Funkmaster 2000 (1998-)

Funkmaster 2000

Hljómsveitin Funkmaster 2000 starfaði um nokkurra ára skeið í kringum síðustu aldamót og gaf þá út eina plötu með ábreiðu-efni. Þrátt fyrir að lítið hafi spurst til sveitarinnar hin síðustu ár er varla við hæfi að segja hana hætta störfum því sveitir á borð við hana spretta oft upp aftur, hún kom til að mynda aftur fram á sjónarsviðið 2008 og 2012, og var þá sögð vera að vinna að plötu.

Funkmaster 2000 (einnig stundum ritað Fönkmaster 2000) mun hafa verið stofnuð vorið 1998 og þá um sumarið var hún nokkuð áberandi í fönksenu sem þá spratt upp á höfuðborgarsvæðin. Meðlimir sveitarinnar í upphafi voru þeir Ómar Guðjónsson gítarleikari, Hannes Helgason hljómborðsleikari, Sverrir Þór Sævarsson trommuleikari og Kristján Orri Sigurleifsson bassaleikari en þeir höfðu vorið 1997 komist í úrslit Músíktilrauna undir nafninu Mímir og vakið þar mikla athygli. Fljótlega bættist Helgi Svavar Helgason ásláttarleikari í sveitina og þar með var hún orðin að kvintett.

Funkmester 2000 spilaði mikið opinberlega þetta sumar sem fyrr segir, og stundum léku gestir með sveitinni (s.s. Óskar saxófónleikari bróðir Ómars), sem lék svart gróft fönk eins og þeir orðuðu það sjálfir í viðtali, við góðan orðstír. Þeir félagar léku mestmegnis cover efni og það gerðu þeir á tónleikum á Vegamótum um haustið 1998 sem voru hljóðritaðir og síðan gefnir út undir nafninu Á Vegamótum. Í einu eintaki upplagsins mun hafa leynst vinningur sem var einkatónleikar með sveitinni en ekki liggja fyrir upplýsingar hvort einhver hlaut þann vinning. Platan hlaut ágæta dóma í DV.

Eftir áramótin 1998-99 fór minna fyrir Funkmaster 2000 um nokkurra mánaða skeið en sveitin birtist svo aftur um sumarið og hafði þá fengið tvo nýja liðsmenn, Davíð Þór Jónsson saxófónleikara og Valdimar Kolbein Sigurjónsson bassaleikara en Kristján Orri var þá hættur. Síðsumars hætti svo Sverrir trommuleikari og leysti Birgir Baldursson hann af um tíma en tók svo alveg við keflinu. Davíð Þór lék ekki lengi með þeim félögum því hann fór utan til náms haustið 1999, Sigurður Flosason, Jóel Pálsson og Samúel Jón Samúelsson léku þá stundum með sveitinni sem gestaspilarar.

Á nýrri öld, árið 2000 var sveitin ráðin til að vera eins konar húshljómsveit á Cafe Ozio og þar lék sveitin á fimmtudagskvöldum fram á vorið að minnsta kosti (og víðar auðvitað), um það leyti fóru þeir í nokkurra vikna pásu og birtust svo aftur með breyttar áherslur, höfðu þá að mestu lagt til hliðar ábreiðurnar en höfðu snúið sér að frumsömdu efni, þá söng Helgi eitthvað með sveitinni.

Funkmaster 2000 spilaði ekki eins ört eftur þetta, talað var um í fjölmiðlum að sveitin ynni að nýrri plötu en áður en að útgáfu hennar kæmi hætti sveitin störfum um haustið 2000.

Lítið hefur heyrst til Funkmaster 2000 síðan þá en hún hefur þó að minnsta komið saman aftur, haustið 2008 í stuttu samstarfi við söngkonurnar Urði Hákonardóttur og Kristjönu Stefánsdóttur, og svo árið 2012 en þá voru þeir enn og aftur sagðir vera að vinna að plötugerð. Enn er beðið eftir þeirri plötu og því þykir ekki við hæfi að afskrifa sveitina strax að minnsta kosti.

Efni á plötum