Afmælisbörn 11. september 2022

Ásthildur Cesil

Glatkistan hefur að geyma þrjú tónlistartengd afmælisbörn á þessum degi.

Snorri Barón Jónsson er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Snorri Barón hefur leikið á gítar í nokkrum sveitum og má til dæmis nefna Moonboots, Hetjur og Trúboðana en hann var jafnframt einn þeirra sem kom að útgáfu tímaritsins Undirtóna á sínum tím.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir tónlistarkona og garðyrkjufræðingur hefði einnig átt afmæli í dag en hún lést árið 2018. Ásthildur (f. 1944) starfaði með fjölmörgum hljómsveitum á Ísafirði á árum áður, þeirra á meðal má nefna Aðild, Gancia og Sokkabandið en einnig söng hún og lék um tíma með Gömlu brýnunum (GB-tríóinu) og hljómsveitum Baldurs Geirmundssonar (BG) og Ásgeirs Sigurðssonar. Hún gaf út sólóplötuna Sokkabandsárin árið 1985.

Þá er hér einnig nefndur bassaleikarinn Gunnar Ellertsson Knudsen en hann lék með nokkrum hljómsveitum hér fyrrum, þekktust þeirra er vafalaust hljómsveitin Vonbrigði sem fór mikinn í laginu Ó Reykjavík í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík, en hér má einnig nefna sveitir eins og Hrúgaldin, Raflost og Bleiku bastana. Gunnar er fimmtíu og sjö ára í dag.

Vissir þú að sú hljómsveit sem er aftast í stafrófinu í íslenskri tónlistarsögu er væntanlega ísfirska sveitin Öx?