Heiglar – ný plata Pink street boys

Hljómsveitin Pink street boys sendi nýverið frá sér nýja plötu en hún ber heitið Heiglar og er fjórða afurð sveitarinnar, áður hafði sveitin sent frá sér plöturnar Trash from the boys (2014) sem einnig kom út á kassettu í takmörkuðu upplagi, Hits #1 (2015) og Smells like boys (2017).

Heiglar er tíu laga og er fyrsta plata Pink street boys á íslensku en fyrri plötur sveitarinnar hafa að geyma tónlist með enskum textum. Tónlistin hefur verið skilgreind sem skítugt bílskúrsrokk og hefur sveitin verið sögð háværasta hljómsveit Íslands.

Pink street boys var stofnuð í æfingahúsnæði við Bleika götu í Kópavogi árið 2013 og þaðan kemur einmitt nafn sveitarinnar, meðlimir PSB eru Axel Björnsson gítarleikari og söngvari, Jónbjörn Birgisson gítarleikari og söngvari, Víðir Alexander Jónsson bassaleikari og söngvari, Einar Björn Þórarinsson trommuleikari og Alfreð Óskarsson slagverks- og gítarleikari.

Það er Reykjavík record shop sem gefur Heigla Pink street boys út.