að Geirfuglarnir voru meðal sveita sem léku á útgáfutónleikum hljómsveitarinnar Buff en sú leið hafði verið farin að láta aðrar hljómsveitir spila lög sveitarinnar á þeim tónleikum.

Næsta ár, 2003 færði sveitin sig aftur í leikhúsið en hún var þá áberandi í sýningum á leikritinu um Línu Langsokk sem sýnt var við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu, Geirfuglarnir spiluðu sjálfir í sýningunni og Halldór var meðal aðalleikara í henni. Plata kom út með tónlistinni og fékk ágætis dóma í Morgunblaðinu.

Geirfuglarnir

Um veturinn 2003-04 voru Geirfuglarnir meðal fjölmargra hljómsveita sem tóku þátt í hinum vinsælu Popppunkts-þáttum Dr. Gunna og Felix Bergssonar á sjónvarpsstöðinni Skjá einum, sveitin gerði sér lítið fyrir og sigraði þá keppni eftir úrslitaleik við SKE um vorið 2004. Næsta vor (2005) léku Geirfuglarnir aftur til úrslita í þáttunum en urðu að játa sig sigraða í það skipti fyrir Milljónamæringunum.

Um þetta leyti sögðust þeir félagar vera að vinna nýja plötu sem ætti að innihalda gamla tónlist, s.s. þjóðlög, drykkjuvísur og þess konar tónlist en ekki virðist hafa orðið úr þeim fyrirætlunum, sveitin sendi frá sér nýtt lag á safnplötunni Svona er sumarið 2004 en það vakti litla athygli og kom ekki út annars staðar. Þarna var Ragnar Helgi Ólafsson genginn til liðs við sveitina en hann lék einkum á gítar í sveitinni en greip í önnur hljóðfæri rétt eins og flestir aðrir meðlimir sveitarinnar, þar með voru Geirfuglarnir aftur orðnir sex talsins.

Næstu árin fór lítið fyrir sveitinni þótt hún væri að öllum líkindum starfandi, hún birtist með reglulegum hætti á Menningarnótt, lék t.d. á tónleikum í tilefni af sextugs afmæli Megasar en voru líklega þeim mun meira áberandi í einkasamkvæmum sem fyrr er getið.

Það var ekki fyrr en 2008 sem Geirfuglarnir birtust skyndilega og nú með nýja plötu í farteskinu sem bar þann undarlega titil Árni Bergmann. Titillinn átti sér þó skýringu en þeir sveitar-liðar vildu meina að þeir væru að heiðra rithöfundinn og blaðamanninn Árna Bergmann en 1981 hafði hann sent frá sér bókina Geirfuglarnir. Umslag plötunnar hafði sömuleiðis að geyma beina skírskotun til bókakápu Árna en það vakti mikla athygli og fékk hönnuðurinn, Ragnar Helgi gítarleikari hrós fyrir hugmyndina og úrvinnsluna. Tónlistin á þessari plötu var ekki eins blönduð og á fyrri plötum sveitarinnar en hún hafði að geyma hreint popprokk án allra strauma og stefnubreytinga til Austur-Evrópu eða annarra heimshluta. Eitt laganna náði nokkrum vinsældum, Næstsíðasti geirfuglinn en það var eftir Valgeir Guðjónsson og hefur reyndar sterk höfundareinkenni. Árni Bergmann fékk ágæta dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu og mjög góða í tímaritinu Monitor.

Geirfuglarnir

Sveitin virtist síður en svo dauð úr öllum æðum á þessu ári því þeir félagar sáu einnig um tónlistina í leikritinu um Fólkið í blokkinni (eftir Ólaf Hauk Símonarson) sem sýnt var í Borgarleikhúsinu um veturinn. Ekki mun hafa komið út plata með tónlistinni enda hafði plata verið gefin út með þessari tónlist nokkrum árum fyrr (2000) þar sem Geirfuglarnir komu hvergi nærri, nokkur lög úr sýningunni komu hins vegar út á safnplötu með lögum Ólafs Hauks sem bar heitið Fólkið í blokkinni / Allt í góðu… ásamt nýjum lögum úr blokkinni.

Þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra Geirfugla um að sveitin yrði meira áberandi næstu misserin varð lítið úr þeim fyrirætlunum, sveitin minnti á sig reglulega næstu árin en starfaði líklega fremur stopult án þess þó að hætta. Þeir félagar hafa stöku sinnum komið fram á Menningarnótt, léku á Aldrei fór ég suður (2010), á Edrúhátíð á Laugalandi um verslunarmannahelgina 2013 og víðar, og hafa því birst þegar minnst varir að öllum líkindum skipuð sama mannskap.

Geirfuglarnir eru fráleitt hættir störfum en sveitin hefur verið lítið virk allra síðustu árin þótt þeir hafi reynt að koma saman að minnsta kosti einu sinni hvert ár, sveitin sendi þó frá sér lag sumarið 2019 og kom plata út í kjölfarið í upphafi ársins 2020, undir titlinum Hótel Núll.

Lög sveitarinnar hafa komið út á nokkrum safnplötum í gegnum tíðina s.s. Með von í hjarta (2000), Brot af því besta í íslenskri tónlist (2001), Óskalögin 9 (2005), Svona er sumarið ´99 (1999), Allur skalinn (2001) og Eldborg: best í tónlist um verslunarmannahelgina (2001) en einnig má nefna plötuna Portrett Þróttur (2008) þar sem sveitin á þrjú lög.

Efni á plötum