
Björn R. Einarsson
Björn R. Einarsson básúnuleikari var lengi fremstur meðal jafningja hér á landi, hann starfrækti hljómsveitir, var meðal frumkvöðla djassleikara hér á landi, lék inn á ótal plötur, stjórnaði lúðrasveitum, kenndi tónlist og margt fleira.
Björn Rósinkranz Einarsson fæddist árið 1923 í Reykjavík og bjó þar alla ævi, líklega alla tíð í miðbænum. Hann þótti mikið íþróttaefni, keppni í sundi, skíðum og hnefaleikum, og þótt efnilegur hlaupari þótt hann æfði aldrei þá grein, keppti einungis.
Hann var þó fyrst og fremst efnilegur tónlistarmaður, fyrst í stað nam hann ungur píanóleik af móður sinni en síðan hjá Franz Mixa og Karli O. Runólfssyni, þá lærði Björn hljómfræði hjá Jóni Þórarinssyni. Hann þótti ennfremur hafa sönghæfileika og söng í Drengjakór Reykjavíkur og átti síðar eftir að syngja inn á plötur. Björn lærði einnig á harmonikku og trompet áður en hann tók til við básúnuna um tvítugt fyrir tilstuðlan Alberts Klahn sem þá stjórnaði Lúðrasveit Reykjavíkur. Básúnuleikara vantaði í sveitina og Björn nam af Alberti og síðan Vilhelm Lansky-Otto, og þótti mikið efni. Sagan segir að Albert hafi skoðað upp í Björn og kveðið upp þann dóm að hann væri fullkominn básúnublásari.
Á þessum tíma þótti ekki tryggt að hafa tónlistina eingöngu og því menntaði Björn sig í rakaraiðninni, og varð meistari í greininni. Hann starfaði um nokkurra ára skeið við iðn sína og var með rakarastofu ásamt öðrum í Trípólí kampi sem var offíserakampur á þeim slóðum sem Háskólabíó stendur í dag, breski herinn rak þar stofu og kynntist Björn erlendum djasshljómsveitum og tónlistarmönnum af hermönnum, og æfði m.a.s. á stofunni. Þegar hljómsveit Buddy Featherstonhaugh kom hingað til lands árið 1947 heyrðu þeir hann blása og buðu honum í kjölfarið til Bretlands, í þeirri ferð hlustaði hann mikið á þarlendar sveitir og lærði þ.a.l. mikið. Síðar fór hann að minnsta kosti tvívegis til Bandaríkjanna til að mennta sig frekar í faginu og dvaldist hann þar samtals í nokkra mánuði tvö sumur í einkakennslu. Af öðrum störfum Björn ótengdum tónlist má nefna að um miðjan sjöunda áratuginn stofnaði hann túnþökufyrirtæki sem hann starfrækti ásamt sonum sínum í áratugi.
Fyrst í stað lék Björn ásamt öðrum á harmonikku á dansleikjum (líklega bæði í dúettum og tríóum) en árið 1945 stofnaði hann Hljómsveit Björns R. Einarssonar sem lék um tíma í Hljómskálanum, og hann átti eftir að starfrækja sveitir í eigin nafni nánast ævina á enda þótt með hléum væri. Þær voru misstórar, allt frá því að vera tríó og upp í stórsveitir og dixielandssveitir, og mun sveit hans hafa verið fyrsta alíslenska djasshljómsveitin þ.e. skipuð Íslendingum einvörðungu. Sveitir hans léku þó mestmegnis danstónlist og söng hann sjálfur oft með þeim, þó yfirleitt ásamt öðrum söngvara. Þá starfrækti hann um tíma hljómsveitir eins og Big band ´81 og Big band Björns R. Einarssonar. Þess má geta að einhverju sinni fór Björn með sveit sína hringinn í kringum landið og hélt tónleika víðs vegar um land við góðar undirtektir, þetta þótti gefast svo vel að þeir Björn og Bjarni Böðvarsson mynduðu eins konar stórsveit úr hljómsveitum sínum, fóru út á landsbyggðina í sama tilgangi og léku víða við miklar vinsældir.

