Björn Þórarinsson (1943-)

Björn Þórarinsson

Tónlistarmaðurinn Björn Þórarinsson, oft nefndur Bassi, var einn af Mána-liðum en starfaði með fjöldanum öllum af hljómsveitum.

Björn Stefán Þórarinsson er fæddur 1943 á Selfossi og ólst upp á bænum Glóru í Hraungerðishreppi þar sem hann komst fyrst í tæri við tónlistina. Hann var vel innan við tvítugt þegar hann byrjaði að spila með hljómsveitum og voru Tónabræður líkast til fyrsta sveitin sem hann starfaði með, Caroll quintet fylgdi í kjölfarið og síðan Safír sextett en sú sveit lék um allt Suðurlands undirlendið, reyndar rétt eins og hinar sveitirnar tvær.

Í þessum fyrstu sveitum sínum lék Björn líklega mestmegnis á gítar en þegar hljómsveitin Mánar var stofnuð 1965 lék hann í þeirri sveit á orgel og hljómborð og það varð síðan hans aðalhljóðfæri, þá hefur hann bæði leikið á harmonikku og saxófón. Mánar urðu verulega vinsæl hljómsveit einkum á árunum í kringum 1970 og Suðurlandið varð þeirra aðalvígi.

Þegar Mánar liðu undir lok (í bili) árið 1973 fluttist Björn til Reykjavíkur til að nema tónlist og þar bjó hann næstu fjögur árin eða svo. Þá um haustið gekk hann í hljómsveitina Kaktus sem fór mikinn á sveitaballamarkaðnum og starfaði allt til ársins 1990 með hléum, hann lék með fleiri hljómsveitum næstu áratugina s.s. Pardus, Rótum og Pondus svo dæmi séu nefnd en allt voru þetta sveitir sem reru á svipuð mið.

Árið 1975 gáfu þeir bræður, Björn og Ólafur Þórarinssynir (Labbi í Mánum / Labbi í Glóru) út tveggja laga plötu (200 mílurnar / Ég sé þig í draumi) en platan vakti nokkra athygli þar sem Íslendingar voru um þær mundir að færa landhelgismörkin í tvö hundruð mílur. Fyrrnefnda lagið var eftir Björn.

Björn útskrifaðist sem tónmenntakennari árið 1977 og fór þá aftur austur á Selfoss og hóf að kenna þar við tónlistarskólann, þar var hann til ársins 1980 en fluttist þá aftur á höfuðborgarsvæðið og kenndi tónlist við Snælandsskóla í Kópavogi næsta áratuginn. Hann stjórnaði einnig um tíma Kór Snælandsskóla.

Árið 1990 fluttu Björn og Sigríður Birna Guðjónsdóttir eiginkona hans, sem starfað hafði með honum í nokkrum sveitanna, norður í Þingeyjasýslu en hann gerðist þá skólastjóri tónlistarskólans á Laugum í Reykjadal. Þar störfuðu þau hjónin til ársins 1997 en fluttu sig þá yfir í Eyjafjörðinn og hóf hann þá að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri. Þau hjónin voru virk í tónlistarlífinu nyrðra og starfræktu þar m.a. hljómsveitina Frænku hreppstjórans en þar fyrir utan stjórnaði hann barnakórum á Laugum, vann sem tónlistarstjóri í skólauppfærslum í Reykjadal og á Akureyri, og stjórnaði einnig Barnakór Glerárkirkju um nokkurra ára skeið.

Á Akureyrar-árunum stofnsettu þau hjónin einkarekinn tónlistarskóla, Tónræktina sem þau starfræktu um skeið. Björn lék þá einnig um tíma í hljómsveitinni Norðurbandalaginu. Þess má geta að hann var bæjarlistamaður Akureyrarbæjar árið 2009.

Síðustu árin hefur Björn búið í Hveragerði.

Björn hefur leikið á fjölda hljómplatna í gegnum tíðina s.s. plötum Mána en einnig hjá Ólafi bróður sínum, Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni, Gunnari Óskarssyni o.fl. Þá hefur hann samið nokkur lög sem komið hafa út á plötum.

Efni á plötum