Síva (1994-97)

Síva

Hljómsveitin Síva (Siva) var danshljómsveit starfandi á Norðfirði um miðbik tíunda áratugarins en sveitin lék einkum á heimaslóðum fyrir austan.

Síva var stofnuð árið 1994 upp úr annarri sveit sem bar nafnið Allodimmug (Allod immug) en meðlimir sveitarinnar voru þeir Hálfdan Steinþórsson söngvari, Jón Knútur Ásmundsson trommuleikari, Fjalar Jóhannsson bassaleikari, Jón Hilmar Kárason gítarleikari og Einar Solheim hljómborðsleikari.

Sveitin spilaði töluvert fyrir austan sumarið 1994, m.a. á Neistaflugi um verslunarmannahelgina  en einnig á almennum dansleikjum. Þeir félagar komu suður til Reykjavíkur 1995, léku á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins og nutu þá aðstoðar Einars Braga Bragasonar saxófónleikara og Helgu Steinsson söngkonu. Þá stefndi sveitin hátt, hafði þá m.a. hljóðritað efni ætlað til útgáfu og stóð til að það myndi koma út á austfirskri safnplötu en svo varð þó ekki af einhverjum ástæðum.

Síva starfaði til ársins 1997, í upphafi þess árs lék sveitin á þorrablóti í Þýskalandi en eftir það heyrðist ekkert til hennar fyrr en hún var endurvakin árið 2005 þar sem hún lék á Neistaflugi um verslunarmannahelgina og svo aftur á afmælishátíð Verkmenntaskóla Austurlands ári síðar.