Spúnk (1998- 2003)

Spúnk

Hljómsveitin Spúnk (einnig ritað Spunk) var nokkuð í sviðsljósinu undir lok síðustu aldar og var angi af svokallaðri krútttónlist sem þá var að koma fram á sjónarsviðið, tvær forsprökkur sveitarinnar hafa síðar gefið út sólóefni.

Spúnk var stofnuð í upphafi árs 1998 og var í raun frá upphafi dúett þeirra Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur og Arnþrúðar Ingólfsdóttur en þær fengu sér til fulltingis aðstoðarfólk eftir þörfum og um tíma er hægt að segja að um eiginlega hljómsveit hafi verið að ræða. Tónlistina skilgreindu þær sjálfar sem jeppatónlist en hugtakið rafpopp er mun meira lýsandi fyrir hana.

Sveitin kom fyrst fram í Músíktilraunum um vorið 1998 og þá voru í henni auk þeirra stallna þau Bjarni Benedikt Björnsson kontrabassaleikari, Gerður Jónsdóttir kontrabassaleikari og Hrafnhildur Guðrúnardóttir ásláttarleikari en þær Kristín Björk og Arnþúður sáu um söng, gítarleik og forritun. Þó svo að Spúnk kæmist ekki áfram í úrslit Músíktilrauna vakti sveitin athygli þó ekki nema væri fyrir að innihalda tvo kontrabassaleikara og á úrslitakvöldinu var hún verðlaunum með hljóðverstímum sem önnur af tveimur athyglisverðustu sveitum keppninnar. Sveitin nýtti sér hljóðverstímana til að taka upp tvö lög sem fóru síðan á tíu tommu split-vínylplötu ásamt hljómsveitinni Múm sem einnig var að stíga sín fyrstu spor en sú plata kom út síðsumars undir titlinum Stefnumót kafbátanna. Platan var í eins konar plast umslagi og er ýmist sögð hafa komið út í 300 eða 500 eintökum, og er fyrir löngu síðan orðin fágætur og eftirsóttur safngripur.

Spúnk sumarið 1998

Spúnk lék nokkuð um sumarið og haustið og fór m.a. ásamt Múm til Bretlands að spila, um það leyti voru kontrabassaleikararnir Gerður og Bjarni Benedikt að spila með þeim en einnig Kristján Guðjónsson hljómborðsleikari sem Sigríður Björg Sigurðardóttir leysti síðan af hólmi um haustið. Hugsanlega komu fleiri við sögu sveitarinnar en kjarni hennar var þó alltaf Kristín Björk og Arnþrúður.

Spúnk spilaði töluvert árið 1999, t.a.m. á uppákomum Tilraunaeldhússins, en um það leyti voru þær einnig að koma fram með nýja sveit, Big band Brutal sem tók nokkuð við af sveitinni en hún starfaði þó eitthvað áfram. Þannig mun hún hafa verið starfandi í einhverri mynd allt fram á haust 2003. Kristín Björk hóf síðar sólóferil undir nafninu Kira Kira og Arnþrúður einnig síðar og báðar hafa þær sent frá sér sólóefni þótt Kira Kira hafi verið öllu meira áberandi í tónlistarsköpun sinni.

Efni á plötum