Sirkus Babalú (1992-93)

Sirkus Babalú

Gleðisveitin Sirkus Babalú skemmti víða um borgina með tónlist sinni en sveitin var mjög fjölmenn, ellefu til tólf manna.

Hljómsveitin var stofnuð í Menntaskólanum við Sund á fyrri hluta árs 1991 og hét fyrst um sinn Babalú, hún keppti um verslunarmannahelgina það sumar í hljómsveitakeppni í Húnaveri og vorið eftir (1992) fór fyrst að kveða almennilega að henni en þá kom hún fyrir á safnplötunni Bandalög 5, og hafði þá tekið upp nafnið Sirkus Babalú. Meðlimir sveitarinnar voru þá Pétur Örn Guðmundsson söngvari og gítarleikari, Ingibjörg Stefánsdóttir söngkona, Halldór Gylfason söngvari, Þorkell Heiðarsson píanó- og orgelleikari, Grétar Ingi Grétarsson bassaleikari, Ragnar Helgi Ólafsson gítarleikari, Hjörleifur Örn Jónsson trommuleikari, Gunnar Reynir Gunnarsson slaverksleikari, Magnús Magnúson trompetleikari og Friðrik Sigurðsson trompetleikari. Margir meðlimir sveitarinnar áttu síðar eftir að láta að sér kveða á tónlistarsviðinu.

Sirkus Babalú lék víða um sumarið 1992 og veturinn á eftir, m.a. á óháðu listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð en einnig á skemmtistöðum bæjarins og víðar. Sveitin átti svo lög á safnplötunum Blávatn og Íslenskt tónlistarsumar 1993 sumarið 1993, þá höfðu einhverjar breytingar átt sér stað, Freyr Eyjólfsson gítar- og mandólínleikari var kominn inn í stað Ragnars, Gunnar R. Þorteinsson kom inn í stað nafna sína Gunnarssonar og Aðalsteinn Richter trompetleikari hafði bæst í hópinn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri mannabreytingar í sveitinni.

Sirkus Babalú hætti störfum um haustið 1993 og hélt þá kveðjutónleika.