Muri (1977-)

Muri – Steingrímur Árnason

Tónlistarmaðurinn Muri vakti nokkra athygli í lok síðustu aldar fyrir raftónlist sína, hann sneri síðan baki við tónlistina að mestu og starfar í dag við tölvu- og hugbúnaðargeirann.

Steingrímur Árnason (fæddur 1977) sem kallaði sig Mura, byrjaði að vekja athygli þegar hann sigraði plötusnúðakeppni félagsmiðstöðvanna vorið 1992. Hann hafði reyndar klassískan bakgrunn sem hann nýtti sér síðan til að vinna eigin tónlist (bæði ambient og hardcore) og nokkrum árum síðar fór hann að koma fram undir Mura-nafninu, m.a. á tónlistarhátíð í Tjarnarbíó og víðar.

Árið 1996 átti Muri lag á safnplötunni Icelandic dance sampler og tveimur árum síðar sendi hann frá sér lög í samstarfi við annars vegar rappsveitina Multifunktionals og hins vegar Blanco, bæði lögin nutu nokkurra vinsælda á útvarpsstöðinni X-inu og rötuðu svo inn á safnplötuna Svona er sumarið 98.

Í kringum aldamótin hóf hann að starfa við hugbúnaðargeirann, m.a. fyrir Apple og upp frá því hætti hann að vinna tónlist, að minnsta kosti opinberlega.

Þess má geta að kötturinn Muri, sem m.a. varð frægur fyrir að „leika“ í myndbandi Bjarkar Guðmundsdóttur við lagið Triumph of the heart, var nefndur eftir Steingrími.