Afmælisbörn 10. september 2022

Barði Jóhannson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú á þessum degi:

Gerður (Guðmundsdóttir) Bjarklind á stórafmæli en hún er áttræð í dag. Gerður kom til starfa hjá Ríkisútvarpinu haustið 1961, starfaði fyrst á auglýsingadeildinni eða til ársins 1974 en einnig sem útvarpsþulur og dagskrárgerðarkona, hún stýrði til að mynda þáttunum Lögum unga fólksins og Óskastundinni, en hún kom einnig að lagavali á safnplötuseríunni Óskastundinni. Gerður söng með söngsveitinni Fílharmóníu um tuttugu og fimm ára skeið en rödd hennar hefur einnig heyrst á nokkrum plötum.

Barði Jóhannsson á einnig afmæli en hann er fjörutíu og sjö ára gamall. Barði kom ungur við sögu á plötum, var t.d. á plötunni Ekkert mál, bæði sem söngvari og lagahöfundur aðeins fjórtán ára, hann kom einnig að nokkrum árshátíðarplötum á MR-árum sínum en um það leyti var hann einnig farinn að starfrækja hljómsveitir eins og Marsipan, Öpp jors og Amin og síðar Mínusbarði, Starwalker, Lady & bird og Bang Gang sem er hans þekktasta vörumerki. Barði hefur einnig unnið heilmikið við kvikmynda- og auglýsingatónlist.

Þá á Lay Low (Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir) tónlistarkona stórafmæli rétt eins og Gerður en hún er fertug í dag. Lay Low er kunnust fyrir sólóferil sinn en hún hefur sent frá sér hátt í tíu plötur, hún hefur starfað með hljómsveitum eins og Benny Crespo‘s gang, Minx, Blússveit Þollýjar, Kefas band og Stratus, og ennfremur komið að kvikmynda- og leikhússtónlist og verið í samstarfi við fjöldann allan af þekktu og óþekktu tónlistarfólki. Þá má ekki gleyma framlagi hennar til Eurovision keppninnar vorið 2022.

Vissir þú að hljómsveitin Glitbrá lék á þrettán réttardansleikjum eitt haustið?