Blúsbrot Garðars Harðarsonar (1995-)

Blúsbrot Garðars Harðar

Blúbrot Garðars Harðarsonar hefur starfað frá árinu 1995 að minnsta kosti en þá kom hún fyrst fram á Jazzhátíð Egilsstaða.

Sveitin gekk fyrstu árin undir nafninu Blúsband Garðars Harðarsonar en síðar var nafni hennar breytt í Blúsbrot Garðars Harðarsonar. Upphaflega gerði hún út frá Stöðvarfirði þaðan sem Garðar kemur en síðan má segja að sveitin sé héðan og þaðan.

Meðlimir hennar voru líklega í upphafi þeir Garðar Harðarson söngvari og gítarleikari, Jósef [Auðunn Friðriksson?] bassaleikari, Tom [?] trommuleikari, og Svanur Vilbergsson gítarleikari. Síðar breyttist skipan sveitarinnar nokkuð eftir eðli tónleika og staðsetningu, þannig komu Árni Ísleifsson hljómborðsleikari, Ágúst Ármann Þorláksson bassa- og orgelleikari og Smári Geirsson trommuleikari við sögu hennar 1996 en ári síðar voru það Árni, Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari, Pjetur Hallgrímsson trommuleikari og Sævar [?] bassaleikari auk Garðars auðvitað.

Annars hefur skipan Blúsbrots Garðars verið afar mismunandi, Guðmundur Pétursson gítarleikari, Jóhannes M. Pétursson bassaleikari, Jón Hilmar Kárason gítarleikari, Guðjón Steinþórsson gítarleikari, Einar Bragi Bragason saxófónleikari, Þorleifur Guðjónsson bassaleikari, Björgvin Gíslason gítarleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari, Helgi Georgsson bassaleikari, Jóhann Steindórsson trommuleikari og sjálfsagt margir fleiri hafa leikið með sveitinni en ekki virðist vera föst liðsskipan á henni.

Blúsbrot hefur einkum leikið eystra á Jazzhátíð Egilsstaða og á Hammond-hátíðinni á Djúpavogi.