Gerður G. Bjarklind (1942-)

Gerður G. Bjarklind

Gerður G. Bjarklind er ein þeirra sem með réttu mætti kalla rödd þjóðarinnar en hún gegndi stöðu þular og dagskrárgerðarmanns í Ríkisútvarpinu í hálfa öld. Hennar hlutverk var m.a. að breiða út og kynna landsmönnum íslenska tónlist.

Gerður Guðmundsdóttir Bjarklind fæddist í Reykjavík haustið 1942 og hefur búið þar mest alla sína tíð. Hún lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og fór síðan í nám við leiklistarskóla á vegum Leikfélags Reykjavíkur en lauk þar ekki prófi heldur fór til Bretlands þar sem hún dvaldi um tveggja ára skeið, þar sá hún m.a. The Beatles spila og mun að öllum líkindum vera ein fárra Íslendinga sem það hafa gert.

Þegar Gerður kom aftur heim til Íslands hóf hún fljótlega störf við Ríkisútvarpið nítján ára gömul árið 1961, fyrst um sinn á auglýsingadeildinni en síðan einnig sem dagskrárgerðarmaður og þulur. Hún sá t.a.m. um óskalagaþáttinn Lög unga fólksins á árunum 1963-71 og Óskastundina á árunum 1997-12 (sem alls urðu á áttunda hundrað) en þá hafði hún starfað við útvarpið í ríflega hálfa öld, auk þess annaðist hún aðra þætti s.s. Ég man þá tíð, Morgunstund barnanna o.fl. Gerður varð fastráðin útvarpsþulur frá árinu 1975 en hafði fram að því sinnt því starfi í afleysingum, hún starfaði við þularstörf til 2004 en hefur til dagsins í dag komið til starfa við stofnunina og lesið jólakveðjur á Þorláksmessu en hún þykir ómissandi við þann aðdraganda jólahátíðarinnar. Þá hefur hún stöku sinnum í seinni tíð komið landsmönnum fyrir sjónir og heyrnir sem gestastjórnandi útvarps- og sjónvarpsþátta. Rödd Gerðar hefur jafnframt verið þjóðinni það samofin og ómissandi að hún hefur oft verið fengin til kynna við hvers kyns tónleika- og skemmtanahald, t.a.m. var hún lengi kynnir þegar kveikt var á Oslóarjólatrénu svokallaða við Austurvöll.

Gerður á forsíðu Sunnudags Moggans

Þess má geta að Gerður G. Bjarklind söng lengi í Söngsveitinni Fílharmóníu og er því ekki ólíklegt að söngrödd hennar megi heyra á plötum, þularrödd hennar hefur hins vegar heyrst víðar en í útvarpinu því hún hefur stundum verið fengin „að láni“ við gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta, einnig hefur rödd hennar heyrst á plötum þar sem ljóðalestur kemur við sögu, s.s. á plötu Ingva Þórs Kormákssonar Kvöld í borginni (2004) og á plötu rokksveitarinnar Sólstafa, Svartir sandar (2011) þar sem hún fer með nokkur veðurfræðileg hugtök í veðurlýsingu.

Samhliða óskalagaþættinum Óskastundinni fékk Gerður það hlutverk að halda utan um safnplötu-seríu sem bar nafn þáttanna og valdi hún lög á fjórar plötur sem komu út í seríunni á árunum 2002-05 á vegum Íslenskra tóna en lögin voru flest frá árunum 1950 til 70. Þá kom einnig út plata á vegum 21 12 culture company árið 2005 undir nafninu Jólakveðja: Gerður G. Bjarklind og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir velja jólalögin heilögu sem hljóma milli jólakveðjanna á Þorláksmessu, og einnig valdi hún lög á safnplötuna Betri tímar sem gefin var út til styrktar Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands: frábær lög og flytjendur (2003).

Gerður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir útvarpsrödd sína og störf fyrir Ríkisútvarpið, m.a. Fálkaorðuna og Heiðursverðlaun Samtóns á Degi íslenskrar tungu, þá var hún valin með fallegustu útvarpsröddina í úttekt sem Morgunblaðið stóð fyrir.

Efni á plötum