Big band Brútal (1998-2001)

Big band Brútal

Hljómsveitin Big band Brútal var angi af Tilraunaeldhúsinu sem var áberandi í kringum aldamótin síðustu en sveitin lék einhvers konar tilraunakennda raftónlist.

Meðlimir sveitarinnar sem stofnuð var 1998, voru Böðvar Yngvi Jakobsson (Böddi Brútal) söngvari, Ólafur Björn Ólafsson (ÓBÓ) trommuleikari, Daði Birgisson hljómborðsleikari, Arnþrúður Ingólfsdóttir tölvu og hljómborðsleikari og Kristín Björk Kristjánsdóttir (Kira Kira) sampler- og gítarleikari og söngkona. Daði hætti í sveitinni árið 2000.

Big band Brútal lék einkum á tónleikum tengdum Tilraunaeldhúsinu en fóru einnig til útlanda til spilamennsku, m.a. til Finnlands. Þá lék sveitin undir teiknimyndum Hugleiks Dagssonar á tónleikum á nektarbúllu en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem hreyfimyndir Hugleiks voru sýndar opinberlega.

Sveitin átti efni á fáeinum safnplötum, Tilraunaeldhúsið 1999, Óvæntir bólfélagar Motorlab#2 og Nart nibbles en sveitin sendi aldrei frá sér eigin plötu.