Á yngri árum
Björn varð líka þekktur fyrir að leika á fyrstu djasstónleikunum sem haldnir voru hérlendis, þegar Jonni í Hamborg (Jóhannes Þorsteinsson) trompetleikari hélt djasstónleika í Gamla bíói vorið 1946 og fékk sér til aðstoðar Björn sem lék á básúnu, Baldur Kristjánsson píanóleikara, Karl Karlsson trommuleikara og Gunnar Egilson klarinettuleikara.
Á þessum upphafsárum Björns í tónlistinni, á síðari hluta fimmta áratugarins og allan þann sjötta var hann mjög áberandi í tónlistarlífi Íslendinga og ekki eingöngu vegna tónlistarhæfileika sinna, hann annaðist t.a.m. fyrsta óskalagaþátt Ríkisútvarpsins, Óskalög sjúklinga, um tíma við miklar vinsældir, löngu síðar var hann með djassþætti í útvarpinu.
Björn lék með fjöldanum öllum af hljómsveitum á ferli sínum, og meðal sveita sem hann lék með um lengri eða skemmri tíma má nefna Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Guðjóns Pálssonar, Hljómsveit Hafliða Jónssonar, Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, Hljómsveit Svavars Gests, Hljómsveit Einars Loga, Sextett Ólafs Gauks, BiggBand, Dixiehljómsveit Íslands, Hljómsveit FÍH, Big band FÍH, Stórsveit Reykjavíkur og Öðlingana.
Þess utan starfaði Björn með stærstu hljómsveitum landsins enda af flestum metinn sem besti básúnuleikari landsins, s.s. Hljómsveit Reykjavíkur, Útvarpshljómsveitinni undir stjórn Þórarins Guðmundssonar og Lúðrasveit Reykjavíkur en þeirri sveit stjórnaði hann reyndar einnig um tíma og gegndi þar formennsku að auki. Þá var hann fyrsti básúnuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun 1950 og allt til ársins 1994 þegar hann lét af störfum sökum aldurs en þá var hann orðinn sjötíu og eins árs gamall.
Björn kenndi tónlist um tíma, m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarskóla FÍH, Tónlistarskólann í Keflavík og Tónlistarskóla Garðabæjar en innan síðast talda skólans stjórnaði hann einnig unglingalúðrasveit. Fyrir FÍH vann Björn aukinheldur að félags- og réttindamálum, var í stjórn félagsins um skeið. Þá var hann í stjórn starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Björn Rósinkranz
Eins og rétt er hægt að ímynda sér er básúnuleik (og söng) Björns R. Einarssonar að finna víða á plötum. Upphafið af því var þó ekki sérlega jákvætt. Tage Ammendrup stofnaði árið 1947 hljómplötuútgáfuna Íslenzka tóna og hafði gert upptökur með hljómsveit Björns í Radíóstofunni við Óðinsgötu, tvö lög (Christopher Columbus / Summertime) sem annars vegar var instrumental og hins vegar með söng Björns. Það kom Birni hins vegar í opna skjöldu þegar plata var skyndilega komin út síðla árs 1948 en hann hafði staðið í þeirri meiningu að um prufuupptökur væri að ræða enda bæði söngur og hljóðfæraleikur ekki nándar nærri eins góður og hann hefði viljað og upptakan þar að auki ófullnægjandi. Upplagið, á fjórða hundrað eintaka, var hins vegar komið út og bauðst Björn þá til að kaupa öll eintökin en því hafnaði Tage. Það varð því úr að málið fór fyrir dómstóla enda vildi Björn fá lögbann á plötuna. Því lauk ekki fyrr en 1952 fyrir hæstarétti að Björn vann málið en sagan segir reyndar að þá hafi upplagið verið löngu uppselt enda hefði Björn ekki farið fram á platan yrði tekin úr sölu án tafar. Þessi tveggja laga plata er almennt talin vera fyrsta íslenska platan með danstónlist.
