Moonboots (1994-)

Moonboots

Hljómsveitin Moonboots (einnig The Moonboots) fór mikinn á öldurhúsum borgarinnar og víðar í kringum aldamótin síðustu en sveitin sérhæfði sig í ábreiðum frá níunda áratugnum sem féllu í góðan jarðveg hjá fólki, einkum á menntaskólaaldri.

Moonboots mun hafa verið stofnuð á fyrri hluta árs 1994 innan Menntaskólans við Hamrahlíð en sami hópur að mestu hafði nokkru áður starfað undir nafninu The Eighties undir sömu formerkjum. Það var svo árið 1997 sem sveitin lét almennilega að sér kveða þegar hún hóf að leika á stöðum eins og Gauki á Stöng og viðlíka skemmtistöðum með lifandi tónlist. Frá upphafi lék sveitin tónlist sem kennd hefur verið við eitís og var frá níunda áratugnum, og fljótlega fóru þeir að spila úti á landi og á skólaböllum hjá framhaldsskólum sem var sterkur leikur hjá þeim félögum.

Vorið 1997 voru meðlimir Moonboots þeir Svavar Knútur Kristinsson söngvari, Þráinn Árni Baldvinsson gítarleikari, Helgi Guðbjartsson trommuleikari, Ólafur Ágúst Haraldsson hljómborðsleikari og Snorri Hergill Kristjánsson bassaleikari.

Moonboots á sviði

Einhverjar mannabreytingar urðu í sveitinni á næstu árum, Þráinn gítarleikari hætti og Guðmundur Þorvaldur Stefánsson tók hans sæti en Þröstur Jóhannsson leysti Guðmund síðan af hólmi. Þá var Matthías Baldursson (Matti Sax) um tíma í Moonboots og lék þá líklega á hljómborð og var sveitin þá skipuð tveimur hljómborðsleikurum um tíma, einnig hefur Hallur Guðmundsson [bassaleikari og söngvari?] verið nefndur í þessu samhengi.

Moonboots spilaði nokkuð samfleytt til haustsins 1998  en þá voru lokatónleikar sveitarinnar auglýstir. Sveitin var þó alls ekki hætt og vorið 1999 birtist hún aftur og lék í nokkur skipti. Það var svo vorið 2001 sem Moonboots kom aftur fram á sjónarsviðið af einhverri alvöru, meðlimir hennar á því skeiði voru Svavar Knútur, Snorri Hergill, Helgi, Ólafur Ágúst og Snorri Barón Jónsson gítarleikari. Sveitin var þarna mjög öflug í spilamennsku og var sérstaklega mikið á ferðinni sumarið 2003 en síðan fór minna fyrir henni þegar önnur verkefni tóku við hjá meðlimum sveitarinnar, s.s. hljómsveitin Hraun!.

Þrátt fyrir að Moonboots hefði verið lögð niður í bili lék sveitin þó alltaf á árlegu balli tengt 80‘s viku í Menntaskólanum við Sund. Næstu árin urðu einhverjar meðlimabreytingar á sveitinni, Snorri Hergill hætti árið 2005 og tók Birgir Kárason við bassaleikarahlutverkinu, þá voru aðrir meðlimir Svavar Knútur, Snorri Barón, Ólafur Ágúst og Birgir Nielsen trommuleikari sem þá hafði tekið við því hlutverki af Helga.

Þótt sveitin hafi ekki verið mjög virk síðustu árin er varla hægt að tala um að saga hennar sé öll en síðustu heimildir um hana eru frá árinu 2009 og 10.