Afmælisbörn 6. ágúst 2017

Jóhann Helgason

Þrjú afmælisbörn í tónlistargeiranum líta dagsins ljós að þessu sinni:

Jóhann Helgason er sextíu og átta ára í dag. Jóhann er einn okkar fremsti lagahöfundur og söngvari og á ógrynni laga sem allir þekkja, meðal þeirra má nefna Söknuður, Seinna meir, Take your time og Karen svo fáein dæmi séu nefnd. Jóhann hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum og dúettum, þar má nefna Þú og ég, Change, Magnús og Jóhann, Pal brothers, Póker, Ábót og Lummurnar.

Jón Ólafsson, oftast kenndur við Skífuna er sextíu og þriggja ára gamall. Tenging hans við íslenskt tónlistarlíf er fyrst og fremst í gegnum Skífuna sem hann stofnaði og starfrækti en áður hafði hann meðal annars rekið útgáfu- og umboðsfyrirtækin Demant hf., Hljómplötuútgáfuna og Júdas. Upphafið af þessu má hins vegar rekja til þess er hann var titlaður framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar Júbó árið 1970.

Einnig hefði Hilmar Kristjánsson gítarleikari Dáta átt afmæli á þessum degi en hann lést 1978. Hilmar (fæddur 1946) stofnaði Dáta 1965 en hætti ári síðar í sveitinni, hann lék þó á fyrstu plötunni sem hafði m.a. að geyma lagið Leyndarmál. Hann gerði tilraun til að endurreisa sveitina 1973 en sú útgáfa Dáta starfaði stutt.