Það sama ár og málinu lauk, 1952, kom út á vegum Hljóðfæraverzlunar Sigríðar Helgadóttur tveggja laga plata (Sérhvert sinn / Lover come back to me) þar sem Björn bæði söng og lék á básúnuna. Engar sögur fara af viðtökum um þá plötu en 1954 komu síðan út þrjár plötur á vegum Músíkbúðarinnar Tóniku sem höfðu að geyma söng og básúnuleik hans, Gunnar Egilson söng með honum á öllum plötunum þremur og sönghópurinn Öskubuskur komu einnig við sögu á einni þeirra. Hljómsveitir Björns og Magnúsar Ingimarssonar léku undir á þeim plötum.
Árið 1956 kom út enn ein tveggja laga platan, lögin Ævinlega / Ekki fædd í gær komu þá út á vegum Sigríðar Helgadóttur og sungu þau Björn og Adda Örnólf lögin. Það var síðan árið 1967 þegar Björn lék með Sextett Ólafs Gauks, að sveitin sendi frá sér fjögurra laga plötu sem SG-hljómplötur gaf út. Á þeirri plötu nutu tvö lög mikilla vinsælda, Segðu ekki nei sem söngkona sveitarinnar Svanhildur Jakobsdóttir söng, og framlag Björns – Því ertu svona upptökk? en bæði lögin eru löngu orðin sígild. Lag Björns er auðvitað að finna á fjölda safnplatna sem komið hafa út. Til er útgáfa af laginu Litla flugan (e. Sigfús Halldórsson) þar sem Björn syngur kvartett (fjórraddað) en slíkar tilraunir voru ekki algengur á þeim tíma. Sú útgáfa hefur aldrei verið gefin út á plötu en hún hefur stöku sinnum verið leikin í dagskrá Ríkisútvarpsins enda upptakan varðveitt í þeirri stofnun.

Björn með hljóðfærið
Þá lék Björn inn á fjölda hljómplatna, bæði með hljómsveitum sínum, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Reykjavíkur og Lúðrasveit Reykjavíkur en einnig sem session maður s.s. á plötum tónlistarfólks og hljómsveita eins og Ellyjar Vilhjálms, Þokkabótar, Þorvaldar Halldórssonar, Graham Smith, Grettis Björnssonar, Halla og Ladda, Fjórtán fóstbræðra, Diabolus in musica, Þuríðar Sigurðardóttur og Pálma Gunnarssonar, Vilhjálms Vilhjálmssonar, Kötlu Maríu, Ljósanna í bænum, Júdasar, Jóhanns Helgasonar, Silfurkórsins og Mannakorna svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Hér er giskað á að básúnuleik hans megi finna á hundruðum platna fremur en tugum. Þá er þess ógetið að hann lék á hundruðum tónleika af ýmsu tagi á ferli sínum en hann var að spila opinberlega að minnsta kosti til ársins 2003.
Björn hlaut ótal viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistargyðjunnar, hann var oft kjörinn básúnuleikari ársins á vegum tónlistartímaritinu Jazz hér fyrrum og síðar hlaut hann gullmerki FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna) og Fálkaorðuna. Þá hafa tónleikar verið haldnir honum til heiðurs.
Björn R. Einarsson lést árið 2014, rétt rúmlega níutíu og eins árs gamall. Þess má geta að faðir hans lék á básúnu (í Lúðrasveit Reykjavíkur), sem og sonur hans Oddur Björnsson, barnabarn Björns – Baldvin Oddsson er jafnframt trompetleikari en sá lauk einleikaraprófi aðeins fimmtán ára gamall yngstur allra á Íslandi. Þarna er því um að ræða fjórar kynslóðir blásara í karllegg, sem hlýtur að teljast einsdæmi að minnsta kosti hér á landi. Annars var Guðmundur R. Einarsson bróðir Björns kunnur trommuleikari, og aðrir synir Björns hafa einnig fengist við tónlistarsköpun, þeir Björn Björnsson trommuleikari (Mannakorn o.fl.) og sr. Gunnar Björnsson sellóleikari.