Afmælisbörn 30. apríl 2019

Guðjón Matthíasson

Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Sigfús Ólafsson tónlistarmaður og -kennari er sjötíu og fimm ára gamall í dag. Sigfús gaf út fyrir nokkrum árum plötuna Ég elska þig enn en á henni er að finna frumsamin lög eftir hann, sjálfur lék Sigfús með fjölmörgum hljómsveitum hér áður fyrr og má þar nefna sveitir eins og Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Ása, Capella og Hljómsveit Gissurar Geirs. Sigfús hefur ennfremur gefið út kennsluefni í tónlist.

Einnig hefði Guðjón Matthíasson harmonikkuleikari, lagasmiður og hljómsveitastjóri átt afmæli á þessum degi en hann fæddist 1919. Guðjón hóf sinn feril reyndar sem söngvari en starfrækti síðar harmonikkusveitir undir eigin nafni og fjölmargar plötur komu út með harmonikkuleik hans, hann samdi jafnframt lög sem m.a. unnu til verðlauna í dægurlagakeppnum SKT á árum áður. Margar af þessum plötum gaf hann út sjálfur undir merkjum GM-tóna. Guðjón lést árið 2003.