Afmælisbörn 7. apríl 2019

Andrea Jónsdóttir

Þrjú afmælisbörn heiðra þennan dálk Glatkistunnar í dag:

Megas (Magnús Þór Jónsson) er sjötíu og fjögurra ára á þessum degi. Megas þarf auðvitað ekki að kynna sérstaklega en hann hefur verið einn af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar allt því því að hans fyrsta plata kom út árið 1972. Síðan hafa komið út á fjórða tug platna með Meistara Megas eins og hann er stundum kallaður, hann er ekki allra og hefur alltaf verið umdeildur en í seinni tíð hafa æ fleiri tekið hann og verk hans í sátt. Umdeildir textar Megasar eru aðalsmerki hans, en lög hans og ekki síst rödd hafa verið fólki hugleikin. Meðal laga sem hann hefur samið má nefna Spáðu í mig, Komdu og skoðaðu í kistuna mína, Tvær stjörnur, Fatlafól, Krókódílamaðurinn, Reykjavíkurnætur, Paradísarfuglinn, Ragnheiður biskupsdóttir og mörg önnur. Megas hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir tónlist sína en hann hefur einnig afþakkað slíkar viðurkenningar.

Andrea Jónsdóttir fjölmiðlakona og tónlistarskríbent með meiru á stórafmæli en hún er hvorki meira né minna en sjötug í dag, hún hefur annast dagskrárgerð í útvarpi, skrifað um tónlist í blöðum og komið að íslenskri tónlist með einum og öðrum hætti í áratugi og er iðulega nefnd Rokkamma Íslands.

Síðast afmælisbarna dagsins skal telja Hrafnkel Orra Egilsson sellóleikara en hann er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur leikið á mörgum plötum annarra listamanna en hefur einnig starfað t.a.m. í strengjakvartettnum Húgó.