Frændkórinn (1991-2004)

Frændkórinn

Frændkórinn var um margt merkilegur kór en hann var eins og nafn hans gefur til kynna kór sem eingöngu var skipaður venslafólki. Hann starfaði í hartnær fimmtán ár og sendi frá sér eina plötu.

Kórinn sem var blandaður mun hafa verið stofnaður sumarið 1991 í tengslum við ættarmót afkomenda hjónanna Jóns Gíslasonar og Þórunnar Pálsdóttur frá Norður-Hjáleigu í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu en þau áttu tólf börn sem komust á legg. Margt söngfólk var í fjölskyldunni og t.a.m. mynduðu átta synir þeirra Jóns og Þórunnar tvöfaldan kvartett og sungu við ýmis tækifæri.

Í fyrstu var kórinn skipaður börnum og barnabörnum hjónanna og voru meðlimir hans því allt niður í barnsaldur, síðar var sett sextán ára aldurstakmark við hann. Kórinn æfði nokkuð reglulega þótt ekki væri það alveg samfleytt því fólkið var búsett víða um Suðurland og höfuðborgarsvæðið og aðstæður til að æfa nokkuð erfiðar vegna þess, yfirleitt var þó æft einu sinni í viku ýmist á höfuðborgarsvæðinu, á Selfossi eða Kálfholti, rétt austan Þjórsár en þar var Eyrún Jónasdóttir kórstjóri búsett. Hún er einn afkomenda hjónanna frá Norður-Hjáleigu og stjórnaði kórnum allan þann tíma sem hann var starfræktur utan eins árs en þá var Sigrún Þorgeirsdóttir við stjórnvölinn.

Frændkórinn var misstór eins og gengur og gerist, var skipaður allt frá líklega átján og upp í þrjátíu manns þegar mest var en alls munu á sjötta tug söngfólks þriggja ættliða úr fjölskyldunni hafa haft þar viðveru. Kórinn hélt víða tónleika, einkum á Suðurlandi en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Vorið 2000 hljóðritaði kórinn fjögur lög í Digraneskirkju og fjórum árum síðar önnur átta lög, síðar sama ár (2004) bættust við sex lög og í kjölfarið kom út plata undir titlinum Hin fjölstofna eik, sem kórinn gaf út sjálfur. Á henni var að finna íslensk og erlend lög úr ýmsum áttum en fjölbreytileg tónlist einkenndi söng kórsins alla tíð, þar er jafnframt að finna lagið Nú vinir og frændur en það er eins konar „ættarlag“ og sungið við ýmis tækifæri.

Svo virðist sem Frændkórinn hafi hætt störfum um það leyti sem platan kom út en platan er ágætur minnisvarði um þennan merkilega kór sem eingöngu var skipaður afkomendum hjónanna úr Álftaverinu.

Efni á plötum